Króm

Steinefni og snefilefni

  • Krom

Króm er steinefni, lífsnauðsynlegt líkamanum en aðeins í litlum mæli. Í mannslíkamanum eru um 6 grömm af krómi, mest er af krómi í hári, milta, nýrum og eistum.

Heiti
Chromium Picolinate, chromium polynicotinate.

Uppspretta
Króm er að finna í ólíkum fæðutegundum, t.d. í lifur og kjöti, hveiti, þá sérstaklega heilhveiti og rúgmjöli, kartöflum og grænum paprikum. Þó er lítið af krómi í ávöxtum. Vatn getur innihaldið króm en það fer eftir uppsprettum þess.

Verkun
Króm er steinefni, lífsnauðsynlegt líkamanum en aðeins í litlum mæli. Mikilvægasta hlutverk króms er að taka þátt í blóðsykurstjórnun líkamans en króm dregur úr hættunni á því að sykur safnast fyrir í blóði.

Notkun - verkun

  • Minnkar sykurþörf.
  • Gott þeim sem vilja grenna sig.
  • Lækkar blóðfitu.

Skammtastærðir Embætti landlæknis hefur ekki gefið út ráðlagða dagskammta fyrir króm en eftirfarandi upplýsingar eru fengnar erlendis frá:

Ungabörn 0-6 mán 10-40 mcg  
Ungabörn 6-12 mán 20-60 mcg
Börn 1-3 ára 20-80 mcg
Börn 4-6 ára 30-120 mcg
Börn >6 ára og fullorðnir 50-200 mcg    

Krómskortur
Rannsóknir sýna að krómskortur er algengari með hækkandi aldri. Þá hafa töluvert verið skoðuð tengsl milli krómskorts og sykursýki (tegund 2) en enn sem komið er hefur ekkert samband þar á milli verið staðfest. Skortseinkenni felast fyrst og fremst í hækkuðum blóðsykri.

Krómeitrun
Krómeitrun eftir inntöku er sjaldgæf. Eftir töku mjög stórra skammta geta komið fram eitureinkenni á borð við blóði litaðan niðurgang og lost sem jafnvel gæti dregið menn til dauða. Ofnæmisviðbrögð og lungnakrabbamein þekkjast hjá málmiðnaðarmönnum, en þá berst króm frá andrúmsloftinu í lungu þeirra og á húð.

Aukaverkanir
Aukaverkanir eru fátíðar eftir töku ráðlagðra skammta, helstar eru húðútbrot.

Milliverkanir

  • Insúlín. 
  • Sykursýkislyf.
  • Kalsíumkarbónat.


Frábendingar
Einstaklingar með sykursýki ættu ekki að neyta króms nema í samráði við lækni.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 80-81.

Þ. Jóhannesson. Kennslugögn í eiturefnafræði. 1998 Rannsóknarstofa í lyfjafræði.

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.