Astmi hjá ungbörnum

Einkenni koma oft í ljós í kjölfar kvefs

Astmi

Astmalík einkenni koma oft í ljós hjá börnum á fyrstu þremur árum ævinnar. Öndunarfæraeinkenni eru afar algeng orsök þess að leitað er til lækna með ungbörn.

Astmalík einkenni koma oft í ljós hjá börnum á fyrstu þremur árum ævinnar. Öndunarfæraeinkenni eru afar algeng orsök þess að leitað er til lækna með ungbörn. Oft er þetta kallaður astmatískur bronkítis, berkjukvef eða bara astmi, en sannleikurinn er sá, að erfitt er að greina sjúkdóminn nákvæmlega hjá svo ungum börnum. Endurtekin einkenni auka líkur á staðfestri greiningu astma hjá börnum.
Mörg börn "vaxa upp úr" smábarnaastma. Flest ungbörn fá einungis væg einkenni, en allt að þriðjungur þeirra barna sem fá ítrekuð tilfelli af astmatískum bronkítis á fyrsta aldursári greinast síðar með astma. 

Astmi í ungabörnum lýsir sér sem öndunarerfiðleikar með hósta og öndunarhljóðum s.s. surgi eða pípi. Ástæðan er sú að litlar berkjurnar dragast saman, það er bólga í slímhúðinni og í þær safnast slím. Einkenni koma oft í ljós í kjölfar kvefs eða annarra veirusýkinga í öndunarfærum og oft er erfitt að greina þarna á milli. Hafðu samband við lækninn ef þér finnst kvef barnsins vera lengi að batna eða ef barnið er með erfiðan næturhósta í langan tíma eftir kvefpestir.  

Fái barnið ítrekuð, erfið tilfelli slíks berkjukvefs eða bronkítis dregur það úr þrótti barnsins, það hóstar eða á erfitt með andardrátt við leik eða erfiði. Sem fyrr er það næturhósti, einkum þurr og langvarandi, sem getur verið vísbending um að leita beri til læknis til rannsóknar og/eða meðhöndlunar.

Lyfjameðferð ungbarna
Börn með astma eða astmatískan bronkítis eru oft meðhöndluð með berkjuvíkkandi lyfjum s.s. Ventolin eða Bricanyl. Þessi lyf er hægt að gefa í töflu- eða mixtúruformi, en betra er að gefa þessi lyf til innöndunar, því þá berst lyfið betur til lungna og virkar eingöngu þar. Slík skammvirk, berkjuvíkkandi lyf ber að nota eftir þörfum en ekki í föstum skömmtum.  

Ef um erfiðari sjúkdóm eða viðvarandi einkenni er að ræða og berkjuvíkkandi lyfin eru notuð oftar en þrisvar í viku, er stundum þörf á því að gefa innandaða, fyrirbyggjandi og bólgueyðandi lyfjameðferð. Slík lyf eru t.d. Flixotide eða Pulmicort. Bæði berkjuvíkkandi lyf og bólgueyðandi lyf er hægt að fá sem þrýstingsúða (spray) eða sem þurrduft til innöndunar.

Börn yngri en fimm ára eiga oft erfitt með að nota tæki til innöndunar á þurru dufti. Til þess að yngri börn geti notað innúðalyfin þarf oft að nota sérstök hjálpartæki s.s. úðabelgi einsog Babyhaler. Tækið er belgur með grímu á endanum. Gríman fellur yfir munn og nef barnsins, skammtur af lyfi úr þrýstingsúða er gefinn inn í belginn og barnið andar síðan að sér í nokkrar sekúndur. Fái barnið þitt lyf til meðhöndlunar á astma skalt þú fá lækni, hjúkrunarfræðing, lyfjafræðing eða starfsfólk lyfjabúða til að sýna þér nákvæmlega hvernig nota skuli lyfið. Rétt notkun tryggir góðan árangur.

Börn með astma eða astmatískan bronkítis hafa ekkert gagn af hóstastillandi lyfjum og slík lyf geta hindrað að þau hósti upp því slími sem í berkjunum er. Þá er sjaldan rétt að nota sýklalyf því astmaeinkennin koma í kjölfar veirusýkinga en ekki bakteríusýkinga. Sýklalyf gera ekkert gagn gegn veirusýkingum.

Efni fengið af Astma og Ófnæmsvef Glaxo SmithKline