Lýsi

Náttúruvörur

  • Lysi

Lýsi (lifrarlýsi) er olía unnin úr lifur fiska, einkum þorsks, en einnig ufsa og lúðu. Lýsi er auðugt að A- og D-vítamínum og inniheldur tiltölulega lítið af mettuðum fitusýrum og mikið af fjölómettuðum fitusýrum sem eru taldar veita vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. 

Fræðiheiti
Á ekki við.

Ensk heiti
Cod-liver oil, fish-liver oil.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er lýsi?
Lýsi (lifrarlýsi) er olía unnin úr lifur fiska, einkum þorsks, en einnig ufsa og lúðu. Lýsi er auðugt að A- og D-vítamínum og inniheldur tiltölulega lítið af mettuðum fitusýrum og mikið af fjölómettuðum fitusýrum sem eru taldar veita vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Það hefur lengi verið notað sem fæðubótarefni og lyf gegn hörgulsjúkdómum. Lýsi er einnig mikið notað í iðnaði, þá oft unnið úr heilum fiski (loðnu, síld, kolmunna og fleiri torfufiskum), til dæmis í smjörlíkisgerð, og einnig notað í fóður handa dýrum.

Notkun
Í sumum heimildum er mælt með því að lýsi sé notað sem fæðubótarefni sökum þess hve mikið það inniheldur af ómissandi fitusýrum, svo sem ómega-3-fitusýrum (n-3-fitusýrum) (eikósapentensýru og dókósahexensýru). Ómissandi fitusýrur eru sagðar geta minnkað kólesteról og annars konar blóðfitu og dregið þannig úr hættu á tilteknum tegundum hjarta- og æðasjúkdóma, dregið úr bólgu og komið að gagni í sjúkdómum á borð við liðagigt og ofnæmissjúkdóma. Lýsi er einnig sagt stuðla að þynningu blóðsins og draga þannig úr líkum á myndun blóðtappa. Lýsi er haft, venjulega í bland við önnur efni, til staðbundinna nota gegn svitabólum, bruna og sviða undan bleyjum og við gyllinæð. Efnið myndar hjúp þar sem það er borið á og dregur úr ertingu.

Helstu lyfjaform
Innvortis notkun: Olía (lýsi), hylki.
Útvortis notkun: Innihaldsefni í margvíslegum vörum til staðbundinna nota.

Algeng skammtastærð
Þegar lýsi er tekið sem fæðubótarefni er algengur skammtur ein matskeið (15 ml) á dag. Fylgja ber leiðbeiningum á umbúðum ef lýsishylki eru tekin.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Niðurstöður ýmissa rannsókna hafa sýnt fram á að mikil neysla fiskmetis dregur úr hættu á hjartaáfalli og öðrum blóðþurrðarsjúkdómum í hjarta, en niðurstöður tilrauna þar sem áhrif lýsistöku eru könnuð eru ekki að sama skapi lofandi. Til dæmis má nefna að í einni rannsókn voru könnuð áhrif lýsistöku á heilsufar sjúklinga sem höfðu fengið hjartaáfall. Þessir sjúklingar tóku tuttugu millílítra af lýsi á dag í sex vikur, en engra breytinga varð vart á algengi óreglulegs hjartsláttar eða aukaslaga slegils. 1 Niðurstöður rannsókna benda til þess að taka lýsis varni samloðun blóðflagna og geti þannig dregið úr líkum á myndun blóðtappa sem geta til dæmis orsakað hjartaáfall og heilablóðfall. Lýsi virðist á hinn bóginn ekki hafa nein teljandi áhrif á þau ferli í líkamanum sem stuðla að sundrun blóðtappa (fíbrínsundrun). 2

Mikill styrkur kólesteróls í blóði er talinn áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. Hugsanlegt er að lýsistaka hafi einhver hagstæð áhrif á styrk kólesteróls, en afgerandi niðurstöður skortir enn sem komið er. Rannsókn sem beindist að áhrifum daglegrar lýsistöku á heilsufar karla, sem höfðu fengið hjartaáfall, leiddi ekki í ljós nein jákvæð áhrif. 3 Mælingar á heildarkólesteróli og þungu ("góðu") kólesteróli (HDL) sýndu ekki fram á neinar marktækar breytingar hjá sjúklingum í þessari slembi- og víxlrannsókn, en þeir tóku 20 millílítra af lýsi á dag í sex vikur í senn. Í annarri rannsókn breyttist magn kólesteróls mismunandi eftir því hvort um konur eða karla var að ræða sem tóku lýsi og áhrif á blóðflögur voru mismunandi, en hjá báðum kynjum varð aðeins óveruleg og ómarktæk breyting á styrk kólesterólsins. 4

Lýsi (og ómissandi fitusýrur þess) hefur verið talið koma að gagni sem lækning á liðbólgu, en vel útfærð rannsókn sem stóð í 24 vikur og náði til áttatíu og sex sjúklinga með slitgigt leiddi ekki í ljós nein jákvæð áhrif af lýsistöku. Árangurinn var metinn í læknisskoðun sem fór fram á fjögurra vikna fresti og mat var lagt á liðverki og liðbólgu og athafnagetu ásamt öðrum þáttum. 5

Komið hefur í ljós að taka lýsis hefur jákvæð áhrif hvað varðar suma kvilla. Lýsið kann að draga úr verkjum í beinum og vöðvum, svo sem í baki, áreynsluverkjum og liðverkjum, einkum hjá þeim sem eru haldnir sjúkdómum í stoðkerfi, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem fór fram á vegum norskra heilbrigðisyfirvalda árið 1985 og voru gefnar út árið 1996. 6 Ekki finnast aðrar heimildir í læknaritum um rannsóknir á þessu sviði.

Rannsakendur hafa einnig komist að því að taka lýsis getur varnað því að prótín (albúmín) berist eða leki úr háræðum í nýrum hjá sjúklingum með insúlínóháða sykursýki þar sem nýrnabilun er í þróun. Þessi varð niðurstaða tvíblindrar rannsóknar sem fór fram árið 1989 og náði til átján manna sem tóku lýsi í átta vikur og síðan lyfleysu (ólífuolíu) í jafn langan tíma, eða öfugt. 7 Rannsókn, sem fór fram síðar, sýndi fram á að ef hrein eikósapentensýra úr lýsi var gefin nýrnasjúklingum með insúlínóháða sykursýki virtist magn prótína (albúmíns) í þvagi minnka til frambúðar. 8

Lýsi er að líkindum árangursríkt verndandi efni í áburði sem er notaður við gyllinæð, en óljóst er hvort það örvar gróanda sára. 9 Rannsakendur kanna nú hvort það komi að gagni við meðgöngueitrun. 10

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Ekki er vitað hvort áhætta fylgir því að taka lýsi í stórum skömmtum eða í langan tíma. 11 Fæstar klínískar rannsóknir greina frá aukaverkunum af töku lýsis, en í sumum heimildum er mælt með því að fólk reyni að finna aðra gjafa ómissandi fitusýrna, þar eð svo mikið þurfi að taka af lýsi til að ná ráðlögðum dagskammti af þeim að hætta verði á eitrun vegna ofgnóttar A- og D-vítamíns í líkamanum.

Lýsi á Íslandi
Lýsi hefur gegnt miklu hlutverki í lífi Íslendinga um aldir. Nafnið gefur til kynna til hvers þetta efni var einkum notað: orðið lýsi er dregið af orðinu ljós, enda var lýsi helsti ljósgjafi Íslendinga frá upphafi og allt þar til innflutt olía, og síðar rafmagnið, kom til sögunnar. Lýsi hafði margvíslegt annað notagildi á árum áður, það var til dæmis notað sem áburður á hlífðarföt sjómanna, til þess að lægja öldur í óveðri og til neyslu. Íslendingar hafa öldum saman tekið lýsi sér til heilsubótar og gera enn. Til eru margar sögur bæði af konum og körlum fyrr á öldum sem bjuggu yfir einstökum líkamskröftum sem þakkaðir voru mikilli lýsisneyslu. Sú trú var líka almenn að búpeningur kæmi líka betur undan vetri ef lýsi væri gefið með öðru fóðri. Hér á landi er sú skoðun útbreidd að gæludýr fái sérlega fallegan feld ef þeim er gefið lýsi.

Lýsi hefur verið unnið hér á landi og selt til annarra landa til manneldis um margra áratuga skeið og sá útflutningur hefur farið vaxandi. Víðtækar rannsóknir á heilsubætandi áhrifum lýsis og lækningamætti þess hafa farið fram hér á landi, meðal annars við Háskóla Íslands.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Balch, J.F. og P.A. Balch. Prescription for Nutritional Healing: A Practical A to Z Reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements. 2. útg. Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997. Mayell, M. Off-the-Shelf Natural Health. How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995.

Tilvísanir
1. T. Hardarson et al., Journal of Internal Medicine, 226(1) (1989): 33-37. 2. G. Hellsten et al., Current Medical Research & Opinion, 13(3) (1993): 133-139. 3. G.V. Skuladottir et al., Journal of Internal Medicine, 228 (6) (1990): 563-568. 4. J.B. Hansen et al., European Journal of Clinical Nutrition, 47(2) (1993): 123-131. 5. T. Stammers et al., Annals of the Rheumatic Diseases, 51(1) (1992): 128-129. 6. W. Eriksen et al., European Journal of Clinical Nutrition, 50(10) (1996): 689-693. 7. T. Jensen et al., New England Journal of Medicine, 321(23) (1989): 1572-1577. 8. H. Shimizu et al., Diabetes Research & Clinical Practice, 28(1) (1995): 35-40. 9. American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. (Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 10. G. Boog, Revue Française de Gynecologie et de Obstetrique, 88(2) (1993): 63-68. 11. American Pharmaceutical Association. Sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.