Joð

Steinefni og snefilefni

  • Jod

Í líkama manna eru 20-30 mg af joði og þriðjung þess er að finna í skjaldkirtlinum. Langflestir fá svalað dagsþörf sinni fyrir joð úr mat.

Áður en lyf við skjaldkirtilstruflunum komu á markað var joð eina efnið sem gefið var til slíks.

Heiti
Joð, iodine, iodide.

Uppspretta
Í líkama manna eru 20-30 mg af joði og þriðjung þess er að finna í skjaldkirtlinum. Joð er einkum í ýmsu sjávarmeti eins og skelfiski, þara og fiski. Joð er líka í morgunkorni, mjólkurvörum, eggjum, baunum, brauði og kjöti. Í sumum löndum er borðsalt bætt með joði. Langflestir fá svalað dagsþörf sinni fyrir joð úr mat.

Verkun

  • Joð tilheyrir skjaldkirtilshormónunum en þau halda utan um orkubúskap líkamans. Skjaldkirtilshormón stjórna einnig vexti og starfsemi taugakerfis og vöðva. 
  • Joð hefur lengi verið notað sem slímlosandi efni í hóstamixtúrur. 
  • Þá drepur joð bakteríur enda blandað við útvortislausnir sem eru ætlaðar til sótthreinsunar. 


Notkun - verkun

  • Hjálpar til við að brenna fituforða vegna áhrifa joðs á orkubúskap líkamans. 
  • Við joðskorti. 
  • Geislavirkt joð er notað þegar líffæri eru mynduð.


Ráðlagðir dagskammtar

Ungbörn < 6 mán   ---
Ungbörn 6-11 mán 50 mcg*
Ungbörn 12-23 ára 70 mcg
Börn 2-5 ára 90 mcg
Börn 6-9 ára 120 mcg
Karlar >10 ára 150 mcg
Konur > 10 ára 150 mcg
Konur á meðgöngu 175 mcg
Konur með barn á brjósti 200 mcg

*mcg = míkrógrömm (µg)

Joðskortur
Joðskortur, ásamt ýmsu öðru, veldur röskun hjá skjaldkirtlinum. Sjúkdómurinn kallast spiklopi eða hypothyroidismus. Joðskortur er algengasta ástæða fyrir skertri starfsemi á skjaldkirtli hjá fólki í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Einkennin eru þreyta, framtaksleysi, minnisleysi, kulvísi, hægðatregða, þurrt gróft hár, hárlos, þurr þykk húð, fölvi, hæsi (bjúgur á raddböndum), tíðatruflanir, hægur hjartsláttur, vöðvastífni og verkir.

Joðeitrun
Þó að joð sé nauðsynlegt í skjaldkirtilshormónum getur mjög stór skammtur af því fyllt skjaldkirtilinn um of og dregið um leið úr eðlilegri virkni hans. Mikil neysla á joði getur valdið vanvirkni skjaldkirtilsins. Ráðlegt er að forðast stóra skammta af náttúrulækningarlyfjum og fæðubótarefnum sem innihalda mikið af joði.

Aukaverkanir
Aukaverkanir af stórum skömmtum af joði eru útbrot, höfuðverkur og járnbragð í munni. Með aukinni joðneyslu hefur viðkvæmt fólk fengið bólur á húð en þær hverfa um leið og joðneyslu er hætt.

Milliverkanir
Lyf sem innihalda mikið joð, s.s. amíódarón (hjartalyf), geta valdið joðeitrun ef tekin eru aukalega fæðubótarefni með miklu joði.

Frábendingar
Sjúklingar í lyfjameðferð við skjaldkirtilstruflunum ættu ekki að taka joð aukalega.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 73-74.

R. Marcus, A. M. Coulson. Thyroid and antithyroid drugs. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1402-1404.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).