Grænt te

Náttúruvörur

  • Graent-te

Grænt te er drykkur lagaður úr þurrkuðum og gufusoðnum, grænum laufblöðum terunnans. Flestir nota grænt te sem mildan, örvandi drykk á sama hátt og aðrir nota svart te og kaffi.

Fræðiheiti
Camellia sinensis (L.) Kuntze.
Ætt: Terunnaætt Theacea

Enskt heiti
Green tea

Einkunn
3 = Rannsóknir á virkni og öryggi þessa efnis stangast á eða þær eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að draga af ályktanir af niðurstöðum þeirra.

Hvað er grænt te?
Grænt te er drykkur lagaður úr þurrkuðum og gufusoðnum, grænum laufblöðum terunnans. Svart ("venjulegt") te er einnig gert úr laufblöðum þessa stórvaxna runna sem vex villtur í heittempraða beltinu í Austur-Asíu, en verkun laufblaðanna er þá önnur. Grænt te er lagað úr telaufi sem er þurrkað ferskt, en svart te er úr telaufi sem hefur verið látið gerjast og dökkna áður en það er þurrkað. Um fimmtungur af því tei sem er á heimsmarkaði er grænt te. Terunninn ( Camellia sinensis) hefur verið ræktaður í Asíu um aldir.

Notkun
Te er vinsælasti drykkur veraldar að vatni undanskildu. Íbúar Evrópu og Ameríku kjósa fremur svart te, en grænt te er gífurlega vinsælt í Asíu og víðar. Flestir nota grænt te sem mildan, örvandi drykk á sama hátt og aðrir nota svart te og kaffi. Einnig hefur það væg, þvagræsandi áhrif líkt og hinir drykkirnir. Kínverskir alþýðulæknar hafa ráðlagt grænt te öldum saman til að losa um barkastíflu sem fylgir kvefi, hósta, astma og öðrum öndunarfærakvillum. Enn fremur telja þeir það gott ráð gegn höfuðverk og niðurgangi, þ.á.m. smitandi niðurgangi. Þar að auki telja þeir grænt te hafa læknandi áhrif á krabbamein.

Vestrænir grasalæknar samtímans lofa andoxandi virkni áhrif græns tes og telja það hafa krabbameinshemjandi áhrif. Þeir telja það einnig stuðla að þyngdartapi, fyrirbyggja tannskemmdir og minnka blóðkólesteról og sporna gegn háum blóðþrýstingi. Kjarni úr grænu tei er talinn stuðla að heilbrigðri hjartastarfsemi og lina sársauka sem stafar af magasári.

Helstu lyfjaform
Hylki, þurrkuð laufblöð, kjarni (stundum staðlaður með tilliti til epígallókatekíngallatinnihalds og/eða heildarpólýfenólinnihalds), seyði (lagað úr telaufi í lausu eða tepokum).

Algeng skammtastærð
Algengur dagskammtur af pólýfenólum úr grænu tei er 50-100 millígrömm eða 100-200 millígrömm af hylkjum sem eru stöðluð með 50 % pólýfenóli. Pólýfenólinnihald hylkjanna getur verið frá 15 og allt að 50 %. Þrjú 333 millígramma tekjarnahylki (hvert með 50 millígrömmum af pólýfenólum) eru tekin tvisvar á dag. Tebolli inniheldur um það bil 20 til 30 millígrömm af pólýfenólum.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Undanfarið hafa komið fram niðurstöður sem benda til þess að grænt te geti í raun og veru komið í veg fyrir sumar tegundir krabbameins. 1 Þessar niðurstöður eru þó birtar með fyrirvara og nauðsynlegt er að staðfesta þær með umfangsmiklum rannsóknum áður en þær verða teknar gildar. Allmargir vísindamenn hafa bent á þá staðreynd að í Japan, þar sem grænt te er mjög vinsæll drykkur, er tíðni krabbameins lægri en í mörgum öðrum heimshlutum. 2 Umfangsmikil rannsókn sýndi að 60 % minni líkur voru á því að kínverskar konur sem drukku grænt te að staðaldri fengju krabbamein í vélinda en þær konur sem ekki neyttu þessa drykkjar. 3 Rannsakendurnir komust að þessari niðurstöðu eftir að tillit hafði verið tekið til áfengisneyslu, reykinga og mataræðis. Í annarri rannsókn var mikil neysla græns tes tengd minni hættu á myndun sepa í aftari hluta ristils, en slíkir separ geta verið forstig krabbameins. 4

Ekki hafa allar úrtaksrannsóknir svipaðar þessum gefið jákvæðar niðurstöður gagnvart krabbameinshemjandi verkun græns tes og þar gætu vel skilgreindar, klínískar tilraunir verið gagnlegar, en erfitt er að útfæra þær, að hluta til vegna þess hve langur myndunartími krabbameina getur verið. Dýratilraunir sem felast í að kalla fram krabbameinsbreytingar með því að meðhöndla dýrin með krabbameinsvaldandi efnum hafa á hinn bóginn lofað góðu. Yfir heildina benda rannsóknir á mönnum til jákvæðra niðurstaðna, einkum varðandi krabbamein í húð, lungum, maga, lifur og brisi. 5

Ýmsar kenningar hafa komið fram um hvað það gæti verið sem skýrir krabbameinshemjandi virkni græns tes. Margir rannsakendur telja að efnasambönd á borð við pólýfenól og flavonóíð hafi þessa virkni. Þessi efnasambönd hafa andoxandi virkni; sýnt hefur verið fram á að pólýfenól hamli gegn krabbameini með því að sporna gegn myndun nítrósamína sem eru vel þekktir krabbameinsvaldar. 6 Einnig er mögulegt að þessi efni stuðli að þessu á annan máta. Rannsóknir gefa þar að auki til kynna að grænt te sé andoxunarefni sem þýðir að það kemur í veg fyrir myndun hættulegra efna í líkamanum sem kallast sindurefni, en þau skaða frumur með því að valda oxun í þeim. Sum sindurefni eru talin stuðla að myndun krabbameinsfrumna. Aukin andoxandi virkni hefur verið greind í dýratilraunum: dýr sem voru meðhöndluð með tannínum úr grænu tei og síðan látin verða fyrir litningagöllum stóðust gallana í beinfrumum sínum betur en þau dýr sem höfðu ekki fengið tannín á undan. 7

Minnkun á heildarkólesteróli hefur verið tengd neyslu stórra skammta af grænu tei (að minnsta kosti níu bolla á dag). 8 Það virðist þó ekki skerða þríglýseríðmagnið eða auka magn þungs kólesteróls (sem er hagstæða kólesterólið).

Í úrtaksrannsókn sem var gerð árið 1995 á 3625 Japönum kom í ljós að þeir sem drukku mikið af grænu tei höfðu minna af ferritíni og fituperoxíðum í blóði en hinir, en aukning á þessum efnum í blóði er talin vísbending um fituhrörnun æða og lifrarsjúkdóma og önnur tiltekin sjúkleg ferli. 9

Mikið af heppilegum áhrifum græns tes má skýra með því að seyðið er aðeins látið lagast (trekkjast) í stuttan tíma. Þar af leiðandi inniheldur það mörg mikilvæg efnasambönd sem ferska telaufið hefur að geyma. 10 Óhagstætt er að drekka grænt te sjóðandi heitt þar sem mikill hiti eyðileggur líklega mörg mikilvægu efnanna í seyðinu og rýrir því hugsanlegan lækningamátt.

Grænt te inniheldur einnig kaffín, sem örvar miðtaugakerfið, og tannín sem er herpandi efni. Inntaka tannína getur stuðlað að því að stöðva sumar tegundir niðurgangs og þessi efni draga saman vefi húðar ef þau eru borin á hana. Flúoríð og tannín í grænu tei vinna ef til vill einnig gegn tannskemmdum samkvæmt sumum heimildum. Í reynd minnkaði tíðni tannskemmda í rottum sem fengu grænt te. 11 Hinu skal þó ekki gleyma að te getur einnig litað tennur dökkar.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Hundruð milljóna manna um heim allan drekka grænt te daglega án nokkurra óæskilegra áhrifa að því er virðist. Hið sama á hins vegar við um grænt te og aðrar vörur sem innihalda kaffín: það getur valdið óæskilegum, örvandi áhrifum, svo sem kvíða, skjálfta, óeirð og svefntruflunum, ef þess er neytt í óhóflegu magni eða ef fólk er óvenjuviðkvæmt fyrir kaffíni. Þessar aukaverkanir virðast hins vegar vera tiltölulega fátíðar hjá þeim sem drekka grænt te, ef til vill vegna þess að teið er látið lagast í tiltölulega stuttan tíma, eins og áður hefur komið fram, og þá verður kaffíninnihaldið minna.

Meginheimildir
Balch, J.F. og P.A. Balch. Prescription for Nutritional Healing: A Practical A to Z Reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements. 2. útg. Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1993. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Mayell, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Murray, M.T. The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurskoðuð og aukin 2. útg. Rocklin, CA: Prima Publishing , 1995.

Tilvísanir
1. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1993). 2. C.S. Yang og Z.Y. Wang. Journal of the National Cancer Institute. 85 (13) (1993): 1038-1049. 3. M.T. Murray, The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurskoðuð og aukin 2. útg. (Rocklin, CA: Prima Publishing , 1995). 4. S. Kono et al., Journal of Clinical Epidemiology, 44 (11) (1991): 1255. 5. Murray, sama heimild. 6. A. Komori et al., Japanese Journal of Clinical Oncology, 23 (3) (1993): 186-190. 7. H. Imanishi et al., Mutation Research, 259 (1) (1991): 79. 8. S. Kono et al., Preventive Medicine, 21 (4) (1992): 526. 9. K. Imai og K. Nakachi, British Medical Journal, 310 (1995): 693-696. 10. Lawrence Review, sama heimild. 11. S. Rosen et al., Journal of Dental Research, 63 (5) (1984): 658.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.