Náttúruefni og náttúrulyf

Náttúruvörur

  • Natturuefni

Náttúruefni eru unnin á einfaldan hátt úr plöntum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum. Ef hægt er að sýna fram á áhrif náttúruefnis á sjúkdóm eða sjúkdómseinkenni er hægt að sækja um skráningu efnisins sem náttúrulyf.

Ýmir Vésteinsson, lyfjafræðingur.

Náttúruefni eru unnin á einfaldan hátt úr plöntum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum. Ef hægt er að sýna fram á áhrif náttúruefnis á sjúkdóm eða sjúkdómseinkenni er hægt að sækja um skráningu efnisins sem náttúrulyf. Öll framleiðsla náttúrulyfja þarf að vera stöðluð og vera undir gæðaeftirliti til þess að markaðsleyfi sé veitt. Ennfremur þurfa náttúrulyf að henta til sjálfsmeðferðar. 

Almennt gildir að náttúrulyf innihalda minna af virkum efnum en sérlyf - þar af leiðandi hafa þau minni virkni og minni hætta er á aukaverkunum. 

Náttúruefni fást frá mörgum mismunandi framleiðendum og eru misjöfn að gæðum. Ef sýnt hefur verið fram á ákveðna verkun náttúruefnis frá tilteknum framleiðanda gildir það ekki endilega um þetta náttúruefni frá öllum öðrum framleiðendum. Það er því mikilvægt ef fólk vill nota náttúruefni eða náttúrulyf til að bæta eigin heilsu að það geti treyst gæðum vörunnar. Lyfjayfirvöld votta gæði framleiðslu þegar þau veita náttúrulyfjum markaðsleyfi.

Heilbrigð skynsemi
Áður en náttúruefni eða náttúrulyf eru keypt ætti alltaf að hafa í huga hver gefur upplýsingar um þau. Það er eðlilegt að taka upplýsingum frá söluaðilum með ákveðnum fyrirvara, og velta því fyrir sér hvaðan þeir hafa upplýsingar um efnin. Eru þeir til dæmis að draga víðtækar ályktanir út frá eigin reynslu, af sögusögnum eða niðurstöðum óstaðfestra rannsókna? Það þarf að hafa varann á ef söluaðili heldur því fram að:

  • efnið lækni alvarlega sjúkdóma á borð við krabbamein á einfaldan hátt,
  • efnið hjálpi þér að grennast án fyrirhafnar,
  • hann hafi upplýsingar sem heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstéttir séu í samsæri um að leyna almenningi,
  • náttúruefni valdi aldrei aukaverkunum.

 

Náttúrulyf geta haft áhrif á verkun annarra lyfja og því ætti alltaf að athuga möguleika á milliverkunum ef þú tekur önnur lyf.

Ef einhver einkenni koma fram meðan náttúrulyf er tekið sem gætu hugsanlega verið aukaverkanir, s.s. magaóþægindi, útbrot og kláði eða höfuðverkur, ætti að hætta að taka lyfið strax. Ef einkennin eru mikil eða langvarandi ætti að hafa samband við lækni.

Ekki taka óþarfa áhættu
Þungaðar konur, konur með barn á brjósti og ung börn ættu ekki að taka lyf, náttúruefni eða náttúrulyf, nema nauðsyn beri til að nota þau. Gögn um öryggi náttúrulyfja fyrir þessa hópa liggja ekki fyrir og því vegur áhættan við að nota þau mun meira en hugsanlegur ávinningur. Eldra fólk með skerta lifrarstarfsemi og fólk með alvarlega sjúkdóma ætti einnig að forðast notkun náttúrulyfja, af sömu ástæðum.

Ekki taka of stóra skammta
Það er aldrei ráðlegt að taka stærri skammta en eru skráðir á pakkningar náttúrulyfsins eða sem sérfræðingur ráðleggur. Stærri skammtar gera sjaldnast meira gagn og auka hættu á aukaverkunum. Mjög stórir skammtar geta jafnvel haft eituráhrif ef virk efni safnast upp í líkamanum. Þetta á einnig við ef stórir skammtar eru teknir til lengri tíma.

Ekki nota náttúrulyf við alvarlegum sjúkdómum
Aldrei ætti að nota náttúrulyf til sjálfsmeðhöndlunar gegn alvarlegum sjúkdómum á borð við sykursýki, hjartasjúkdómum, krabbameini eða alnæmi. Það er flókið að meðhöndla þessa sjúkdóma og þarf mikla þekkingu og góða aðstöðu til. Í þessum tilfellum ætti læknir að stjórna meðferðinni.

Það sama gildir um alvarleg einkenni eins og bjúg eða mikla sviðatilfinningu við þvaglát. Ef þú vilt reyna einhver náttúrulyf við alvarlegum sjúkdómum ætti að taka ákvörðun um það í samráði við þann lækni sem stjórnar meðferðinni.