Eistnakrabbamein

Krabbamein

Eistnakrabbamein er algengasta illkynja mein í ungum karlmönnum.

  Faraldsfræði
Um 7,400 ný tilfelli voru greind i Bandaríkjunum árið 2000. Tíðni þessa krabbameins hefur farið vaxandi undanfarna áratugi. Ástæður þessarar aukningar eru óþekktar. 

Karlmenn geta fengið krabbamein í eistu á hvaða aldri sem er. Hinsvegar er algengast að þeir greinist með sjúkdóminn á aldursskeiðinu 15-35 ára. Einnig er ekki óalgengt að menn greinist á sjötugsaldri.

Einhverra hluta vegna er tíðni þessa sjúkdóms hærri í Danmörku en öðrum löndum. Lægst er tíðnin í Austurlöndum.

Kynfrumuæxli geta vaxið víðar en í eistum. Þó svo að 90% þessara æxla vaxi frá kynfrumum í eistum, eru um 10% þeirra í kviðarholi, miðmæti (svæðið milli lungnanna) og heila. Þessi dreifing er tilkomin vegna þróunar á fósturskeiði.

Áhættuþættir
Fyrri saga um eistnakrabbamein er áhættuþáttur. Cryptorchidism (þegar eista gengur ekki niður í pung) veldur 20-40 faldri aukningu á áhættu. Klinefelter heilkenni (47XXY), þ.e. karlmenn með auka kvenlitining, hefur sérstaklega verið tengt kynfrumuæxlum í miðmæti. Einnig hafa sjúklingar með Down´s heilkenni aukna áhættu. Líklega er fjölskyldusaga áhættuþáttur.

Einkenni
Fyrirferð í eista er algeng kvörtun. Yfirleitt verkjalaus, en stundum þyngslatilfinning. Hafi meinið sáð sér geta menn haft einkenni frá meinvörðum, s.s. bakverk, kviðverki, hægðatregðu, brjóstastækkun, mæði, hósta, brjóstverk. Meinvörp í miðtaugakerfi geta valdið miðtaugakerfiseinkennum.

Skimum & sjúkdómsgreining
Reglubundin skimun hefur ekki sannað gildi sitt. Vakni grunur um fyrirferð í eista er næsta skref yfirleitt ómskoðun. Í kjölfarið fylgir yfirleitt brottnám á eista sé grunur um fyrirferð staðfestur. Ekki er ráðlagt að gera fínnálarástungu, því oftar en ekki getur það orðið til að sá meininu. Ýmis blóðpróf eru notuð til að fylgja eftir meðferð, svo sem B-HCG og AFP.

Stigun
Stigin eru 3, allt eftir útbreiðslu sjúkdómsins. Almennt talað er stig I bundið við krabbamein í eista, stig II við eitla í kviðarholi og stig III við fjarmeinvörp í lifur, lungum, beinum og víðar. Meðferð ræðst af stigi og vefjagreiningu æxlisins.

Meinafræði
Almennt séð eru eistnakrabbamein flokkuð í svokölluð seminoma æxli og non-seminoma.

Meðferð

Skurðaðgerð er beitt til að nema brott viðkomandi eista. Síðan er beitt geisla og/eða lyfjameðferð eftir útbreiðslu sjúkdómsins.
Lyfjameðferð á eistnakrabbameini hefur reynst ákaflega vel. Í heildina séð læknast yfir 90% sjúklinga, jafnvel þótt þeir séu með fjarmeinvörp við sjúkdómsgreiningu.

Sigurður Böðvarsson, læknir.