Ginseng

Náttúruvörur

  • Gingseng

Ginseng er lágvaxin, fjölær jurt og þykir einstaklega erfið í ræktun. Í hefðbundnum, kínverskum lækningum er ginseng talið heilsubætandi, sefandi og hjartastyrkjandi og jurtin er talin auka vessaframleiðslu líkamans. 

Fræðiheiti
Panax ginseng C.A. Mey., stundum undir heitinu Panax schinseng Nees.
Ætt: Bergfléttuætt Areliaceae.

Önnur heiti Asíuginseng.

Enskt heiti Ginseng.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunum í kaflanum “Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna“.

Hvað er ginseng?
Ginseng er lágvaxin, fjölær jurt og þykir einstaklega erfið í ræktun. Ræturnar þroskast hægt og uppskera fæst af þeim aðeins sjötta hvert haust. Jurtin er skuggakær. Ræturnar eru einkum þurrkaðar og oft verkaðar sérstaklega áður en þær eru notaðar til lækninga. 

Notkun
Ættkvíslarheitið “Panax“ er komið úr grísku og merkir “algræðandi“ og slíkur átrúnaður hefur fylgt ginseng á sumum svæðum í Asíu um þúsaldir. Í fyrndinni veittu unnendur jurtarinnar í Kína, Japan, Kóreu, Rússlandi og víðar því athygli að rótin minnti mjög svo á mannslíkama að lögun og hófu að nota hana sem alhliða heilsubótar- og endurnýjunarlyf í því skyni að tryggja og viðhalda góðri heilsu fremur en að nota hana við einhverjum tilteknum sjúkdómi. Ginseng var í þeirra augum svipað og vítamíntöflur í augum Vesturlandabúa nú á tímum. 1

Í hefðbundnum, kínverskum lækningum er ginseng talið heilsubætandi, sefandi og hjartastyrkjandi og jurtin er talin auka vessaframleiðslu líkamans. Hugtökin “heitur“ og “kaldur“ eru eiginleikar sem eru taldir fólgnir bæði í lyfjum og þeim sjúkdómum sem lyfin koma að gagni við. Í Ameríku vex önnur ginsengtegund sem er talin búa yfir “köldum“ eiginleika, en asíuginsengið er hins vegar talið hafa til að bera “heitan“ eiginleika sem sé heppilegur þar eð hann eykur “hita“ blóðsins og æðakerfisins. Ginseng hefur verið notað sem lyf, ýmist eitt sér eða með öðrum lækningajurtum, við margháttuðum kvillum, meðal annars blæðingarkvillum, ristilbólgu, höfuðverkjum, þreytu, svimakennd, getuleysi, gigt, minnisleysi og lystarleysi. Einkenni sem fylgja elliglöpum og -hrörnun sem og krabbameini hafa um aldir verið meðhöndluð með ginseng. Það þykir merkilegt að lauf asíuginsengsins, sem er ekki notað til lækninga, er sagt búa yfir svipuðum eiginleikum og rót amerísku tegundarinnar.

Upp á síðkastið hafa heimildir á Vesturlöndum beint athygli sinni að styrkjandi eiginleikum þessarar mikils metnu asísku rótar sem raktir eru til svonefndra adaptógena og tengjast nýrnahettum í verkun sinni. Adaptógen eru efni sem eru talin styrkja líkamann og byggja upp heildarmótstöðu hans gegn hvers kyns álagi, hvort sem það stafar af eðlis-, líf- eða efnafræðilegri áraun. 2 Ginseng er sagt vera lykillinn að lífsþrótti og langlífi og engin jurt taki henni fram þegar þörf er á að bæta andlegt eða líkamlegt þrek eða þegar líkaminn er viðkvæmur fyrir sýkingu. Jurtin hefur verið talin hafa mild kynörvandi áhrif.

Helstu lyfjaform
Hylki, tyggigúmmí, kjarni, seyði, duft, vökvi, rót (fersk og þurrkuð), gosdrykkur, töflur, te. Af ginseng eru til margar tegundir og flokkar sem eru afar mismunandi að gæðum. Gæðin eru einkum komin undir aldri plöntunnar og því hvaða hluti rótarinnar er notaður, ásamt þeirri verkunaraðferð sem beitt er. Rætur af mestu gæðum eru mjög dýrar og algengt er að þær séu drýgðar með annars konar efnum. Athugun sem gerð var árið 1995 á ginseng á markaði í Bandaríkjunum leiddi í ljós að allnokkrar tegundir ginsengafurða af þeim fimmtíu sem voru teknar til athugunar innihéldu alls ekkert ginseng, og önnur rannsókn sýndi fram á „mjög mikinn breytileika“ á styrk ginsengs í afurðum sem voru seldar undir tíu mismunandi vörumerkjum. Samkvæmt einni heimildinni var líklegast að menn fengju gæðavöru ef hún væri keypt í kínverskri náttúrulyfjabúð. 3

Algeng skammtastærð
Algengar skammtastærðir eru eitt til tvö grömm á dag, en í kínverskum lækningum er skammturinn talsvert stærri, allt frá einu grammi og að níu grömmum á dag. Seyði er gert af hálfri teskeið af þurrkuðu rótardufti í bolla af vatni og drukkið einu sinni til tvisvar sinnum á dag. Ef ginseng er tekið sem örvandi lyf er algengur skammtur hylki með stöðluðu 5–9 % innihaldi af ginsenósíðum sem svara til 500 til 1000 millígramma. Tekið í styrkingarskyni er 250 til 500 mg skammtur algengur.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Þótt fyrir liggi niðurstöður þúsunda rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum ginsengs eru vísindamenn (og almenningur) litlu nær um hvað það er nákvæmlega í ginsengrótinni sem hefur þessi umræddu áhrif, eða hvort hún hefur yfirleitt einhver áhrif. Það getur nefnilega reynst erfitt að greina milli vísinda og hjátrúar. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, meðal annars sú að árum saman var þess ekki getið í rannsóknarskýrslum hvaða tegund ginsengs hafði verið notuð (asískt, amerískt, síberískt eða enn aðrar tegundir), hvaða hluti rótarinnar hafði verið notaður, hvernig greiningu á gæðum og hreinleika var háttað og hver skammtastærðin var. 4 Staðlar, sem voru notaðir til þess að túlka mikilvægi rannsóknarinnar, voru jafnframt afar breytilegir.

Mönnum hefur þó, þrátt fyrir allt, tekist að varpa einhverju ljósi á fáein atriði. Asískt ginseng inniheldur sapónínglýkósíð, en það eru efnasambönd úr flokki stera sem nefnist ginsenósíð (rússneskir fræðingar nefna þessi efni panaxósíð), 5 en einnig fjölmargar fjölsykrur og önnur efnasambönd sem geta allt eins átt þátt í lyfjafræðilegum áhrifum rótarinnar. Það er býsna merkilegt að sum þessara sapónína verka algerlega andstætt öðrum efnum úr sama flokki. 6

Í niðurstöðum rannsókna á ginsengi er einkum drepið á tvenns konar virkni: styrkjandi (adaptogenic) eiginleika þess og hæfni þess til þess að bæta líkamlega eða andlega getu. 7 Fjöldi álagsprófana leiddi í ljós að ginsengkjarni jók þol nagdýra gegn sýkingu (meðal annars jókst virkni alhliða drápsfrumna (natural killer cells)), 8 jók orkugæfni efnaskipta þeirra, 9 gerði þeim kleift að synda lengur, verndaði þau gegn álagssárum og jók námshæfni þeirra, bætti minnið og jók líkamsstyrk þeirra. 10 Þessi styrkjandi áhrif hafa þó ekki komið fram í öllum rannsóknum. 11 Mikilvægasta niðurstaðan er þó kannski sú að einu haldgóðu rökin fyrir því að þessir styrkjandi eiginleikar komi líka fram hjá mönnum byggjast á frásögnum og atvikssögum og það bíður framtíðarinnar að skera úr um það með vel útfærðum rannsóknum á mönnum. Svo virðist sem þessir styrkjandi eiginleikar komi ekki fram fyrr en rótin hefur verið tekin að staðaldri í talsvert langan tíma. 12

Niðurstöður rannsókna á mönnum virðast lofandi hvað sem öðru líður, en þær eru hins vegar fáar, hafa náð til fremur fárra og eru ekki sem best útfærðar. Af sumum þeirra má til dæmis ráða að ginseng geti minnkað blóðsykur og rannsakendurnir hafa greint þann efnisþátt sem að líkindum veldur því. 13 Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa samþykkt notkun ginsengs til að styrkja og hressa þá sem eru haldnir þreytu og þrekleysi, eru í afturbata eða eru illa upplagðir til vinnu eða skortir einbeitingu. 14

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Notkun ginsengs í þúsaldir staðfestir með talsverðri vissu öryggi jurtarinnar og yfirleitt er ekki getið um alvarlegar aukaverkanir. Hjá sumum hefur jurtin þó valdið taugaóstyrk, æsingi, svefnleysi, niðurgangi og útbrotum í húð. 15

Hvorki er til skilgreining á þeirri skammtastærð sem veldur eitrun né þeim lágmarksskammti sem þarf til þess að tilætluð áhrif komi fram. Langvarandi notkun virðist örugg 16, en þó er tryggast, í ljósi þeirra aukaverkana sem getið er í heimildum og með hliðsjón af lyfjafræðilegri virkni, að forðast að taka ginseng langtímum saman (nokkra mánuði eða lengur). 17 Í nokkrum heimildum er varað við því að þeir noti ginseng sem haldnir eru skæðum sjúkdómi, háþrýstingi eða eru sykursjúkir (ginseng getur minnkað blóðsykur og þeir sem taka lyf til þess að minnka blóðsykurinn ættu ekki að nota ginseng). 18

Í niðurstöðum rannsóknar, sem var gerð 1979, er að finna lýsingu á „heilkenni ginsengofnotkunar“ og voru einkennin þægileg örvunarkennd, en einnig taugaóstyrkur, svefnleysi, hár blóðþrýstingur og fleira óæskilegt. 19 Gildi þessarar rannsóknar hefur hins vegar minnkað til muna vegna þess að í ljós hefur komið að hún var bæði illa útfærð og framkvæmd. Þátttakendur héldu til dæmis áfram að neyta efna sem innihéldu kaffín. Sökum þessa er hægt að mæla með því að þeir sem nota örvandi efni noti ekki ginseng samtímis (til dæmis þeir sem drekka mikið kaffi eða aðra kaffínríka drykki). 

Aðrar ginsengtegundir
Auk þessarar asísku tegundar eru til annars konar náttúrulyf sem eru seld undir ginsengheitinu.

Amerískt ginseng er úr annarri jurt af sömu ættkvísl og hið asíska sem fjallað var um hér að ofan. Um er að ræða tegundina Panax quinquefolius L., sem kalla mætti ameríkuginseng eða vesturginseng. Þessi tegund óx fyrrum víða um austanverða Norður-Ameríku, en er nú í útrýmingarhættu vegna ofnýtingar.

Síberíuginseng er af náskyldri tegund sem er ekki af sömu ættkvísl, en af sömu ætt. Þetta er tegundin Eleutherococcus senticosus (Rupr. og Maxim.) Maxim sem vex í talsverðum mæli í tilteknum skógum Rússlands, Kína, Kórueu og Japans. Kínverskir læknar notuðu rót síberíuginsengs til lækninga, en laufblöðin, stöngullinn og jarðstöngullinn eru einnig notuð í sama skyni.

Meginheimildir
Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, vol. 1. Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, september 1990. Leung, A.Y. Chinese Healing Foods and Herbs. Glen Rock, NJ: AYSL Corp, 1984. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Newall, C.A., et al. Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993.

Tilvísanir
1. V.E. Tyler, The Honest Herbal (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993). 2. I.I. Brekhman og I.V. Dardymov, Lloydia, 32 (1969):46. 3. Leung, A.Y. Chinese Healing Foods and Herbs. Glen Rock, NJ: AYSL Corp, 1984. 4. W.H. Lewis, „Ginseng: A Medical Enigma“, í N.O. Etkin, ritstj., Plants in Indigenous Medicine & Diet: Biobehavioral Approaches (Bedford Hills, NY: Redgrave Publ. Co., 1986) 5. I.I. Brekhman og I.V. Dardymov, sama heimild. 6. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. 7. P.C. Bradley, ritstj., British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, Vol. 1 (Bournemouth {Dorset}, England: British Herbal Medicine Association, 1992. 8. V.K. Singh, Planta Medica, 50, (1984): 462–465. 9. E.V. Avakian, Planta Medica, 50, (1984): 151–154. 10. V.D. Petkov og A.H. Mosharrof, American Journal of Chinese Medicine, 15 (1987): 19–29. 11. W.H. Lewis et al., Journal of Ethnopharmacology, 8 (1983): 209. 12. A. Der Marderosian og L. Liberti, Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics (Philadelphia: George R. Stickley, 1988). 13. Lawrence Review of Natural Products (St. Louis: Facts and Comparisons, september 1990. C. Cono et al., Plant Medica, 50, (1984): 434. 14. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. 15. C.A: Baldwin et al., Pharmaceutical Journal, 237 (1986): 583–586. T.G. Hammond og J.A. Whithworth, Medical Journal of Australia, 1 (1981): 492. 16. R.F. Chandler, Canadian Pharmaceutical Journal, 121 (1988): 36–38. 17. C.A: Baldwin et al., Pharmaceutical Journal, 237 (1986): 583–586. 18. Bradley, sama heimild. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 19. R.K. Siegel, Journal of the American Medical Association, 241 (1979): 1614–1615.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.