Kamfóra

Náttúruvörur

  • Kamfora

Þetta rokgjarna, arómatíska efni er unnið með gufueimingu úr viði hins hávaxna, blómstrandi kamfórutrés ( Cinnamomum camphora) sem er upprunnið í Asíu. Kamfóra er gjarnan notuð í olíu.

Fræðiheiti
Cinnamomum camphora L.
Ætt: Lárviðarætt Lauraceae.

Ensk heiti
Camphor, gum camphor, laurel camphor, zhang nao.

Einkunn
Til útvortis notkunar: 1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif : niðurstöður rannsókna".
Til innvortis notkunar: 5 = Rannsóknir benda til þess að talsverð áhætta sé því samfara að nota þetta efni, jafnvel þótt fylgt sé leiðbeiningum um magn (skammtastærðir).

Hvað er kamfóra?
Þetta rokgjarna, arómatíska efni er unnið með gufueimingu úr viði hins hávaxna, blómstrandi kamfórutrés ( Cinnamomum camphora) sem er upprunnið í Asíu. Kamfóra er gjarnan notuð í olíu. Allt að 75 % af þeirri kamfóru sem er nú notuð í Bandaríkjunum er þó tilbúið efni, það er að segja efnasmíðað. 1

Notkun
Kamfóra finnst gjarnan í vörum sem eru notaðar til að kæla og sefa verki og sársauka í vöðvum, minnka sársauka sem stafar af bólgnum liðum liðagigtarsjúklinga og kuldabólgu, lina bráðan og þrálátan hósta svo og stíflu og ertingu í efri hluta öndunarvegar, draga úr vægum kláða og halda niðri sársauka sem fylgir oft frunsum með því að mýkja þær og verja. Kamfóra er einnig í úðavörum og öðrum vörum sem eru notaðar til að "kæla" og "fríska" auma eða illa lyktandi fætur. Enn eru til þær fjölskyldur sem beita því húsráði að nota olíu sem inniheldur kamfóru í heimatilbúin hóstameðul. Þá er kamfóra, ásamt mentóli og öðrum áþekkum efnum, í lausnum sem notaðar eru til að mynda heita gufu og í eyrnadropum sem eru ekki lyfseðilsskyldir. Ennfremur er kamfóra notuð í naglalökk og ýmsar aðrar vörur.

Helstu lyfjaform
Til útvortis notkunar: Þynnt í hlaupi, dropum, olíu, áburði eða öðru formi til notkunar á húð, og í heitum gufuúðunarlausnum. Í Bandaríkjunum innihalda blöndur, sem eru til sölu og ætlaðar fyrir húð, allt að 11 % kamfóru.
Til innvortis notkunar: Kamfóra er ekki ætluð til notkunar innvortis.

Algeng skammtastærð
Gegn ertingu eru notaðar lyfjablöndur til áburðar þar sem styrkleiki kamfóru er 3 til 11 % og áburðurinn er borinn á allt að fjórum sinnum á dag. Í vörum sem eru til notkunar við bruna og gyllinæð er kamfóra oftast notuð í sama styrkleika, þ.e. 3-10,8 % ef henni er blandað saman við létta olíu.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Sannað hefur verið vísindalega að kamfóra (í styrkleika 3-11 %) vinni gegn ertingu og sé víða notuð í því skyni. Hún veldur roða og tilfinningu, sem líkist kælingu, vegna þess að hún ertir yfirborð húðar á vægan hátt og örvar taugaenda. Þessi verkun felur sársaukaboð og sefar þannig til dæmis auma og sára vöðva. Styrkleiki undir 3 % gefur góðan árangur í lyfjablöndum sem eru ætlaðar til að deyfa, draga úr kláða og lina sársauka í húðinni, því að kamfóran bælir skynnema í húð. 2 Rannsóknir sýna einnig að kamfóra heldur sumum gerlum í skefjum, þótt áhrifin séu væg.

Í rannsókn á naggrísum árið 1994 var sýnt fram á veruleg hóstastillandi áhrif kamfóru í formi arómatískrar gufu (eins og notuð er í uppgufara). 3 Gufurnar stilla líklega hósta með því að valda staðbundnum, deyfandi áhrifum. 4 Blöndur sem innihalda kamfóru (í allt að 11 % styrkleika) og eru notaðar til að bera á húð eru taldar öruggar og gagnast vel til þess að draga úr hósta í ungum börnum (eldri en tveggja ára) þegar þær eru bornar á bringu og háls. 5 Þýsk heilbrigðisyfirvöld leyfa bæði útvortis og innvortis notkun kamfóru gegn slímhúðarbólgu í öndunarvegi. 6 Þau mæla einnig með útvortis notkun lyfjablandna við vöðvagigt og (lítt skilgreindum) einkennum frá hjarta og telja innvortis lyfjablöndur gagnlegar til að örva blóðflæði og að kamfóra komi að haldi í slíkum tilfellum sem styrkjandi lyf. Þess er að vænta að Þjóðverjar hafi lyfjablöndur á boðstólum sem þeir telja öruggar í þessum tilgangi.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Litlar líkur eru á aukaverkunum þegar kamfóra er notuð og farið er að leiðbeiningum, en í einstaka tilvikum getur hún valdið útbrotum á húð viðkvæmra einstaklinga. Ekki skal bera áburð með kamfóru á húð oftar en fjórum sinnum á dag. Ofnotkun getur leitt til vefjaertingar eða -skaða og jafnvel er hætta á að líkaminn taki efnið upp og þá berst það í blóðrásina.

Aldrei skal taka kamfóru inn, þar eð hún er mjög eitruð og getur valdið krampaköstum. Verið einkum á varðbergi gagnvart því að börn noti í misgripum vörur sem innihalda kamfóru; sífellt berast tilkynningar um tilvik þar sem börn hafa hlotið alvarlega eitrun eftir að hafa notað eða tekið inn olíu með kamfóru. 7 Til að hindra að börn taki inn kamfóru af slysni á alls ekki að bera kamfóruáburð nálægt munni þeirra eða nefi. Sumir sérfræðingar, einkum í Kanada þar sem olía með allt að 20 % kamfóru fæst, 8 telja hættu á rangri notkun og eitrun af völdum kamfóruolíu svo mikla, og sömu kosti auðfengna með öðrum vörum, að banna ætti sölu hennar. Alvarleg brunaslys hafa verið tengd notkun tækja sem mynda heita gufu, sem oft er með kamfóru. Engar viðurkenndar rannsóknir hafa nokkru sinni sýnt fram á að kamfóra sé örugg eða heppileg í lyfjablöndur sem eru notaðar sem eyrnadropar. 9

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Chevallier, A. The Encyclopedia of Medicinal Plants: A Practical Preference Guide to More Than 550 Key Medicinal Plants & Their Uses. 1. útg. í BNA, New York: Dorling Kindersley Publications, 1996. Leber, M.R. et al., Handbook of Over-the-Counter Drugs and Pharmacy Products. Berkeley, C.A: Celestial Arts Publishing, 1994. Tierra, M. The Way of Herbs. New York: Pocket Books, 1990. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Binghamton/Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994.

Tilvísanir
1. American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. (Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 2. Sama heimild. 3. E.A. Laude et al., Pulmonary Pharmacology, 7 (3) (1994): 179-184. 4. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 5. Sama heimild. 6. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 7. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 8. J.G. Theis og G. Kopren, Canadian Medical Association Journal, 152 (11) [1995): 1821-1824. 9. American Pharmaceutical Association, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.