Flug og bólgnir fætur

Ferðir og ferðalög

  • Bolgnir-faetur

Ef setið er í flugvél í marga klukkutíma samfleytt, eiga fæturnir það til að bólgna upp. Þetta gerist vegna þess að þegar við hreyfum ekki vöðvana í fótunum, kemst blóðið ekki aftur til hjartans sem skyldi. Þá safnast vökvi fyrir í fótunum og það myndast bjúgur.

Þú getur minnkað líkurnar á að fá bjúg á fæturna verulega með því að fylgja ráðunum hér að neðan.

Góð ráð

  • Hreyfðu þig eins mikið og mögulegt er. Gakktu fram og tilbaka í gangi flugvélarinnar (án þess þó að trufla aðra) og taktu nokkrar hnébeygjur af og til. Hreyfðu fæturna og tærnar þar sem þú situr.
  • Ekki sitja með krosslagða fætur og forðastu að láta sætið í vélinni þrýsta of mikið á neðanverð lærin.
  • Fáðu þér svokallaða flugsokka eða stuðningssokka áður en þú leggur af stað og vertu í þeim á meðan á flugferðinni stendur.
  • Drekktu mikið af vökva. Forðastu áfengi og koffíndrykki þar sem hvoru tveggja þurrkar upp líkamann.
     

Flugsokkar, öðru nafni stuðningssokkar, eru hnéháir, teygjanlegir sokkar sem hjálpa til við að þrýsta blóðinu úr fótunum og aftur til hjartans. Stuðningurinn er mestur í kringum ökklana en minni yfir kálfana. Sokkarnir auka blóðstreymið í fótunum og hjálpa til við að koma í veg fyrir bjúg og óþægindi sem fylgja löngum kyrrsetum á flugferðum.

Flugsokkar líta út eins og venjulegir sokkar. Það er hægt að fá þá fyrir karla og konur í brúnu, hvítu og svörtu. Stærð sokkanna sem þú kaupir fer eftir þinni skóstærð.

Flugsokkar fást í apótekum Lyfju | Skoða hér