Sólhattur

Náttúruvörur

  • Solhattur

Orðið sólhattur er notað hér sem samheiti yfir náttúruafurðir þriggja tegunda sólhatta. Sólhattur hefur verið notaður í margar kynslóðir við ýmsum kvillum.

Fræðiheiti
Echinacea angustifolia DC (Rudbeckia og Bruneria), en einnig tvær aðrar tegundir sömu ættkvíslar: Echinacea purpurea Moench og Echinacea pallida (Nutt.) Britton.
Ætt: Körfublómaætt Asteraceae (Compositae).

Enskt heiti
Echinacea.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er sólhattur?
Orðið sólhattur er notað hér sem samheiti yfir náttúruafurðir þeirra þriggja tegunda sólhatta sem eru tilgreindar hér í upphafi. Roðasólhatturhattur Echinacea angustifolia er af körfublómaætt og vex villtur í miðvesturhluta Bandaríkjanna. Jurtin er með þykk, mjóslegin blöð og ber stakt blóm sem þekkist á fjólubláum tungukrónum sem ganga líkt og geislar út frá keilulöguðum hvirfli. Svartur jarðstöngull plöntunnar er nýttur til lækninga. Níu (aðrar heimildir segja allt að 15) tegundir sólhatta, eins og ættkvíslin Echinacea nefnist, eru til og vaxa allar í Norður-Ameríku. Sú þeirra sem einna mest hefur verið seld sem lækningajurt er purpurasólhattur, Echinacea purpurea. 1 Ruglings hefur gætt við greiningu plöntunnar, og hefur hann meðal annars verið fólginn í því að purpurasólhatti og fölvasólhatti ( E. pallida) hefur verið ruglað saman. Afurðir sem seldar eru undir heitinu sólhattur ( Echinacea) geta því hið minnsta verið af þremur tegundum af ættkvísl sólhatta. Þessi margþætti ruglingur hefur truflað rannsóknir og notkun sólhatts síðustu áratugi og varhugavert er að styðjast við niðurstöður gamalla rannsókna af þessum sökum.

Þess má loks geta að í görðum hér hefur verið ræktað körfublóm sem hefur gengið undir nafninu sólhattur. Þessi tegund, Rudbeckia laciniata, er af ættkvísl hatta sem er náskyld sólhöttunum. (Geta má þess að Linné varð á í messunni þegar hann greindi purpurahattinn á sinni tíð og skipaði honum ranglega í ættkvísl hatta undir latneska heitinu Rudbeckia purpurea.)

Notkun
Sólhattur hefur verið notaður í margar kynslóðir við ýmsum kvillum. Frumbyggjar Norður-Ameríku þekktu sýklaeyðandi áhrif hans og báru hann á skordýrabit, sár og snákabit (einkum skröltormabit). Þeir notuðu jurtina til að lina tannverk og eymsli í gómi og sagt er að þeir hafi drukkið te úr henni gegn kvefi, hettusótt, liðagigt og ýmsum öðrum sjúkdómum. Landnemar tileinkuðu sér mörg læknisráð frumbyggjanna. Upp úr 1870 kynnti læknir frá Nebraska sólhatt sem "blóðhreinsara" (fegrunarheiti eða hispuryrði yfir kynsjúkdómalyf) og lyf sem kæmi að gagni gegn hvers kyns kvillum, svo sem mígreni, gigt, meltingartruflunum, eymslum í augum, æxlum, skröltormabit, mýraköldu og blæðingum. Jurtin var mjög í tísku næstu áratugi á eftir eða þar til öflug sýklalyf litu dagsins ljós á fjórða áratug síðustu aldar, en þá féll hún úr tísku. Hún var á skrá vestanhafs í opinberri lyfjaforskriftabók frá 1916 til 1950.

Áhugi á sólhatti jókst á ný með grasalækningabylgju áttunda áratugar síðustu aldar. Nútímagrasalæknar mæla með honum vegna þess að hann er sagður örva ónæmiskerfið og veita þannig aukið viðnám gegn kvefi og flensu, gersveppasýkingu, sýkingu í þvagblöðru o.fl. sýkingum. Sumir mæla með því að hann sé borinn á húð til að flýta gróanda sára, kýla, skurða, brunasára, sóra (psoríasis), exems og áblástra, bæði í andliti og á kynfærum. Enn aðrir mæla einkum með honum sem lyfi við meltingarkvillum. Þýskir rannsakendur greina frá árangri í meðferð við barkabólgu, hálsbólgu, heilahimnubólgu, berklum, ígerð, kíghósta, liðagigt og eyrnasýkingu.

Helstu lyfjaform
Hylki, þykktir dropar, seyði (úr grófu dufti úr jurtinni), kjarnar af ýmsu tagi, þurrkuð rót og tinktúra. Afurðir sem eru á boðstólum eru sumar unnar úr fleiri en einni tegund af ættkvísl hatta. Geyma skal jarðstöngla í heilu lagi og kjarna í lausn. 2

Til að nýta eiginleika jurtarinnar til hins ýtrasta er mikilvægt að verða sér úti um vöru í hæsta gæðaflokki og kaupa hana hjá áreiðanlegum framleiðanda. Á árum áður var algengt að drýgja sólhatt með öðrum efnum, en slík vörusvik ættu að heyra sögunni til. Óráðlegt er að nota jarðstöngul sólhatts ef stöngullinn er orðin lyktarlaus.

Algeng skammtastærð
Jurtin er tekin inn þrisvar á dag sem seyði gert úr tveimur teskeiðum af efni úr jarðstönglinum og bolla af vatni. Einn eða tveir fullir dropateljarar af tinktúru eða þykktum dropum eru teknir eða 300-400 millígrömm af föstum kjarna. Tvö eða þrjú 455 millígramma hylki með efni úr jarðstönglinum eru tekin tvisvar til þrisvar sinnum á dag eða tvö 125 millígramma hylki með kjarna af jarðstönglinum sem inniheldur 3,2-4,8 % ekínakósíð tekin tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Þegar sólhattur hefur verið tekinn í sex til átta vikur er oft mælt með því að gera hlé í eina til fjórar vikur til þess að hvíla ónæmiskerfið.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á sólhatti á undanförnum árum og margvíslegar fullyrðingar hafa verið gefnar. Nokkur tími mun því sennilega líða áður en öll kurl verða komin til grafar og hið sanna kemur í ljós. Margir sérfræðingar benda á að frekari rannsóknir á mönnum séu nauðsynlegar áður en hægt er að mæla með jurtinni svo að öruggt megi teljast. Á árum áður voru gjarnan notaðar við rannsóknir afurðir sólhatta ( Echinacea) sem voru ekki hreinar eða hreinlega sviknar eða þá ranglega greindar sem gerir það að verkum að erfitt er að draga öruggar ályktanir af niðurstöðum þeirra nú. Ekki hefur tekist að greina neitt tiltekið virkt innihaldsefni í sólhatti sem gæti skýrt læknandi áhrif hans. 3 Menn eru ekki á eitt sáttir um verkun sólhatts þegar hann er tekinn inn.

Í flestum rannsóknum sem hafa verið gerðar á mönnum hingað til hafa þær aðeins náð til lítils hóps manna og þær hafa hvorki verið vel hannaðar né skipulagðar. Þær byggðust með öðrum orðum hvorki á slembiúrtaki né voru þær lyfleysustýrðar eða tvíblindar. Í flestum rannsóknum var notaður safi unninn úr ofanjarðarhlutum plöntunnar, og seldur var undir heitinu "Echinacin", eða jurtablanda seld undir heitinu "Esberitox". 4 Þýskar rannsóknir hafa flestar notast við lyfjablöndur sem er sprautað í líkamann og óheimilt er að selja í Bandaríkjunum og víðar. Árið 1994 var farið yfir allar tilraunir sem höfðu verið gerðar á mönnum fram að þeim tíma. Þar kom fram að af 26 lyfleysustýrðu rannsóknum voru aðeins sex þar sem notaður var kjarni (extrakt) af sólhatti eingöngu, þannig að ekki var ljóst hver af áhrifum lyfsins ætti að rekja til sólhatts. Að sumum þessara rannsókna var illa staðið. 5

Þrátt fyrir þessa annmarka hafa niðurstöður bæði úr glasa- og dýratilraunum sýnt fram á lyfjafræðilega virkni safa, sem hefur verið kreistur úr ofanjarðarhluta purpurasólhatts ( E. purpurea), og alkóhólkjarna úr rótum þeirra þriggja sólhattategunda sem fyrr var getið. 6 Glasatilraunir gefa til kynna að efni plöntunnar í vatns- og alkóhóllausn hafi veirueyðandi áhrif, til að mynda gegn inflúensu- og herpessýkingu. 7 Í þessum tilraunum reyndust frumur, sem vættar höfðu verið í lyfjablöndu úr sólhatti, verjast þessum sýkingum betur en þær sem höfðu ekki verið vættar. Frekari rannsókna er þörf svo að komast megi að því hvort sólhattur hafi sömu áhrif á skyldar sýkingar í mönnum. Ekki hefur verið sýnt fram á að sólhattur drepi bakteríur, en ýmis innihaldsefni plöntunnar sem hafa enn ekki verið greind virðast efla varnir ónæmiskerfis líkamans gegn tilteknum sýklum. Sólhattur virðist auka mátt ýmissa gerða hvítfrumna sem ráðast gegn sýklum, svo sem stórætna (phagocytes), alhliða drápsfrumna og T-eitilfrumna. Einnig örvar hann frumuát hvítfrumna. Niðurstöður hafa ekki allar verið á einn veg, þar sem sumar dýratilraunir sýna fram á að sólhattskjarni örvi frumuát 8 en aðrar tilraunir sýna engin slík áhrif. 9 Plantan virðist ennfremur örva myndun ýmissa annarra starfsþátta ónæmiskerfis, m.a. flokk bólgumiðlara (TNF) og trufla, öðru nafni interferón.

Þessir eiginleikar plöntunnar, og e.t.v. fleiri, koma við sögu þegar hún er notuð til að fyrirbyggja eða vinna bug á kvefi, hálsbólgu eða skyldum kvillum. Í einni rannsókn fengust jákvæðar niðurstöður þegar 180 dropar af tinktúru úr purpurasólhatti voru gefnir daglega til að vinna gegn einkennum sýkingar í efri hluta öndunarvegar. Ef skammturinn var minni, t.d. 90 dropar á dag, var árangur af inntöku sólhatts ekki meiri en lyfleysu. 10 Þýsk heilbrigðisyfirvöld mæla með lyfjablöndu úr ferskum ofanjarðarhlutum purpurasólhatts og rót fölvasólhatts (ásamt öðrum efnum) gegn þrálátri sýkingu í öndunarfærum og þvagrás. Það er eftirtektarvert að sólhattur virðist kannski gefa besta raun þegar hann er notaður hóflega. Niðurstöður einnar rannsóknar sýndu að einfaldur skammtur af sólhatti örvaði ónæmiskerfi manna, en ef fleiri skammtar voru teknir inn í nokkra daga virtist það hins vegar verka bælandi á kerfið. 11

Rannsóknaniðurstöður hafa einnig staðfest græðandi áhrif sólhatts á áverka á húð, til dæmis þegar um er að ræða sár sem gróa illa, áblástra og sóra (soríasis). Fjölsykrukjarninn ekinasín virðist búa yfir þessum græðandi mætti. 12 Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkja notkun lyfjablandna úr purpurasólhatti í þessum tilgangi.

Í rannsókn sem var gerð 1992 á fimmtán einstaklingum með langt gengið krabbamein í ristli og endaþarmi kom í ljós að ónæmisörvandi efni, þ.m.t. sólhattskjarni (einkum ekinasín), virtust auka lífslíkur sjúklinganna og þeir þoldu lyfjablöndurnar vel. 13 Svipaðar niðurstöður fengust við rannsókn á einstaklingum sem voru haldnir langt gengnu lifrarkrabbameini. 14

Þrátt fyrir að niðurstöður rannsókna hafi sýnt fram á að sólhattur örvi ónæmiskerfið skortir enn marktæk gögn sem renna stoðum undir yfirlýsingar um að hann vinni gegn krabbameini, alnæmi og ýmsum öðrum sjúkdómum. 15 Enn er of snemmt að kveða upp úr um það hvort krabbameinsbælandi áhrif, sem vart hefur orðið fáeinum sinnum í tengslum við æxli í dýrum, 16 eigi eftir að hafa þýðingu fyrir menn.

Klínískar rannsóknir í Þýskalandi gefa til kynna að sólhattur lofi góðu sem meðferð við gersveppasýkingum og liðagigt. Þeir sem þjást af öðrum hvorum þessara sjúkdóma ættu að tjá lækninum áhuga sinn á að reyna hvort sólhattur geti komið þeim að gagni í stað hefðbundinnar lyfjameðferðar.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Engar umtalsverðar aukaverkanir hafa verið tengdar notkun sólhatts, en gera þarf ítarlegar klínískar prófanir til þess að kanna hugsanlegar eiturverkanir hans. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur haft sólhatt á skrá sinni yfir "jurtir með óskilgreindu öryggi". Þýsk heilbrigðisyfirvöld mæla með því að enginn noti sólhatt, hvorki inn- né útvortis, lengur en átta vikur í senn. 17 Samkvæmt þessum yfirvöldum og nokkrum plöntusérfræðingum ættu þeir sem haldnir eru sjúkdómi sem nær til alls líkamans, eins og mýlisskaða (MS-sjúkdómi), berklum, alnæmi, bandvefssjúkdómi í æðakerfi eða öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum, ekki að nota sólhatt. 18 Fræðilega gæti sólhattur truflað ónæmisbælandi meðferð og því er mikilvægt að hafa samráð við lækni áður en farið er að blanda saman lyfjum. 19

Sólhattur getur valdið ofnæmisviðbrögðum hjá sumum, einkum þeim sem eru með ofnæmi gegn öðrum plöntum af körfublómaætt, t.d. ódáinsjurt ( Ambrosia psilostachya), en það er þó ekki algengt. Sumir verða varir við sérkennilega stingandi tilfinningu í tungunni, en hún boðar enga hættu.

Í sumum heimildum er dregið í efa að skynsamlegt sé að taka sólhatt í ljósi þess að hann virðist örva flokk bólgumiðlara (tumor necrosis factor) og einnig örvar hann trufla (interferón) 20 sem gegnir víðtæku hlutverki í ónæmiskerfinu, sem er þó ekki að fullu ljóst.

Sólhattur á Íslandi
Að sögn Hólmfríðar Sigurðardóttur, höfundar Íslensku garðblómabókarinnar, hefur ein þeirra tegunda sem nefndar voru í upphafi, purpurasólhattur ( E. purpurea), verið reyndur hér og þrifist, en hann blómgast treglega hérlendis þar eð sumur eru helst til of stutt og köld fyrir hann. Sólhöttunum er enda mörgum eiginlegt að blómstra síðsumars í heimahögum sínum í Norður-Ameríku.

Meginheimildir
Bauer, R. "Echinacea Drugs - Effects and Active Ingredients. Review." Zeitschrift für Arztliche Fortbildung. 90(2) (1996):111-115. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, vol. 1. Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Foster, S. Forest Pharmacy: Medicinal Plants in American Forests. Durham, NC: Forest History Society, 1995. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1995. Murray, M.T. The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endursk. 2. útg. Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995. Newall, C.A., et al. Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993.

Tilvísanir
1. V.E. Tyler, The Honest Herbal (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993). 2. P.C. Bradley, ritstj., British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, Vol. 1 (Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. 3. Lawrence Review of Natural Products (St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1995. 4. Bradley, sama heimild. 5. D. Melchart et al, Phytomedicine, 1 (1994): 245-54. 6. R. Bauer, Zeitschrift für Arztliche Fortbildung. 90(2) (1996):111-115. 7. A. Wacker og W. Hilbig, Planta Medica, 33 (1978): 89-102. 8. R. Bauer et al., Arzneimittel-Forschung, 38 (1988): 276-281. 9. Bradley, sama heimild. A. Schumacher og K.D. Friedberg, Arzneimittel-Forschung, 41(1991): 141-147. 10. Melchart, sama heimild. 11. E.G. Coeugniet og E. Elek, Onkologie, 10 (Suppl 3) (1987): 27-33. 12. K. Busing, Arzneimittel-Forschung, 2 (1952):467-469. 13. C. Lersch et al., Cancer Investigation, 10 (5) (1992): 343-348. 14. C. Lersch et al., Archiv für Geschwulstforschung, 60 (5) (1990): 379-383. 15. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 16. D.J. Voaden og M. Jacobson, Journal of Medical Chemistry, 15 (1972): 619-623. 17. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. 18. Tyler, sama heimild. Blumenthal et al., sama heimild. 19.Bradley, sama heimild. 20. Ibid.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.