Ólífulauf

Náttúruvörur

  • Olivulauf

Leðurkennd laufblöð hins forna, sígræna ólífutrés eru notuð til lækninga. Í lækningaskyni hafa lyfjablöndur úr ólífulaufi verið notaðar sem þvagræsilyf og gegn háum blóðþrýstingi.

Fræðiheiti
Olea europa var. europaea.
Ætt: Smjörviðarætt Oleaceae.

Önnur heiti
Olíuviður, smjörviður, olíutré.

Ensk heiti
Olive leaf, lucca.

Einkunn
3 = Rannsóknir á virkni og öryggi þessa efnis stangast á eða þær eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að draga af ályktanir af niðurstöðum þeirra.

Hvað er ólífulauf?
Leðurkennd laufblöð hins forna, sígræna ólífutrés eru notuð til lækninga.

Notkun
Ólífugreinin hefur verið tákn um frið og hagsæld allt frá tímum Biblíunnar og kjötkenndar ólífurnar og olía unnin úr þeim hafa verið notaðar við matreiðslu um aldir. Í lækningaskyni hafa lyfjablöndur úr ólífulaufi verið notaðar sem þvagræsilyf og gegn háum blóðþrýstingi. Nýlega hefur áhugi manna beinst að notagildi ólífulaufs í því skyni að minnka blóðsykur og stuðla þar með að því að halda sykursýki í skefjum. Þá hefur tíðkast öldum saman að leggja laufið við sár til þess að örva gróanda.

Helstu lyfjaform
Seyði, vökvakjarni, tinktúra.

Algeng skammtastærð
Þegar notaðar eru keyptar lyfjablöndur með ólífulaufi er mikilvægt að fylgja leiðbeiningum á umbúðunum.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Dýratilraunir allt frá fjórða áratug síðustu aldar gefa til kynna að kjarni (seyði og tinktúra) úr ólífulaufi geti slegið á háan blóðþrýsting. Eitt hinna virku innihaldsefna er glýkósíðið ólevrópeósíð (ólevrópín). 1 Sýnt hefur verið fram á efnið lækkar blóðþrýsting í rottum, hundum og öðrum dýrum, en svo virðist sem engar tilraunir hafi verið gerðar á mönnum. 2 Í þýskri kennslubók er ráðlagt að nota ólífulauf gegn óstöðugum blóðþrýstingi og miðlungi háum og mjög háum blóðþrýstingi. 3 Þýsk heilbrigðisyfirvöld viðurkenna þó ekki notkun kjarna úr ólífulaufi í þessum tilgangi og bera við að engar sannanir séu fyrir því að hann hafi tilætluð áhrif. 4

Vísbendingar um gagnsemi ólífulaufs við meðhöndlun sykursýki eru mjög óljósar, en kannanir hafa sýnt að kjarni úr ólífulaufi getur minnkað blóðsykur í tilraunadýrum með sykursýki sem hefur verið kölluð fram með efnafræðilegum hætti. 5 Í sumum rannsóknum hefur komið fram að kjarni úr ólífulaufi hefur þvagræsandi áhrif. Þýsk heilbrigðisyfirvöld telja þessar niðurstöður ekki nógu sannfærandi og viðurkenna ekki ólífulauf sem þvagræsandi lyf. 6

Vísindamenn hafa rannsakað áhrif kjarna úr ólífulaufi á hjartastarfsemi í hundum, en engin ályktun hefur verið dregin af niðurstöðunum. 7 Í könnun frá 1941 reyndist kjarni úr ólífulaufi ekki hafa nein hitalækkandi áhrif í naggrísum og það gefur til kynna að fólk sem notar laufið í þessum tilgangi fái enga bót meina sinna. 8 Andoxandi eiginleikar hafa greinst bæði í ólífulaufi og ólífuolíu. 9 Andoxunarefni (sindurvarar) koma í veg fyrir myndun hættulegra efna í líkamanum, svokallaðra sindurefna. Sindurefni skaða frumur með oxun sem gæti átt þátt í myndun krabbameinsfrumna. Enn er óljóst hvaða hlutverki andoxunarefni gegna við að fyrirbyggja eða lækna krabbamein í mönnum.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Marktækar aukaverkanir hafa ekki verið tengdar notkun ólífulaufs. Þar sem lyfjablöndur með ólífulaufi erta ef til vill magaþekjuna er æskilegast að taka þær inn eftir máltíð. Þeir sem eru haldnir sykursýki ættu að hafa hugfast að hún er alvarlegur sjúkdómur og læknir verður að hafa algera umsjón með meðhöndlun hennar.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D. C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bremness, L. Herbs. 1. bandaríska útg. Eyewitness Handbooks. New York: Dorling Kindersley Publications, 1994. Chevallier, A. The Encyclopedia of Medicinal Plants: A Practical Reference Guide to More Than 550 Key Medicinal Plants & Their Uses. 1. bandaríska útg. New York: Dorling Kindersley Publications, 1996. Hallowell, M. Herbal Healing: A Practical Introduction to Medicinal Herbs. Garden City Park, NY, 1994. Mindell, E. Earl Mindell´s Herb Bible. New York: Simon & Schuster/Fireside, 1992. Weiss, R.F. Herbal Medicine, þýð. A.R. Meuss, úr 6. þýsku útg. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir
1. M. Gonzalez et al., Planta Medica 58 (6) (1992): 513-515. 2. A. Trovato et al., Plantes Medicinaleset Phytotherapie, 26 (4) (1993):300-308. 3. R.F. Weiss, Herbal Medicine, þýð. A.R. Meuss, úr 6. þýsku útg. (Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988). 4. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 5. Gonzalez, sama heimild. Trovato, sama heimild. 6. Blumenthal et al., sama heimild. 7. F. Occhiuto et al., Phytotherapy Research, 4 (4) (1990):140-143. 8. J. Delphaut et al, Comptes Rendus Sociologique Biologique, 135 (1941):1458-1460. 9. I. Susnik-Rybarski et al., Hrana Ishrana, 24 (1-2) (1983):11-15. B. Berra et al., Riv. Ital Sostanze Grasse, 72 (7) (1995): 285-288.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.