Lesitín

Náttúruvörur

  • Lesitin

Lesitín er náttúrlegt efnasamband sem finnst í öllum lífverum. Það er fituefni sem myndast í lifrarfrumum, en er einnig í heila og öðrum vefjum.

Fræðiheiti
Á ekki við.

Enskt heiti
Lecithin.

Einkunn
3 = Rannsóknir á virkni og öryggi þessa efnis stangast á eða þær eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að draga ályktanir af niðurstöðum þeirra.

Hvað er lesitín?
Lesitín er náttúrlegt efnasamband sem finnst í öllum lífverum. Það er fituefni sem myndast í lifrarfrumum, en er einnig í heila og öðrum vefjum. Það finnst í mörgum fæðutegundum, svo sem í eggjarauðu, sojabaunum og korni. Lesitín er almennt heiti á flokki efnasambanda sem heita fosfatíðýlkólín og úr þeim efnum er næringarefnið kólín einkum unnið. (Í ýmsum algengum heimildum er lítill skilsmunur gerður á gagnsemi kólíns og lesitíns.)

Gera verður skýran greinarmun á náttúrlegu lesitíni og unnu afurðinni lesitíni sem er yfirleitt framleidd úr sojabaunum eða eggjarauðu, og seld sem fæðubótarefni. Í þessari söluvöru er innihald fosfatíðýlkólína mismunandi, allt frá 30 og upp í 90 %, og þau eru í bland við ýmiss konar önnur efnasambönd. Ólíklegt verður að teljast að flokka megi kólín í fosfatíðýlkólínum eða í öðrum myndum sem vítamín, þar eð líkaminn myndar sitt eigið kólín, en ýmsir sem halda kólíni á lofti telja að efnið sé eitt vítamínanna.

Notkun
Lesitín finnst í frumum allra lífvera og það er nauðsynlegur hlekkur í eðlilegri starfsemi frumnanna og líkamans í heild. Styrkur þessa efnis er mestur í taugakerfi manna, ekki síst í vefjum heilans. Lesitín hefur lengi verið notað í matvælaiðnaði sem þykkingarefni, ýruefni og stöðgari (varðveisluefni), til dæmis í rjómaís og smjörlíki. Efnið er einnig notað í sama tilgangi í lyfja- og snyrtivörur. Lesitín leysist að hluta upp í vatni.

Fyrir ekki ýkja löngu fór að bera á því að mælt væri með að taka lesitín sem fæðubótarefni gegn ýmiss konar kvillum. Lesitín var sagt reynast vel gegn gallsteinum, tauga- og húðkvillum og lifrarskemmdum sem stafa af mikilli áfengisneyslu. Sumir halda því líka fram að lesitín styrki veika vöðva, skerpi heilastarfsemina og minnið og bæti jafnvægi. Því hefur jafnframt verið haldið fram að lesitín valdi því að kólesteról og önnur fituefni leysist upp í vatni og skolist þannig úr líkamanum. Það komi þannig í veg fyrir að fita safnist fyrir í æðum og myndi blóðtappa og veiti því vörn gegn hjartasjúkdómum. Þeir sem taka níasín eða nikótínsýru vegna þess að styrkur kólesteróls og þríglýseríða er of mikill fá gjarna það ráð að taka jafnframt lesitín sem fæðubótarefni. Þá hefur því verið haldið fram að sá eiginleiki lesitíns að leysa fituefni upp í vatni auðveldi meltingu fitu, einkum ef lesitín er tekið fyrir mat, og það geti á einn eða annan hátt stuðlað að því að viðkomandi léttist. Upp á síðkastið hefur lesitín úr eggjarauðu verið auglýst sem betri kostur en lesitín úr sojabaunum fyrir þá sem eru haldnir herpesveirusýkingu, eyðni, síþreytu eða aldurstengdum kvillum í ónæmiskerfi. 1

Helstu lyfjaform
Hylki, korn, vökvi.

Algeng skammtastærð
Algengar skammtastærðir eru 5 til 10 grömm af lesitíni í hylkjum (eða ein eða tvær teskeiðar af kornuðu lesitíni) og er þá miðað við að í lesitíninu sé 20 % fosfatíðýlkólín.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Kólínið í lesitíni er nauðsynlegt efni við nýmyndun taugaboðefnis sem kallast asetýlkólín. Rannsóknir benda til þess að virkni asetýlkólíns sé óeðlileg í líkama margra sem þjást af ýmsum taugasjúkdómum. Á grunni þessarar uppgötvunar hafa tilraunir verið gerðar til þess að koma á eðlilegri virkni asetýlkólíns með því að auka styrk lesitíns og kólíns sem eru forefni þess í líkamanum. Tiltölulega hreint lesitín (90 % fosfatíðýlkólín) bætti til muna sjúkdómsástand einstaklinga með oflæti að því er niðurstöður lítillar, en vel útfærðrar rannsóknar leiddi í ljós. 2 Vísbendingar hafa einnig komið fram þess efnis að lesitín geti komið að gagni þegar í hlut eiga ýmsir kvillar taugafræðilegs eðlis, til dæmis Tourette-heilkenni 3 og parkinsonssjúkdómur, 4 þótt mun ítarlegri rannsókna sé þörf. Rannsókn sem fór fram árið 1986 og náði til átján fullorðinna með síðkomna hreyfitruflun (tardive dyskinesia), sem tóku litíum við kvillanum, leiddi ekki í ljós marktækt meiri bata hjá þeim sem fengu lesitín en hjá þeim sem fengu lyfleysu. 5

Rannsóknir sýna að á vissum stöðum í heila fólks með alzheimersjúkdóm greinist marktækur skortur á asetýlkólíni. Tilraunir þar sem reynt hefur verið að auka styrk asetýlkólíns í því skyni að bæta minni sjúklinganna hafa ekki leitt í ljós neina óyggjandi niðurstöðu. Í tvíblindri rannsókn sýndu niðurstöður bætt minni hjá fólki með síðkomin elliglöp (meðal annars alzheimersjúkdóm) sem fékk fæðubótarefni í allt að sex vikur, 6 en við síðari tilraunir tókst ekki að staðfesta þessar jákvæðu niðurstöður. 7 Það er því allsendis óljóst hvort lesitín stuðli að því að fyrirbyggja minnisglöp hjá þeim sjúklingum sem eru í áhættuhópi að því er varðar síðkomin elliglöp, og það sama á við um gildi þess að taka að staðaldri fæðubótarefni með lesitíni (eða kólíni) í því skyni að tefja framvindu alzheimersjúkdóms. 8 Enn minna er vitað um það hvort neysla lesitíns (eða kólíns) sem fæðubótarefnis skerpi minnið hjá heilbrigðu og eðlilegu fólki. Vel útfærð rannsókn sem gerð var árið 1983, en náði að vísu aðeins til fárra þátttakenda sem allir voru heilbrigðir, leiddi í ljós að neysla 20 gramma af lesitíni fimm klukkustundum áður en þátttakendur gengust undir minnispróf hafði engin marktæk áhrif til bóta á frammistöðuna. 9

Veikar vísbendingar hafa komið fram þess eðlis að lesitín tekið sem fæðubót dragi úr verkjum vegna gallsteina. Rannsókn sem náði til fárra einstaklinga sýndi fram á að fólk sem fékk gjarna kólesterólgallsteina fann sjaldnar en áður fyrir verkjum ef það tók lesitín sem fæðubótarefni. Efnið var tekið í allt að einu ári. Þess varð ekki vart að neysla lesitíns hefði þau áhrif að minnka þá gallsteina sem myndast höfðu. 10 Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa mælt með því að þeir, sem kvarta undan lystarleysi og finnst eins og þrýsti að lifrinni, taki lesitín úr sojabaunum, en orsök kvartananna gæti verið lifrarsjúkdómur eða langvinn lifrarbólga. 11

Því hefur verið haldið á lofti að lesitín tekið sem fæðubótarefni komi að gagni ef styrkur kólesteróls er of mikill og minnki þannig líkur á æðakölkun og kransæðasjúkdómum, 12 en traust, klínísk gögn sem styðja þá fullyrðingu eru fremur rýr. Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa hins vegar samþykkt töku lesitíns úr sojabaunum þegar í hlut á fólk sem er ekki með hættulega mikið kólesteról og breytingar á mataræði eða lyf hafa ekki náð að draga úr styrk kólesterólsins. 13 Fullyrðingar þess efnis að lesitín skerpi heilastarfsemi, létti lund og stuðli að því að fólk léttist og að efnið búi yfir kynörvandi eiginleikum eiga við afar veik rök að styðjast og hafa ekki verið kannaðar í klínískum rannsóknum.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Ekki hefur verið getið um marktækar aukaverkarnir af töku lesitíns sem fæðubótarefnis í ráðlögðum skömmtum, en stórir skammtar geta valdið ólgu í maga og þörmum, uppköstum, linum hægðum og svitamyndun. 14 Fullorðnir þola yfirleitt allt að 20 gramma skammta á dag og í sumum tilvikum allt að 30 gramma skammta án þess að aukaverkana verði vart. Ýmiss konar vansköpunar gætti hjá rottuungum, sem voru aldir á fæði sem innihélt 5 % hrálesitín, og í ljósi þess er rétt að mæla með því að þungaðar konur forðist að taka lesitín sem fæðubótarefni. 15

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association, Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg. Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Balch, J.F. og P.A. Balch. Prescription for Nutritional Healing: A Practial A to Z Reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements. 2. útg. Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997. Barrett, S. og V. Herbert. The Vitamin Pushers: How the "Health Food" Industry Is Selling America a Bill of Goods. Amherst, HY: Premetheus Books, 1994. Blumenthal, M., J. Greenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Natural Product Medicine. A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. Philadelphia: George F. Stickley, 1988. Griffith, H.W. Complete Guide to Vitamins, Minerals, Nutrients & Supplements. Tucson: Fisher Books, 1988. Levy, R. The Lancet. 2(8299) (1982): 671-672. Mayell, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Boooks, 1995. Tyler, V.E., L.R. Brady og J.E. Robbers, ritstj. Pharmacognosy. Philadelphia: Lea & Febiger, 1988.

Tilvísanir
1. Balch, J.F. og P.A. Balch. Prescription for Nutritional Healing: A Practial A to Z Reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements. 2. útg. (Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997). 2. B.M. Cohen et al., American Journal of Psychiatry, 137 (1980): 242. 3. A. Barbeau, New England Journal of Medicine. 302 (1980): 1310. 4. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Natural Product Medicine. A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. (Philadelphia: George F. Stickley, 1988). J.R. Tweedy og C.A. Garcia, European Journal of Clinical Investigation, 12 (1982): 87. 5. J. Volavka et al., Psychiatry Research, 19(2) (1986): 101-104. 6. G.S. Rosenberg og K.L. Davis, American Journal of Clinical Nutrition, 36 (1982): 709. 7. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Natural Product Medicine. A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. (Philadelphia: George F. Stickley, 1988). A. Little et al., Journal of Neurology, Neurosurgery & Psychiatry, 48(8) (1985): 736-742. 8. S. Gauthier et al., Canadian Journal of Neurological Sciences, 16(4 Suppl.) (1989): 543-546. 9. C.M. Harris et al., American Journal of Psychiatry, 140(8) (1983)1010-1012. 10. S. Tuzhilin et al., American Journal of Gastroenterology, 65(3) (1976): 231-235. 11. M. Blumenthal, J. Greenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 12. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Sama heimild. 13. M. Blumenthal et al. Sama heimild. 14. American Pharmaceutical Association, Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg. (Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 15. Hospital Practice, 19 (1984) 29. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir.