Piparminta

Náttúruvörur

  • Piparminta

Fjölmörg afbrigði piparmintu eru ræktuð víða um heim. Laufblöðin hafa um aldir verið notuð til lækninga, bæði þurrkuð og fersk, sem og blómin.

Fræðiheiti
Mentha x piperita (L.).
Ætt: Varablómaætt Labiatae (Lamiaceae).

Önnur heiti
Piparmenta, piparmynta.

Enskt heiti
Peppermint.

Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er piparminta? Þessi mikils metna planta af ætt varablóma á uppruna sinn á enskum akri á 18. öld þar sem hrokkinminta var ræktuð. Til varð náttúrlegur blendingur milli hrokkinmintunnar ( Mentha spicata), sem er ef til vill sjálf blendingur, og vatnamintu ( M. aquatica). Stöngull piparmintunnar er ferstrendur, líkt og hjá mörgum öðrum varablómum, laufblöðin eru aflöng eða egglaga og oft brúnleit og blómin eru lítil og rauð- eða bláleit í klasa. Fjölmörg afbrigði piparmintu eru ræktuð víða um heim. Laufblöðin hafa um aldir verið notuð til lækninga, bæði þurrkuð og fersk, sem og blómin.

Úr blöðum, stöngli og blómum er unnin ilmsterk og kryddrík olía sem hefur kælandi áhrif. Seint á 19. öld tókst efnafræðingum að einangra mikilvægasta efnisþáttinn, mentól, úr olíunni.

Notkun
Í ættkvísl mintanna eru ýmsar þekktar krydd- og lækningajurtir og þar bera piparmintan og hrokkinmintan af eins og gull af eiri. Bæði í austrænum og vestrænum þjóðfélögum hafa menn lagað te af piparmintu til þess að meðhöndla meltingartruflanir, særindi í hálsi, ógleði, kvef, krabbamein, þembu í meltingarfærum, krampa í maga og óþægindi í þörmum. (Þótt hrokkinminta innihaldi rokgjarna olíu, sem gefur henni sérkennandi ilm og bragð og læknandi eiginleika sína, er ekkert mentól að finna í henni og þess vegna er hún hvorki talin jafnfjölhæf né jafnöflug lækningajurt og piparmintan.) Englendingar hófu að nota piparmintu til lækninga og ræktuðu hana til sölu þegar á miðri 18. öld, og hið sama varð uppi á teningnum í Norður-Ameríku skömmu síðar. Meira er nú ræktað af jurtinni í Bandaríkjum Norður-Ameríku en nokkru öðru landi heims.

Nútímagrasalæknar mæla með jurtinni til innvortis nota í sama tilgangi og fyrirrennarar þeirra gerðu. Sumir lofa hæfni hennar til þess að draga úr ferðaveiki, draga úr slímmyndun í nefgöngum, lina höfuðverk og brjóstsviða og slá á sótthita og ráða bót á svefnleysi. Þá er hún talin koma að gagni gegn krampa. Laufið og kjarni úr plöntunni eru í mörgum evrópskum hægðalyfjum og lyfjablöndum til að ráða bót á kvillum í gallgöngum og örva gallmyndun. Í mörgum heimildum er mælt með piparmintuilmbaði fyrir þá sem eru haldnir spennu og þreytu. Gegn bólgu og kláða í húð þykir gott að bera á lyfjablöndur með piparmintu.

Auk þess að vera algengt bragðefni inniheldur piparmintuolía mentól, sem er læknisfræðilega virkt efni, víða notað sem lyf gegn meltingartruflunum og vindgangi, einnig til sótthreinsunar og staðdeyfingar í margvíslegum lyfjablöndum, meðal annars í kvef- og hóstamixtúrum og í áburði við skordýrabiti, gyllinæð, tannpínu og sársauka í stoðkerfi. Verið er að kanna hvort það geti gagnast í meðferð á heilkennum ristilertingar. Piparmintuolía er enn fremur algeng í húðáburði, ilmúða og ilmlækningablöndum.

Helstu lyfjaform
Innvortis notkun: Bragðefni í brjóstsykri, hylki, seyði (úr þurrkuðum laufblöðum), laufblöð (fersk og þurrkuð), hálstöflur, olía, síróp, tinktúra. Ekki er tryggt að te úr laufblöðum piparmintu hafi nægilegan efnastyrk til að læknandi áhrifa hennar gæti.
Útvortis notkun: Olía, áburður, tinktúra. Olían kemur fyrir í mörgum vörum; hún inniheldur oftast verulegt magn af mentóli. Sumar lyfjablöndur innihalda aðeins mentólkjarna.

Algeng skammtastærð
Oftast eru teknir 1,5 til 3 gramma skammtar af þurrkuðum laufblöðum eða sami skammtur er notaður til að laga seyði. Styrkur tinktúru er nokkuð breytilegur og sama máli gegnir um ráðlagða skammtastærð. Algeng skammtastærð tinktúru er 2-3 millílítrar þegar hlutfall piparmintu á móti vökva er 1 hlutur á móti og hún inniheldur 45 % etanól (vínanda). Þrjú til sex grömm af laufblöðum eru tekin daglega gegn kvillum í meltingarvegi og til að örva gallmyndun. Te er gert úr einni matskeið (1,5 grömmum) af laufblöðum fyrir hvern bolla af vatni og er drukkið þrisvar til fjórum sinnum á dag milli máltíða. Ilmolían er tekin í 0,05 til 0,2 millílítra skömmtum. Húðuð hylki með piparmintuolíu eru tekin í 0,2 til 0,4 millílítra skömmtum eða allt að 0,6 til 1,2 millílítrar daglega (vegna húðunarinnar þarf stærri skammt en ef olían væri tekin beint). Algengur skammtur gegn gallsteinum og heilkennum ristilertingar er eitt eða tvö húðuð piparmintuolíuhylki (0,2 millílítrar af olíu/hylki) þrisvar á dag milli máltíða. Óþynnt olía er borin á húðina til að draga úr ertingu. Nokkrir dropar af olíu eru notaðir í gufuúðara.

VIÐVÖRUN: Neytið aldrei óblandaðs mentóls! Það er eitrað og aðeins ein teskeið (eitt gramm fyrir hvert kíló líkamsþyngdar) getur verið banvæn.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Lækningamáttur piparmintu er aðallega bundinn rokgjörnu piparmintuolíunni. Hún inniheldur mikið (50 % eða meira) af mentóli sem er kristallað alkóhól og hefur umtalsverða lækningaeiginleika. Það er líklega vegna mentólsins að piparminta er kunn fyrir róandi áhrif á maga og gasmyndun; rannsóknir sýna að hún róar slétta vöðva meltingarvegarins (er krampahemjandi) og auðveldar fólki að losna við loft með ropa. 1 Mentól og önnur innihaldsefni (líklega flavonóíðar 2) örva einnig gallmyndun í lifur, en gall er meltingarvökvi sem stuðlar að niðurbroti fituefna. 3 Þýsk heilbrigðisyfirvöld leyfa notkun piparmintu og piparmintuolíu til að hemja krampa, einkum í efri hluta meltingarvegarins, og telja hana einnig áhrifaríka í að örva magaseyti. 4 Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur aftur á móti lýst yfir því að piparmintuolía komi ekki að gagni sem örvandi lyf fyrir meltingu og leyfir ekki lengur notkun hennar í þeim tilgangi í lyfjum sem fást án lyfseðils. 5 Þessi ákvörðun var sögð byggð á því að niðurstöður sem bárust til stofnunarinnar hefðu ekki verið nægilega sannfærandi.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna leyfir þó notkun piparmintuolíu sem lyf við kvefi og bæði hún og hreint mentól koma fyrir í mörgum hósta- og hálstöflum, innöndunarlyfjum og í kremum og smyrslum til að bera í nefgöng. Flestir notendur greina frá því að stíflur í nefgöngum og afholum nefs losni við notkun þessara lyfjablandna.

Þýsk heilbrigðisyfirvöld mæla með því að piparmintuolía sé notuð við heilkennum ristilertingar, en það er ástand sem lýsir sér í kviðverk með kveisu, uppþembu, og óeðlilegri hægðalosun. 6 Ráðfærðu þig við lækni ef þú hefur áhuga á að reyna piparmintuolíu í þessum tilgangi.

Piparminta hefur reynst vel gegn sýkingum í ýmsum rannsóknum og réttlætir það líklega hefðbundna notkun hennar til að græða sár. Hún reynist búa bæði yfir bakteríu- og veiruhemjandi eiginleikum í glasatilraunum. Olían drepur ekki eingöngu ýmsar bakteríur, því að hún reynist einnig halda ýmsum veirum í skefjum, svo sem Herpes simplex veirum, bæði þeirri sem veldur frunsu í andliti og þeirri sem veldur kynfæraherpes. 7 Hagnýta möguleika hennar til að meðhöndla slíkar sýkingar þarf þó að kanna mun betur.

Verkeyðandi og ertingarsefandi eiginleikar mentóls eru almennt viðurkenndir meðal lækna og líklegt er að bæði mentól og piparmintuolía geti í mörgum tilfellum deyft sársauka eða kallað fram kælandi tilfinningu í húðinni sem stuðlar að því að sefa bólguverki sem fylgja t.d. liðagigt og sinabólgu.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Flestir fullorðnir geta drukkið piparmintute reglulega án þess að aukaverkanir geri vart við sig; styrkur mentóls í piparmintute er raunar mjög lítill. Flestar kvartanir sem tengjast piparmintu koma fram eftir notkun lyfjablandna sem innihalda mikið mentól eða mentón eða þegar vörur með miklu af piparmintuolíu, t.d. mentólsígarettur, eru notaðar.

Varist að gefa ungbörnum eða ungum börnum piparmintute eða nokkra lyfjablöndu sem inniheldur piparmintuolíu. Þeim gæti brugðið og jafnvel kúgast eða fengið köfnunartilfinningu vegna hinnar römmu lyktar og vegna áhrifa mentólsins. Ef áburður, sem inniheldur mentól, er notaður gegn kvefi hjá ungbörnum og borinn í nasir þeirra geta þau orðið fyrir losti. 8

Ef stærri skammtur af piparmintuolíu er tekinn en oftast er ráðlagt er sú hætta fyrir hendi að fram komi brjóstsviði og magasýrubakflæði. Þeir sem eru með þindarslit (hiatal hernia) ættu að ráðgast við lækni áður en þeir nota piparmintuolíu í einu eða öðru formi, þar sem olían getur aukið einkennin. 9 Of stór innvortis skammtur af piparmintuolíu hefur valdið skammtaháðum heilaskemmdum í rottum. 10 Ef piparmintuolía er borin á húðina óþynnt eða í stórum skömmtum getur hún valdið ertingu og enn fremur hefur komið í ljós að piparmintuolía eða mentól í ráðlögðum skömmtum geta valdið útbrotum eða húðbólgu hjá viðkvæmum einstaklingum.

Þeir sem eru haldnir ofnæmi fyrir mentóli ættu að forðast allar vörur úr piparmintu til að komast hjá einkennum á borð við höfuðverk, útbrot og hitakóf. 11 Í nokkrum heimildum er mælt með því að þeir sem eru með gallsteina ýmist ráðfæri sig við lækni áður en þeir taka lyfjablöndur sem innihalda piparmintu eða þeir sneiði algerlega hjá slíkum vörum. 12

Piparminta á Íslandi
Piparminta hefur lengi verið ræktuð hér á landi og þrífst ágætlega, þótt hún nái sjaldnast blómgun. Hún verður um hálfur metri á hæð og hefur verið ræktuð sem skrautjurt, enda gera brúnleit laufblöðin hana dálítið sérstaka, en hún er skriðul, breiðist út með renglum, og hentar því kannski fremur í matjurta- og kryddgörðum.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Bisset, N.G., ritstj. Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. Stuttgart: medpharm GmbH Scientific Publishers, 1994. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, 1. bindi. Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Dobelis, I.N., ritstj. The Magic and Medicine of Plants: A Practical Guide to the Science, History, Folklore, and Everyday Uses of Medicinal Plants. Pleasantville, NY: Reader´s Digest Association, 1986. Foster, S. Peppermint: Mentha x piperita. American Botanical Council, Botanical Series nr. 306. 1991. Hallowell, M. Herbal Healing: A Practical Introduction to Medical Herbs. Garden City Park, NY, 1994. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, júlí 1990. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Mayell, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993.

Tilvísanir
1. American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. (Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 2. V.E. Tyler, The Honest Herbal. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993). 3. G.D. Bell og J. Doran, British Medical Journal, 278 (1979): 24. W.R. Ellis og G.D. Bell, British Medical Journal, 282 (1981): 611. 4. M. Blumenthal og J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 5. Tyler, sama heimild. 6. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 7. A.Y. Leung og S. Foster, Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. (New York: John Wiley & Sons, 1996). 8. Sama heimild. 9. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, júlí 1990). 10. P. Olsen og I. Thorup, Archives of Toxicology (Suppl. 7) (1984): 408. 11. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, júlí 1990). 12. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.