Lakkrís

Náttúruvörur

  • Lakkris

Lakkrís er kjarni sem er unninn úr sætum, þurrkuðum rótum og jarðstöngli ýmissa afbrigða af lakkrísplöntunni,  Glycyrrhiza glabra, sem vex villt í heittempruðu loftslagi.

Fræðiheiti
Glycyrrhiza glabra L. og í sumum tilvikum aðrar tegundir sömu ættkvíslar.
Ætt: Ertublómaætt Leguminosae (Fabaceae).

Ensk heiti
Licorice, gan cao, glyrrhiza, Italian licorice, licorice root o.fl.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunum í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er lakkrís?
Lakkrís er kjarni sem er unninn úr sætum, þurrkuðum rótum og jarðstöngli ýmissa afbrigða af lakkrísplöntunni, Glycyrrhiza glabra, sem vex villt í heittempruðu loftslagi. Lakkrísplantan á heimkynni í Evrasíu og er mikið ræktuð til dæmis í Grikklandi, Tyrklandi og Litlu-Asíu.

Notkun
Í Bandaríkjunum er lakkrís einna mest notaður sem bragðefni í sælgæti, munntóbak og hálstöflur og fleiri heilsuvörur. Sælgætistegundir, sem eru þar á boðstólum, innihalda sjaldnast lakkrís að nokkru marki heldur er bragðgjafinn í þeim yfirleitt anísolía. Ekta lakkríssælgæti er miklum mun algengara í Evrópu.

Í sumum heimshlutum hefur lakkrís verið notaður í yfir þrjú þúsund ár til að ráða bót á hósta, kvefi, slími í nefgöngum, útbrotum, liðagigt, harðlífi, krabbameini og lifrarbólgu, og enn fremur til að flýta gróanda sára í maga og munni. Margir nota lakkrís til að fela beiskt bragð annarra jurta. Frumbyggjar Ameríku drukku te lagað úr lakkrís sem hægðalyf og til að lækna hósta og eyrnaverk. Lakkrís er gífurlega vinsæll í Kína og mikilsvirt lækningajurt þar.

Helstu lyfjaform
Hylki, seyði, kjarni, rót og jarðstöngull, fastur kjarni (grófsaxað eða fíngert duft), te og jurtaveig (tinktúra). Lakkrís finnst, eins og áður hefur komið fram, í margs konar sælgæti, tóbaki og lyfjavörum, þar á meðal í hóstamixtúrum, sírópi, hálstöflum fyrir þá sem vilja hætta að reykja og í hársápu.

Algeng skammtastærð
Algengur skammtur er 1 til 2 grömm af rótardufti á dag (í kínverskum heimildum er ráðlagður skammtur yfirleitt 2-12 grömm og í evrópskum 5-15 grömm á dag), 2 til 4 millígrömm af vökvakjarna eða 250 til 500 millígrömm af föstum kjarna þrisvar á dag. Til að fyrirbyggja fyrirtíðaspennu er mælt með því taka lakkrís í fyrrgreindum skömmtum tveimur vikum áður en tíðir eiga að hefjast. Ekki skal taka lakkrís lengur en í fjórar til sex vikur í senn. Örlitlu af lakkrís er bætt í jurtate til að losa um slím. Fara skal eftir leiðbeiningum á umbúðum þegar tekin eru hylki sem fást í heilsubúðum.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Lakkrís er öflugt lyf sem rannsóknir hafa sýnt að geti verið gagnlegt gegn ýmiss konar sjúkdómum og kvillum. Lakkrís er einna þekktastur vegna notkunar í hóstameðul. Rannsóknir benda til þess að lakkrís búi yfir mikilvægum eiginleikum. Í honum er að finna efnasamband sem nefnist glýkírretínsýra og er hóstastillandi. Hún örvar slímseyti í barkanum sem stuðlar að losun límkennds kvefslíms svo að auðveldara verður að hósta því upp. 1 Þessi slímlosandi áhrif hafa komið fram í tilraunum á kanínum. 2 Mörg hóstalyf, sem eru vinsæl í Evrópu, innihalda lakkrís. Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkja lakkríslyfjablöndur til að meðhöndla barkabólgu. 3 Enn fremur er vænlegt til árangurs að bæta lakkrís í te til að lina særindi í hálsi, því að hann inniheldur mýkjandi efni.

Glasatilraunir gefa einnig til kynna að lakkrískjarni hamli vexti sjúkdómsvaldandi baktería, svo sem keðjugerla ( Streptococci) og klasagerla ( Staphylococci) og frunsuveiru ( Herpes simplex), bæði þeirri tegund sem veldur frunsum í andliti og þeirri sem veldur kynsjúkdómi (kynfæraherpes). Enn fremur hamlar kjarninn vexti þruskusveppsins ( Candida albicans) sem orsakar sýkingu í leggöngum og þrusku í munni. 4 Rannsóknir hafa sýnt væga, veiruhamlandi verkun í tilraunadýrum sem og í tilraunaglösum. 5

Lakkrís virðist örva gróanda sára með því að stuðla að staðbundinni aukningu prostaglandína, en þessi efnasambönd minna um margt á hormón og örva slímmyndun í maga 6 og stuðla að fjölgun sumra magafrumna. Á Vesturlöndum vaknaði áhugi á lækningamætti lakkríss árið 1946 þegar rannsókn sýndi að smyrsl úr kjarna unnum úr lakkrísplöntunni ( Glycyrrhiza glabra) sló á sjúkdómseinkenni þeirra sem voru með magasár. Rannsóknir, sem byggja á myndatökum ýmiss konar, sýndu einnig fram á græðandi áhrif og tilraunir á dýrum leiddu í ljós að lakkrís dró úr líkum á myndun magasára. Í stýrðum, klínískum tilraunum var sýnt fram á að virku innihaldsefnin í lakkrís flýttu gróanda sára í maga. Þýsk heilbrigðisyfirvöld leyfa lakkrís til að flýta gróanda ætissára í meltingarfærum. 7

Rannsakendur hafa einnig komist að því að lakkrís hefur bólguhemjandi áhrif sem stafa af steralíkri verkun glýkírrisíns og likviritíns. 8 Dýratilraunir hafa þar að auki sýnt bólguhemjandi og gigthemjandi áhrif 9 sem gæti útskýrt hefðbundna notkun lakkríss við liðagigt og öðrum bólgusjúkdómum. Því er þó ekki að neita að hugsanlega stafar hætta af verkun glýkírrisíns og likviritíns (sjá kaflann um skaðleg áhrif hér fyrir aftan).

Að lokum má nefna að samkvæmt athyglisverðri rannsókn á músum sem var gerð árið 1996 getur lakkrís dregið úr styrk mótefnaflóka, sem einkenna helluroða og aðra sjálfsofnæmissjúkdóma, og mildað þannig sjúkdómseinkennin. 10 Frekari rannsókna er þörf til að ákvarða hvort lakkrís eigi eftir að koma að gagni í framtíðinni við meðhöndlun þessa sjúkdóms.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Lakkrís í sælgæti og öðrum matvælum er ekki hættulegur í þeim skömmtum sem eru algengir. Þýsk heilbrigðisyfirvöld telja bæði viðunandi og öruggt að taka hámarksskammta sem eru allt að 100 millígrömm af glýkírrisíni á dag. 11 Nauðsynlegt er þó að gera sér grein fyrir því að raunveruleg áhætta fylgir því að taka stærri skammta af lakkrís á dag og það getur verið varasamt að taka 100 millígramma skammta daglega í langan tíma. Þrátt fyrir að lakkrís virðist til að mynda flýta gróanda ætissára í meltingarfærum dregur úr notagildi hans í því skyni vegna þeirra eiturhrifa sem geta komið fram hjá fimmta hverjum neytanda og lýsa sér með þrota í andliti og öðrum líkamshlutum. Höfuðverkur, stirðleiki, andnauð og sársauki í efri hluta kviðar hafa komið fram í nokkrum tilfellum.

Rannsóknir benda til að langvarandi og mikil neysla lakkríss, hvort sem er í tei, sælgæti eða einhverri annarri afurð, hafi svipuð áhrif og öflug sterahormón (sykurbarksterar og steinefnabarksterar). Þetta getur leitt til ofgnóttar steinefnabarkstera eða gervialdósterónofgnóttar 12, sem lýsir sér í háþrýstingi, bjúgi, ofgnótt natríums og skorti á kalíumi í blóði. Þetta ástand getur verið svo alvarlegt að það leiði til vöðvasjúkdóma og jafnvel dauða. Í tímaritum um læknisfræði má finna margar greinar um tilvik gervialdósterónofgnóttar eftir gífurlega neyslu á lakkríssælgæti eða þegar munntóbak, sem er bragðbætt með lakkrís, er notað í óhófi og neytandinn kyngir munnvatninu.

Ekki er ljóst hversu mikils magns þarf að neyta af lakkrís áður en eiturhrif koma fram. Að hluta til er þetta vegna þess að í mörgum rannsóknum hefur verið notað sælgæti sem inniheldur lakkrís í mismunandi miklu magni en ekki hreinan lakkrís. Niðurstöður rannsóknar leiddu í ljós að hætta geti skapast við daglega neyslu vara, sem innihalda allt að 100 millígrömm af lakkrís, í nokkur ár. 13 Önnur rannsókn gaf til kynna að lífshættulegur skortur á kalíumi í blóði hafi komið fram eftir neyslu á magni sem svari til undir 50 millígramma af lakkrís á dag. 14 Leggja þurfti mann inn á sjúkrahús í fjóra daga sem var að annars að öllu leyti hraustur eftir að hann hafði neytt 700 gramma af lakkríssælgæti á níu dögum.

Þeir sem hyggjast neyta lakkríss í lækningaskyni eiga í öllum tilvikum að ræða það við heimilislækninn. Þýsk heilbrigðisyfirvöld vara við því að taka lakkríslyf lengur en fjórar til sex vikur í senn án samráðs við lækni. Sumir þurfa að gæta sérstakrar varkárni, einkum barnshafandi konur og konur með barn á brjósti og þeir sem eiga við háan blóðþrýsting að stríða, gláku, sykursýki, nýrna- eða lifrarsjúkdóm eða þeir sem eru í hormónameðferð (því að lakkrís getur verkað truflandi á hana). 15 Þeir sem taka hjartalyfið digitalis (sem eru í áhættu þar sem næmi gagnvart lyfinu gæti aukist hjá þeim sem skortir kalíum) eða þeir sem hafa fengið heilablóðfall eða hjartasjúkdóm ættu aðeins að taka lakkrís að ráði læknis. Þeir sem þjást af átröskun eru þegar í hættu að fá kalíumskort af öðrum ástæðum en lakkrísneyslu og gætu þess vegna verið í aukinni hættu á að fá gervialdósterónofgnótt neyti þeir lakkríss. 16 Í sumum heimildum er mælt með því að allir sem eru með blóðrásarsjúkdóm eða -kvilla sneiði alveg hjá lakkrís. 17 Vert er að hafa það hugfast að lakkrís er að finna í ýmsum vörum öðrum en lakkríslyfjum, til dæmis í sælgæti og ýmiss konar drykkjum.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Baker, M.E. Steroids. 59 (1994):136-141. Bernardi, M. et al., Life Sciences. 55(11) (1994): 863-872. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, 1. bindi. Bournemouth (Dorset), England: Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, júní 1989. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Newall, C.A., et al., Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Schambelan, M. Steroids. 59 (1994): 127-130. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: HaworthPress/Pharmaceutical Products Press, 1993.

Tilvísanir 1. C.A. Newall et al., Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. (London: The Pharmaceutical Press, 1996). 2. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 3. Sama heimild. 4. R.F. Chandler, Canadian Pharmaceutical Journal, 118 (1985): 420-424. 5. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, júní 1989). 6. H. Wagner et al., ritstj. Economic and Medicinal Plant Research, 1. bindi (London: Academic Press, 1985). 7. Blumenthal et al., sama heimild. 8. H. Hikino og Y. Kiso, "Natural Products for Liver Disease", Economic and Medicinal Plant Research, 2. bindi (New York: Academic Press, 1988, 39-72). 9. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 10. T. Matsumoto et al., Journal of Ethnopharmacology, 53 (1996): 1-4. 11. Blumenthal et al., sama heimild. 12. M.T. Epstein et al., British Medical Journal, 1 (1977): 488-490. P.M. Stewart et al., The Lancet, II (1987): 821-824. 13. R.V. Farese et al., New England Journal of Medicine, 325 (1991): 1223-1227. 14. J.M. Cereda et al., The Lancet, I (1983): 1442. 15. Newall, sama heimild. 16. J. Brayley og J. Jones, American Journal of Psychiatry, 151 (4) (1994): 617-618. 17. Newall, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.