Meltingin

Meltingin

  • Melting_inga_01

Það er ansi margt sem getur farið úrskeiðis í meltingunni okkar og flestir kannast við að hafa upplifað meltingartruflanir einhvern tímann á ævinni.

Þá er oft um að ræða frekar vægar truflanir, eins og uppþembu og vindgang eða verri einkenni eins og mikla verki, þráláta hægðatregðu, bakflæði og alvarlega meltingarfærasjúkdóma. 

Margir segja að ef meltingin virkar ekki rétt þá gangi fátt eðlilega í líkamsstarfseminni. Þetta eru orð að sönnu, meltingin skiptir öllu máli. Öll okkar tilvera byggir á því að hún sé í góðu lagi og virki eðlilega. 

Það skiptir auðvitað miklu máli hvernig matar­æðið er samsett, það segir sig sjálft og slæmt og einhæft mataræði getur skapað vandamál. 

Svo eru aðrir sem borða holla og góða fæðu sem upplifa engu að síður óþægindi frá meltingarvegi. Það getur átt sér ýmsar ástæður.  

Þyngsli í maga (eins og grjót í magasekknum), þreyta eftir máltíðir, kuldatilfinning í líkamanum, sykurlöngun eftir matinn, ómelt fæða í hægðum og andremma eru einkenni sem geta stafað af því að framleiðsla á meltingarhvötum (ensímum og magasýru) hefur minnkað einhverra hluta vegna. Þá verður niðurbrot fæðunnar í meltingarveginum erfitt ferli og ófullnægjandi. Oft gerist það í kjölfar streitutímabila og með hækkuðum aldri. Þá getur verið ráð að hjálpa meltingunni með því að taka inn meltingarensím eða jurtir sem örva framleiðslu þeirra. Einnig er hægt að fá Betain HCL sýru í töfluformi. 

Það er líka ráð að passa að drekka ekki of mikinn vökva með mat, því þá þynnast meltingarhvatarnir um of og virka ekki sem skyldi. Betra er að drekka vatnsskammt dagsins á milli mála. 

Gallið virðist stundum ekki flæða eðlilega og þá getur fitumeltingin orðið erfið. Gallsteinar geta myndast og þá þarf oft að fjarlægja gallblöðruna. Þá lenda þeir einstaklingar oft í erfiðleikum (sérstaklega til að byrja með) með að melta fitu eðlilega. Fólk fær jafnvel mikinn niðurgang, ógleði og ýmis önnur ein­kenni. Í sumum tilbúnum ensímblöndum er gallekstrakt sem getur þá hjálpað í slíkum tilfellum
Fæðuóþol er fyrirbæri sem á sér upphaf í meltingarfærunum og skapast af því að þarmaslímhúðin verður lek (leaky gut syndrome). Þá frásogast jafnvel of stórar fæðueiningar út í blóðrásina, líkaminn ræðst til atlögu við þær, þar sem hann þekkir þær ekki og myndar óþolsviðbragð. Óþol er mjög lúmskt fyrirbæri, einkennin koma oft ekki fram fyrr en mörgum tímum eftir neyslu óþolsvaldsins og fólk á oft í stökustu vandræðum með að átta sig á hver sökudólgurinn er. Ráð við því er að reyna að útiloka óþolsvaldana og byggja upp þarmaslímhúðina að nýju. Það er til dæmis hægt að gera með L-Glutamine amínósýrunni. 

Uppþemba og vindgangur geta oft stafað af því að hálf og illa melt fæða safnast saman í ristlinum, úldnar, súrnar og gerjast og myndar gas. Þá skapast einnig kjöraðstæður fyrir allskonar bakteríur og sveppi, sem geta þá fjölgað sé um of og valdið vandamálum. Slíku ástandi þarf oft að taka á með bakteríudrepandi jurtum og reyna svo að byggja upp betri þarmaflóru með góðum meltingargerlum (probiotics). 

Melting_inga_02