Blöðruhálskirtils-krabbamein

Krabbamein

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein í karlmönnum á vesturlöndum.

Faraldsfræði
Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli eykst með auknum aldri. Svertingjar eru tvöfalt líklegri til að fá sjúkdóminn en hvítir. Talið er að ævilíkur hvítra karlmanna á vesturlöndum á að fá blöðruhálskirtilskrabbamein séu um 8%. Vitað er að líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini aukast því fjær miðbaug sem menn búa. Þannig er algengi sjúkdómsins á Norðurlöndum um 22 tilfelli á hverja 100.000 íbúa, en ekki nema 7 tilfelli á hverja 100.000 íbúa nær miðbaug í Asíu.

Áhættuþættir
Auk aldurs og svarts hörundslitar hefur áhætta á blöðruhálskirtilskrabbameini verið tengd fjölskyldusögu. Þó svo að aukin hlutdeild fitu í fæðu, ófrjósemisaðgerðir og kynsjúkdómar séu stundum taldir til áhættuþátta blöðruhálskirtilskrabbameins eru tengsl þar á milli algerlega ósönnuð.

Einkenni
Staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli veldur oft litlum sem engum einkennum. Þegar æxlið hefur náð tiltekinni stærð eru fyrstu einkenni oft þvagtregða. Einstöku sinnum ber á blóði í þvagi, sviða við þvaglát og jafnvel þvagfærasýkingu.

Hafi krabbameinið sáð sér til staðbundinna eitlastöðva í grindarholi eru fyrstu einkenni um sjúkdóminn oft bjúgur á ganglimum. Blöðruhálskirtilskrabbamein er vel þekkt fyrir að sá sér til beina og veldur því oft beinverkjum.

Skimun og sjúkdómsgreining
Auðvelt er að þreifa blöðruhálskirtilinn um endaþarm. Það er fljótleg skoðun og áhættulítil. Hinsvegar er hún óþægileg. Mæla má ákveðið efni í blóði, svokallað PSA (Prostate Specific Antigen), og er gildi þess hjálplegt við að fylgja eftir sjúkdómsgangi í blöðruhálskirtilskrabbameini. Mælt er með að karlmenn sem náð hafa fimmtugu fari árlega í blöðruhálskirtilsþreifingu og PSA-mælingu. Karlmenn sem taldir eru vera í aukinni áhættu á að fá krabbamein í blöðruhálskirtil ættu e.t.v. að hefja þess skimun fyrr, eða uppúr fertugu.

Vakni grunur um krabbamein í blöðruhálskirtli er greiningin staðfest með sýnatöku úr kirtlinum, oft með hjálp ómunar. Þetta er gert í staðdeyfingu og hefur bæði sýkingar- og blæðingarhættu í för með sér.

Meinafræði
Flest krabbamein í blöðruhálskirtli eru af svokallaðri kirtilgerð. Séu þessi krabbamein látin óáreytt, vaxa þau staðbundið í kirtlinum og til nærliggjandi líffæra, s.s. þvagblöðru og þvagrásar. Einnig sá þau sér um sogæðar til eitlastöðva í grindarholi og þaðan til fjarlægari líffæra. Algengast er að meinvörp finnist í beinum. Sjaldgæfara er að finna meinvörp í lifur eða lungum.

Stigun, meðferð og horfur
Meðferð á krabbameini í blöðruhálskirtli og horfur ráðast mjög af stigi sjúkdómsins. Þannig má oft lækna staðbundið mein sem ekki hefur sáð sér. Hafi sjúkdómurinn myndað fjarmeinvörp beinist meðferð gjarnan að því að hægja á sjúkdómnum og meðhöndla hliðarverkanir, svo sem verki vegna meinvarpa í beinum.

Geislameðferð og eða skurðaðgerð gagnast gjarnan vel við staðbundnu blöðruhálskirtilmeini. Þvagleki er langvarandi aukaverkun af þessum meðferðum í um 5 % tilvika. Getuleysi er alvarlegur og algengur fylgikvilli þessara aðgerða. Í sumum tilvikum getur lyfjameðferð með sildenafil og öðrum lyfjum komið að gagni við slíkar kringumstæður.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er oftar en ekki afar næmt fyrir karlhormónum – testósteróni. Vitað er að verulega má hamla og hægja á vexti þessara krabbameinsfrumna með því að hindra framleiðslu testósteróns og/eða hindra áhrif þess á krabbameinsfrumurnar sjálfar. Þetta er gjarnan gert með því að fjarlægja kynkirtlana, eistun. Einnig eru til lyf sem hindra framleiðslu testósteróns í eistum og nýrnahettum, sem og lyf sem hamla vaxtarhvetjandi verkun testósteróns á blöðruhálskirtilskrabbameinsfrumur. Þessi lyf koma oft að góðu gagni í meðferð á krabbameini sem hefur sáð sér og myndað fjarmeinvörp.

Loks eru ýmis krabbameinslyf notuð við meðferð á blöðruhálskirtilskrabbameini. Til þessara lyfja er gjarnan gripið ef hormónameðferð skilar ekki tilætluðum árangri.

Bráðatilvik

Vegna sækni blöðruhálskirtilskrabbameins í bein, getur sjúkdómurinn valdið bráðum einkennum sem geta valdið miklum óþægindum og skaða nema rétt sé við þeim brugðist og tímanlega. Eitt þessara einkenna er vegna mænuþrýstings. Krabbameinsæxli sem vex í hryggsúlu getur valdið þrýstingi á mænu og mænuskaða ef ekkert er að gert. Einkenni þessa eru gjarnan verkur í baki og einkenni um taugaskaða geta fylgt, svo sem þvag- og hægðaleki eða tregða, dofi í fótum og máttleysi. Áríðandi er að sjúklingar með þessi einkenni leiti læknis sem fyrst og fái viðeigandi meðferð. Sem dæmi má nefna að aðeins eru um 10 % líkur á að lömun í fótum gangi til baka við meðferð sé hún tilorðin vegna mænuþrýstings.

Sigurður Böðvarsson, læknir.