Flug og blóðtappar

Ferðir og ferðalög

  • Ferda

Það er jákvæð fylgni milli blóðtappa (segamyndun í blóðrás) og langra flugferða, það er að segja langar flugferðir, sérstaklega þær sem fara yfir 8 klst., geta aukið líkur á að fá blóðtappa í fæturna.

Orsökin er að mestu óþekkt en helstu áhættuþættir eru eftirfarandi:

  • Langar kyrrsetur.
  • Lægri loftþrýstingur inni í flugvélinni veldur því að almennt er minna súrefni í blóði farþega en venjulega.
  • Vökvasöfnun á fætur (bjúgur) vegna hreyfingaleysis.
  • Vökvatap.

Það skal tekið sérstaklega fram að líkurnar á því að fá blóðtappa í flugi eru mjög litlar, jafnvel þó að einstaklingur sé greindur með hjartasjúkdóm. Notkun blóðþynnandi lyfja fyrir flugferðir er venjulega ekki nauðsynleg. Það er læknirinn þinn sem ákveður hvort þú þurfir á slíkum lyfjum að halda eða ekki.

Nýttu þér eftirfarandi ráð til þess að fyrirbyggja að þú fáir blóðtappa:

  • Hreyfðu þig eins mikið og mögulegt er. Gakktu fram og tilbaka í gangi flugvélarinnar (án þess þó að trufla aðra) og taktu nokkrar hnébeygjur af og til. Hreyfðu fæturna og tærnar þar sem þú situr.
  • Ekki sitja með krosslagða fætur og forðastu að láta sætið í vélinni þrýsta of mikið á neðanverð lærin.
  • Fáðu þér svokallaða flugsokka eða stuðningssokka áður en þú leggur af stað og vertu í þeim á meðan á flugferðinni stendur.
  • Drekktu mikið af vökva. Forðastu áfengi og koffíndrykki þar sem hvoru tveggja þurrkar upp líkamann.
  • Ef þú átt í vandræðum með heilsuna, ert nýkominn úr skurðaðgerð eða ert barnshafandi, spurðu þá lækninn þinn áður en þú ferð hvort þú ættir að gera eitthvað meira fyrirbyggjandi til að koma í veg fyrir blóðtappa í fótum.

Flugsokkar, öðru nafni stuðningssokkar, eru hnéháir, teygjanlegir sokkar sem hjálpa til við að þrýsta blóðinu úr fótunum og aftur til hjartans. Stuðningurinn er mestur í kringum ökklana en minni yfir kálfana. Sokkarnir auka blóðstreymið í fótunum og hjálpa til við að koma í veg fyrir bjúg og óþægindi sem fylgja löngum kyrrsetum á flugferðum. Notkun þeirra dregur einnig úr hættunni á því að fá blóðtappa í fætur.


Flugsokkar líta út eins og venjulegir sokkar. Það er hægt að fá þá fyrir karla og konur í brúnu, hvítu og svörtu. Stærð sokkanna sem þú kaupir fer eftir þinni skóstærð.

Flugsokkar fást í apótekum og netverslun Lyfju | Skoða hér