Njóttu sólarinnar með umhugsun

Ferðir og ferðalög

  • Solbruni-187926148

Jafnvel þó þú sért mikill sóldýrkandi þá borgar sig að njóta sólarinnar með nokkurri umhugsun og varkárni og varast það að sólbrenna. 

Mikil sólböðun án þess að nota sólarvörn getur valdið varanlegum skaða á húðinni. Hún tapar teygjueiginleikum sínum, hrukkur koma fyrr í ljós og húðin verður þykk og leðurkennd. Liturinn verður einnig gráleitari í stað þess að verða fallega gylltur.

Með því að njóta sólarinnar með varkárni heldur liturinn sér líka lengur. Þú sleppur við flagnandi húð og roða og eymsli sem eyðileggja nætursvefninn og þú kemur einnig í veg fyrir kuldahroll, verki og höfuðverk sem geta auðveldlega fylgt í kjölfar sólbaðsdags á ströndinni. Til lengri tíma litið minnkarðu líkurnar á því að fá húðkrabbamein.

Þegar þú ert í sólinni myndar húðin efni sem heitir melanín. Melanín dekkir húðina og er í raun hin náttúrulega sólarvörn. Húðin þarf að fá tíma til að venjast sólinni og mynda melanín. Fólk sem tekið hefur lit áður brennur því sjaldnar en þeir sem eru óvanir sólinni.

Athugaðu að það eru til krem sem lita húðina án þess að hún komi nálægt sól, svokölluð brúnkukrem. Þessi krem innihalda díhýdroxýasetón sem bindast amínósýrum í ysta lagi húðarinnar. Þegar dauðar húðfrumur detta af dettur liturinn af í leiðinni, yfirleitt eftir 1-3 daga. Brúnkukrem koma ekki í staðinn fyrir melanín og þú ert því ekki betur varin(n) fyrir geislum sólarinnar þó þú hafir notað svoleiðis krem. Ófrískar konur og konur með börn á brjósti ættu ekki að nota brúnkukrem.

Tíðni húðkrabbameina hefur aukist á undanförnum árum 1 og ýmislegt bendir til þess að sú aukning stafi af sólböðum í óhófi. Það er ekki hægt að verða brúnn án þess að taka vissa áhættu en ef þú vilt verða brún(n) þá er best að það gerist hægt.

Þú getur varið þig gegn geislum sólarinnar með því að fylgja nokkrum einföldum ráðum:

Forðastu miðdegissólina, milli 12 og 15
Á sumrin eru geislar sólarinnar skaðlegastir eftir hádegið, milli kl. 12 og 15. Reyndu þess vegna að gera eitthvað annað en að liggja í sólinni á þessum tíma dagsins. Farðu frekar í sólbað fyrir kl. 12 eða eftir kl. 15. Hafðu líka í huga að hvítur sandur og vatn eða sjór endurkastar geislum sólarinnar svo þú verður fyrir mun meiri geislun á slíkum stöðum heldur en t.d. ef þú værir á grasflöt.

Haltu þig í skugganum
Það hljómar kannski undarlega en það þarf ekki að sitja beint undir sólinni til þess að vera brúnn. Þó þú sitjir undir tré eða í skugga sólhlífar færðu samt um helminginn af geislum sólarinnar á líkamann. Maður getur einnig tekið lit á skýjuðum sumardegi.

Vertu í léttum fatnaði
Ef þú hefur ekki möguleika á því að halda þig í skugganum þá er góð hugmynd að vera í þunnum bómullarfatnaði og jafnvel með derhúfu. Derhúfan á sérstaklega við fyrir þá sem eru með skalla eða þunnt hár. Bómullarfatnaður er góð vörn gegn geislum sólarinnar. Ef þú ert í bol úr slíku efni geturðu t.d. verið 7-11 sinnum lengur í sólinni en annars. Á þá staði sem ekki er hægt að hylja með fatnaði skaltu bera sólarvörn.

Notaðu sólarvörn
Það er enginn vafi á því að það besta sem þú getur gert til að forðast geisla sólarinnar er að forðast miðdegissólina, halda þig í skugganum eða vera í léttum fatnaði. Ef að þú þarft eða vilt gjarnan vera í sólinni samt sem áður þá er mjög mikilvægt að nota sólarvörn. Viðkvæm, ljós húð þolir næstum enga sól og sólbrennur fjótt og auðveldlega á meðan þeir sem hafa dekkri húð þola sólina betur.

Heimildir:

  1. Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands
  2. Unnið að hluta til upp úr bæklingi um sólarvarnir, gefnum út af "Apotekerne i Danmark".