Sólarvarnarkrem

Ferðir og ferðalög

  • Solarvarnarkrem

Sólarvarnarkrem koma í veg fyrir að skaðlegir geislar sólarinnar brenni húð okkar en notkun slíkra krema þýðir ekki að við þurfum að hætta að fara varlega í sólinni.

Hvernig er best að nota sólarvarnarkrem?
Það er mikilvægt að nota sólarvarnarkrem rétt til þess að það virki eins og framleiðandinn segir til um á umbúðum. Ef það er ekki gert má gera ráð fyrir að vörnin virki ekki sem skyldi og líkurnar á að sólbrenna eða fá húðkrabba aukast. 

Í fyrsta lagi þarf að nota ríkulegt magn þannig að húðin sé mettuð af kremi þar sem borið er á hana.

Þumalputtaregla:
Rúmlega lófastór gusa nægir til að smyrja allan kroppinn (ca. 30-40 g fyrir fullvaxinn einstakling). 

Í öðru lagi þarf að muna að setja aftur á sig sólarvörn eftir að maður hefur verið í sólinni lengi, verið í vatni eða sjó, legið lengi á handklæði eða svitnað mikið. Á umbúðum sumra tegunda sólarvarnarkrema er sagt að sólarvörnin sé vatnsheld. Það er að sumu leyti rétt en ef viðkomandi þurrkar sér með handklæði er líklegt að kremið hverfi af kroppnum. Það er því alltaf öruggast að bera vel á sig aftur eftir að komið er upp úr sundlaug eða sjó. 

Þumalputtaregla:
Að bera sólarvörn á kroppinn á 2 klst. fresti og þegar komið er upp úr sjó eða vatni, burtséð frá því hversu hár stuðull sólarvarnarinnar er eða hvort hún er sögð vatnsheld eða ekki. 

Í þriðja lagi þarf að muna að sólarvarnarkrem eru alltaf notuð fyrirbyggjandi. Það þarf að setja á sig sólarvörn áður en eða um leið og farið er út í sólina en ekki bíða eftir því að húðin verði rauð. Þá hefur skaðinn þegar átt sér stað. 

Sólarvarnarstuðull (SPF) og geislar sólarinnar
Geislar sólarinnar eru þrenns konar og hafa mismunandi bylgjulengd. Þetta eru UVA, UVB og UVC geislar. Það eru UVA geislarnir sem gera húðina brúna en valda einnig ótímabærri öldrun. UVB geislarnir eru hættulegri og það eru þeir sem brenna húðina og geta verið krabbameinsvaldandi. UVC geislarnir eru hættulegastir en ósonlagið í lofthjúp jarðar síar þá frá þannig að þeir ná ekki til okkar. 

Geta sólarvarnarkrema til að hlífa húðinni við geislum sólarinnar er mæld með svokölluðum sólarvarnarstuðli eða SPF (Sun Protection Factor). Þessi stuðull segir til um hversu mikið af UVB geislum sólarinnar sólarvörnin síar frá þannig að þeir nái síður að valda húðinni skaða. Sem dæmi má nefna:

  • Sólarvörn með stuðulinn 2, síar 50% af geislum sólarinnar frá.
  • Sólarvörn með stuðulinn 4, síar 75% af geislunum frá.
  • Sólarvörn með stuðulinn 10, síar 90% af geislunum frá.
  • Sólarvörn með stuðulinn 20, síar 95% geislanna frá. 

Þessir stuðlar eru ákvarðaðir með COLIPA aðferðinni en COLIPA er stofnun sem vinnur með allt sem viðkemur snyrtivöruiðnaði innan Evrópusambandsins. Sólarvarnarkrem sem seld eru hérlendis og annars staðar í Evrópu eru því yfirleitt merkt með SPF stuðli eins og við þekkjum hann best.

Aðrar aðferðir hafa einnig verið notaðar til þess að finna út sólarvarnarstuðul og þar má sérstaklega nefna FDA aðferðina sem er t.d. notuð í Bandaríkjunum. Sólarvarnarkrem sem er prófað skv. FDA aðferðinni og hlýtur stuðulinn 8, samsvarar stuðlinum ca. 4 skv. COLIPA aðferðinni. Það er því í raun ekki hægt að bera saman stuðla sólarvarnarkrema frá mismunandi framleiðendum nema vita hvaða aðferð er notuð til þess að prófa kremin en þess er oft getið á umbúðum.

Þumalputtaregla:
Bandarísk sólarvörn er merkt með helmingi hærri stuðlum en við Evrópubúar erum vanir að nota, þ.e. sólarvörn með SPF 8 er í raun SPF 4.

Varðandi UVA geisla sólarinnar þá er verið að vinna í því að merkja sólarvarnarvörur með stuðlum sem segja til um vörn gegn þessari tegund geisla. Það tekur hins vegar tíma og það eru ekki öll fyrirtæki sem framleiða sólarvörn farin að setja upplýsingar um þetta á umbúðir. Eins tekur tíma að samræma aðferðir við að mæla UVA svo hægt sé að bera saman sólarvarnarkrem frá mismunandi framleiðendum m.t.t. varnar, bæði gegn UVA og UVB geislum. Flest sólarvarnarkrem ná að sía a.m.k. 90% af UVA geislunum frá þannig að þeir nái ekki til húðarinnar (skv. áströlskum staðli).

Sólarvörn með hversu háum stuðli ætti að nota?
Því hærri stuðull, því betri vörn. Samt sem áður er ekki mikill munur á því að nota sólarvarnarkrem með SPF 50 eða SPF 25. Í rauninni stöðvar SPF 50 aðeins 2% meira af UVB geislum en SPF 25. Fyrir flesta nægir að nota vörn með SPF 15. Börn og fólk sem fær sólarexem eða er með aðra húðsjúkdóma þurfa hærri stuðul, eða SPF 25.

Krem eða olía?
Húðin hitnar meira ef hún er smurð með olíu en hún gerir ef á hana er borið krem. Hitinn eykur líkur á bruna. Það er því ekki ráðlegt að nota sólarolíu, jafnvel þó hún sé með sólarvörn, nema húðin sé orðin nokkuð vön sólinni.

Efni sem ætti að forðast í sólvarnarkremum
Undanfarin ár hafa öðru hverju skapast umræður um skaðleg áhrif sólarvarnarkrema á heilsu manna. Hormónalík áhrif með aukinni tíðni brjóstakrabbameina og minnkuðum gæðum sáðfruma hafa verið nefnd í þessu sambandi. Talið var að efnið 4-mbc (4-methylbenzylidene camphor) sem notað var í sólarvarnir, truflaði hormónajafnvægi líkamans á einhvern hátt. Það hefur sýnt sig að þetta á ekki við rök að styðjast. Auk þess eru flestir framleiðendur hættir að nota þetta efni í kremin sín.

Önnur efni sem hafa verið skoðuð eru m.a. ethylhexyl p-methoxycinnamate (octyl methoxycinnamate) og oxybenzone (benzophenone-3). Dýratilraunir og rannsóknir sem gerðar eru í tilraunaglösum hafa sýnt merki um hormónalík áhrif þessara efna á dýr. Frekari rannsókna er þörf til þess að hægt sé að segja með einhverri vissu að efnin hafi einhver áhrif á mannfólkið.

Gagnsemi sólarvarnarkrema gegn húðkrabbameini og sólbruna er því talin mun meiri heldur en áhættan við að nota þau.

Geymsluþol sólarvarnarkrema
Sólarvarnarkrem hafa aðeins ákveðinn líftíma eða geymsluþol. Yfirleitt er hægt að miða við að kremin séu virk í ca. 30 mánuði (2 ½ ár) ef þau eru geymd rétt, nema annað sé tekið fram á umbúðum. Framleiðendur eru í auknum mæli farnir að setja fyrningardagsetningu á umbúðirnar, þ.e. upplýsingar um hvenær varan rennur út. Sólarvarnarkrem geymast best við stofuhita, varast ætti að láta sólina skína beint á umbúðirnar og passa þarf að óhreinindi komist ekki í kremið. Ef það er óvenjuleg lykt af kreminu eða það lítur ekki út eins og það á að gera, ætti ekki að nota það, jafnvel þó það sé ekki runnið út skv. dagsetningu á umbúðum.

Sjálfbrúnkukrem
Það eru til krem sem lita húðina án þess að hún komi nálægt sól, svokölluð brúnkukrem. Þessi krem innihalda díhýdroxýasetón sem bindast amínósýrum í ysta lagi húðarinnar. Þegar dauðar húðfrumur detta af dettur liturinn af í leiðinni, yfirleitt eftir 1-3 daga. Brúnkukrem koma ekki í staðinn fyrir melanín (litarefni húðarinnar) og eru ekki vörn gegn geislum sólarinnar. Ef þú notar sjálfbrúnkukrem og ætlar að vera í sólinni, þá þarftu líka að nota sólarvörn. Ófrískar konur og konur með börn á brjósti ættu ekki að nota brúnkukrem.

Skoðaðu úrvalið af sólarvörnum í netverslun Lyfju hér