Geðklofi

Geðheilsa

  • Gedklofi

Geðklofi (schizophrenia) er oft langvinnur og hamlandi sjúkdómur í heila sem hrjáir um einn af hverjum hundrað manns einhvern tíma á ævinni.

Hvað er geðklofi?
Geðklofi er jafn tíður hjá konum og körlum, en kemur þó að jafnaði fyrr fram hjá körlum, venjulega seint á táningsaldri eða snemma á tvítugsaldri. Hjá konum koma einkennin venjulega fram nokkrum árum seinna. Sumir sem þjáist af geðklofa heyra oft raddir sem aðrir heyra ekki og trúa því gjarnan að aðrir geti lesið eða stjórnað hugsunum þeirra og séu þeim fjandsamlegir. Einkenni sem þessi leiða oft til fælni og félagslegrar einangrunar. Tal og atferli getur orðið svo ruglingslegt að erfitt er að skilja viðkomandi og annað fólk hræðist hann jafnvel. Þótt meðferð geti dregið úr einkennum bera flestir geðklofasjúklingar einhver einkenni sjúkdómsins alla ævi en þó er talið að allt að einn af hverjum fimm geti náð fullum bata.

Geðklofasjúklingar og fjölskyldur þeirra hafa þó tilefni til nokkurrar bjartsýni. Rannsóknir (allt frá faraldsfræðilegum rannsóknum til sameindaerfðafræði rannsókna) varpa sífellt betra ljósi á margslungnar orsakir geðklofa og aðferðir til að draga upp myndir af byggingu og starfsemi heilans gefa fyrirheit um að dýpri skilning manna á sjúkdómnum. Að sama skapi verður lyfjameðferð markvissari og hefur færri aukaverkanir í för með sér.

Geðklofi sem sjúkdómur
Geðklofi fyrirfinnst hjá öllum þjóðum. Alvarleg sjúkdómseinkenni og langvarandi, þrálátt mynstur geðklofa veldur oft alvarlegri fötlun, en lyf og önnur meðferðarúrræði draga úr einkennum hans eða halda þeim í skefjum í flestum tilfellum. Sú meðferð sem er í boði gagnast þó ekki öllum og ekki er óalgengt að henni sé hætt of snemma vegna óþægilegra aukaverkana eða annarra vandamála. Þótt unnt sé að halda einkennum í skefjum hefur sjúkdómurinn afar truflandi afleiðingar á vinnu eða nám, veldur vináttu- og ættingjaslitum, félagslegri einangrun, auk þess sem aukaverkanir lyfja reynast oft sjúklingnum kvöl og pína.

Fyrstu merki geðklofa eru breytingar á hegðun sem kemur fram í kvíða og þunglyndi. Bráðafasinn (acute phase of schizophrenia) byrjar þegar geðrofseinkenni koma skyndilega fram og eru mjög áberandi í sjúkdómsmyndinni. Geðrof (psychosis) er ástand sem einkennist af ofskynjunum og/eða ranghugmyndum og stafar af skertum raunveruleikatengslum. Önnur einkenni fara oft saman með geðrofi eða fylgja í kjölfarið, til dæmis félagsleg einangrun eða hlédrægni, hugsanatruflanir sem sjást á ruglingslegu tali og undarlegu látbragði.

Sumir veikjast einungis einu sinni af geðrofi og jafna sig að fullu, aðrir geta fengið nokkur ,,köst" yfir ævina en lifa eðlilegu lífi þess á milli. Í öðrum tilfellum er sjúkdómurinn hins vegar afar þrálátur, einkennin blossa sífellt upp og sjúkdómshlé eru stutt. Þá er talað um varanlegan eða langvinnan geðklofa. Einstaklingar með langvinnan geðklofa jafna sig venjulega ekki að fullu í sjúkdómshléum og líf þeirra kemst aldrei í eðlilegar skorður. Yfirleitt þarfnast þeir lyfjameðferðar og annars stuðnings til langframa til að hafa hemil á sjúkdómnum.

Greining geðklofa
Dæmigerð einkenni fyrir geðklofa geta komið fyrir í öðrum sjúkdómum, jafnt á geði sem líkamlega. Afar mikilvægt er að sjúkrasaga viðkomandi sé skoðuð nákvæmlega og ítarleg læknisskoðun fari fram áður en hann er greindur með geðklofa. Sum lyf og fíkniefni orsaka svipuð einkenni geðklofa og þvag- og blóðsýni eru því gjarnan rannsökuð.

Stundum getur verið erfitt að greina milli mismunandi geðraskana. Geðklofaeinkenni koma til dæmis fram samfara miklum geðsveiflum og þá er gengið úr skugga um hvort um væri að ræða geðklofa eða geðhvarfaröskun (bipolar disorder), sjúkdómi sem einkennist af sveiflum milli örlyndis og depurðar. Þegar ekki er hægt að flokka einkennin undir annað hvort flokk er talað um "geðhvarfaklofa" (schizoaffective disorder).

Geta börn þjáðst af geðklofa?
Börn geta þjáðst af geðklofa frá fimm ára aldri en það er afar sjaldgæft að sjúkdómurinn birtist svo snemma. Börn sem síðar greinast með geðklofa kunna að hafa virst frábrugðin öðrum börnum frá unga aldri en geðrofseinkenni, svo sem ofskynjanir og ranghugmyndir, koma nánast aldrei fram fyrr en á unglingsárum.

Brengluð raunveruleikatengsl
Geðklofasjúklingar skynja veruleikann á allt annan hátt en aðrir, ofskynjanir þeirra og ranghugmyndir gera þá oft kvíðna, hrædda og ringlaða. Trufluð raunveruleikatengsl valda sundurlausri og óskipulegri hegðun og einkennir stundum líf geðklofasjúklinga. Á stundum geta þeir virst fjarlægir, fáskiptir og annars hugar. Þeir eiga jafnvel til með að sitja stjarfir klukkustundum saman án þess svo mikið sem depla auga eða segja eitt aukatekið orð. Þess á milli eru þeir á stöðugu iði, eru órólegir með óskipta athygli og einbeitingu.

Ofskynjanir og skynvillur
Skynjunartruflanir eru algengar hjá geðklofasjúklingum. Ofskynjanir geta tengst öllum skynfærunum og koma fram sem truflanir á heyrnar-, sjón-, snerti-, bragð- og lyktarskyni. Heyrnarofskynjanir fylgja langoftast geðklofa. Fólk heyrir raddir sem skipa því fyrir, lýsa atferli þess eða vara það við hættu og sjúklingurinn er jafnvel í hrókasamræðum við ímyndaðan. Skynvillur, öfugt við ofskynjanir, eru rangtúlkanir eða bjögun á raunverulegu skynáreiti, til dæmis að sjá spagettí sem maðka.

Ranghugmyndir
Ranghugmyndir (stundum nefndar haldvillur) eru hugmyndir eða skoðanir sem sjúklingurinn er sannfærður um að séu réttar, óháð öllum andstæðum röksemdum og staðreyndum og langt í frá að vera í samræmi við menntun eða menningarlegan bakgrunn. Ranghugmyndir eru með ákveðin þemu eða viðfangsefni. Ofsóknarranghugmyndir (paranoid delusions), sem um þriðjungur geðklofasjúklinga fá, eru ranghugmyndir um fjandsemi eða samsæri. Sjúklingar með ofsóknarranghugmyndir geta til að mynda verið sannfærðir um að verið sé að svindla á þeim, ofsækja þá, eitra fyrir þeim eða brugga þeim önnur launráð. Stundum telja þeir einnig að ofsóknirnar beinist að nánum ættingjum eða vinum. Mikilmennskuranghugmyndir (delusion of grandeur) er önnur gerð ranghugmynda og nokkuð algeng hjá geðklofasjúklingum. Þá eru þeir sannfærðir um að þeir séu afar frægir eða mikilvægir einstaklingar. Ranghugmyndirnar taka oft á sig sérkennilegar myndir: að nágrannarnir stjórni hegðun þeirra með segulbylgjum eða geislum, að fólk í sjónvarpinu sé að reyna að koma skilaboðum til þeirra, að hugsunum þeirra sé útvarpað til annarra o.s.frv.

Misnotkun á lyfjum og fíkniefnum
Lyfjamisnotkun er tíður fylgifiskur geðklofa og oft áhygjuefni annarra í fjölskyldunni og hjá vinum. Flókið samspil er á milli lyfja- og fíkniefnamisnotkunar og geðsjúkdóma. Ofnotkun þessi veldur oft einkennum sem svipar mjög til geðklofa og stundum eru sjúklingar með geðklofa álitnir vera í ,,lyfjarússi". Auðvitað geta geðklofasjúklingar misnotað áfengi og önnur lyf og vímuáhrifin af sumum lyfjum þeirra eru stundum ýktari eða meiri en hjá öðrum einstaklingum. Almennt er talið ólíklegt að lyf eða vímuefnaneysla ein og sér geti orsakað geðklofa, þrátt fyrir að sumum einkennum geðklofa svipi til einkenna lyfjamisnotkunar. Fíkniefni geta hins vegar skapað meiri vandamál hjá geðklofasjúklingum, truflað meðferð og hamlað bata. Örvandi lyf (t.d. amfetamín og kókaín) og róandi lyf (t.d.maríjúana) koma því til leiðar að geðklofaeinkenni færist í aukana og um leið minnkað líkurnar á því að meðferðaráætlun sé fylgt eftir.

Geðklofi og nikótínfíkn
Nikótínfíkn er um þrisvar sinnum algengari meðal geðklofasjúklinga en annarra og rannsóknir hafa leitt í ljós flókið samband milli reykinga og geðklofa. Þeir sem hafa geðklofa reykja gjarnan til að létta á geðklofaeinkennum en í raun draga reykingar úr áhrifum geðlyfja. Endurtekið hefur verið sýnt að geðklofasjúklingar sem reykja þurfa stærri lyfjaskammt en þeir sem ekki reykja. Geðklofasjúklingum getur einnig reynst sérstaklega erfitt að hætta að reykja því oft veldur það því að einkennin versna tímabundið. Þó getur reynst nokkuð áhrifaríkt að draga smám saman úr reykingum með aðstoð annarra nikótíngjafa í stað þess að hætta skyndilega. Læknar og aðstandendur ættu að fylgjast náið með lyfjaskömmtum og viðbrögðum sjúklings þegar hann annað hvort byrjar eða hættir að reykja.

Truflun á hugsun
Hugsun sumra geðklofasjúklinga er oft á tíðum brotakennd og óskipuleg. Þeir eiga erfitt með að hugsa rökrétt, geta ekki staldrað lengi við eina hugmynd í einu og vaða samhengislaust úr einu efni í annað. Þetta er mest áberandi í bráðafasanum. Geðklofasjúklingar átta sig illa á því hvaða upplýsingar skipta máli hverju sinni, og eiga erfitt með að setja fram hugmyndir á rökréttan og skipulegan hátt. Þetta er kallað ,,hugsanatruflanir" hjá sjúklingunum og gerir það að verkum að erfitt er að halda uppi samræðum við þá og einangrar þá enn frekar.

Tilfinningalíf
Geðklofa fylgja truflanir á tilfinningalífi. Öll tilfinningaviðbrögð slævast, andlit verður svipbrigðalaust og geðhrif (eða hvernig við tjáum tilfinningar okkar með svipbrigðum og atferli) og allt látbragð verður flatneskjan ein. Sjúklingurinn dregur sig í hlé og forðast umgengni við annað fólk. Þegar hann neyðist til að hafa samskipti við aðra er hann fáskiptinn og hefur lítið til málanna að leggja. Áhugi á flestu minnkar og lífið verður fábrotið. Í alvarlegum tilfellum geta heilu dagarnir liðið án þess að hann aðhafist nokkuð, vanrækir jafnvel líkamshirðu og hreinlæti. Doði eins og hér er lýst fær átakanlega mikið á fjölskyldu hans og vini sem muna eftir því hvernig hann var áður en hann veiktist. Áhersla skal lögð á það að tilfinningadeyfð hjá geðklofasjúklingnum er sjúkdómseinkenni, alls ekki veiklyndi eða persónuleikagalli.

Eru geðklofasjúklingar ofbeldishneigðir?
Í fjölmiðlum og bíómyndum er sterk tilhneiging til að tengja geðklofa við ofbeldisglæpi. Rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt fram á að geðklofasjúklingar séu að jafnaði ofbeldishneigðari en annað fólk. Þvert á móti er fólk sem þjáist af geðklofa venjulega hlédrægt og fáskiptið. Það má vissulega finna ýmis dæmi um ofbeldisfulla geðklofasjúklinga en ekkert augljóst samband er milli ofbeldishneigðar og geðklofa. Sé geðklofassjúklingur ofbeldishneigður hefur hún verið til staðar fyrir veikindi eða er tilkomin fyrir tilstilli lyfjamisnotkunar. Lyfjamisnotkun eykur líkur á ofbeldi hjá geðklofasjúklingum, sérstaklega ef um er að ræða ofsóknargeðklofa, en hið sama á einnig við um heilbrigt fólk. Ofbeldi beinist enn fremur venjulega að vinum og fjölskyldu og fer oftar en ekki fram innan veggja heimilisins. Þegar öllu er á botninn hvolft þjáist megnið af ofbeldishneigðu fólki ekki af geðklofa og flestir þeirra sem þjást af geðklofa eru ekki ofbeldishneigðir.

Sjálfsvíg
Geðklofi eykur í ríkum mæli hættu á sjálfsvígum og ef einstaklingur hótar að stytta sér aldur, eða gerir tilraun til þess, ætti að leita læknishjálpar strax. Einn af hverjum tíu geðklofasjúklingum styttir sér aldur, og er hættan mest hjá ungum karlmönnum. Því miður getur reynst sérstaklega erfitt að sjá fyrir sjálfsvíg hjá geðklofasjúklingum og því ber alltaf að taka alvarlega þegar þeir láta í ljós sjálfsvígs- eða lífsleiðahugsanir.

Hvað er eðlilegt og hvað ekki?
Heilbrigðir einstaklingar geta sýnt einkenni sem svipar til geðklofaeinkenna. Öll getum átt erfitt með að hugsa rökrétt, orðið kvíðin, ringluð í margmenni, átt í basli með að koma hugsunum okkar í orðræðu. Þetta eru ekki dæmi um geðklofa. Að sama skapi er hegðun geðklofasjúklinga ekki alltaf afbrigðileg. Oftast geta þeir sem þjáist af geðklofa virst fullkomlega eðlilegir og brugðist við á viðeigandi hátt, jafnvel meðan ranghugmyndir og ofskynjanir sækja á þá. Hegðun er einnig breytileg hjá þeim, hún getur orðið óviðeigandi þegar lyfjagjöf er hætt og komist í nokkurn veginn eðlilegt horf aftur þegar meðferð er hafin á ný. 

Geðklofi er EKKI klofinn persónuleiki
Það er nokkuð útbreidd hugmynd að geðklofi sé það sama og ,,klofinn persónuleiki" eða persónuleikaröskun sem lýsir sér í því að margar ólíkar persónur eigi aðsetur í sama líkamanum, og hefur verið sérstaklega vinsælt vinfangsefni kvikmynda og sápuópera. Þetta er mikill misskilningur.

Orsakir geðklofa
Ekki er vitað með vissu hvað veldur geðklofa. Orsakir hjartasjúkdóma og ýmissa annarra sjúkdóma er að finna í flóknu samspili erfða, umhverfis, atferlis og annarra þátta og líklega gildir það hið sama um geðklofa. Vísindamenn vita ekki um alla orsakaþætti en umfangsmiklar líffræðilegar rannsóknir á erfðum, þróun heilans og öðrum hugsanlegum áhættuþáttum munu smám saman að varpa betra ljósi á ástæðu sjúkdómsins.

Erfist geðklofi?
Lengi hefur verið vitað að geðklofi gengur í ættir. Nánir ættingjar geðklofasjúklinga eru líklegri til að veikjast af geðklofa en þeir sem ekki eiga ættingja með geðklofa. Líkurnar eru um 40-50 % ef eineggja tvíburar í fjölskyldunni eru með geðklofa og um 10% ef annað foreldri þjáist af geðklofa. Til samanburðar má geta þess að geðklofi hrjáir einungis einn af hverjum hundrað í þjóðfélaginu.

Rannsóknir benda til þess að það sé ekki eitt gen sem veldur sjúkdómnum heldur sé samspil fjölda erfðavísa sem eigi þátt í geðklofanum. Auk þess virðast áföll á meðgöngu, til dæmis næringarskortur fósturs, veirusýkingar, erfiðleikar við fæðingu og ýmiss konar annað álag, auka líkur á geðklofa hjá barninu síðar meir. Enn er þó ekki vitað nákvæmlega hvernig geðklofi erfist og því ekki hægt að spá fyrir um hverjir muni veikjast og hverjir ekki.

Vitneskja um þátt erfðavísa í geðklofa myndi auka skilning manna á því hvað færi úrskeiðis í þróun heilans og stuðlaði að bættum meðferðarúrræðum. Rannsóknir á erfðum geðklofa fara núna fram víða um heim, m.a. á Íslandi hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Tengist geðklofi efnafræðilegum afbrigðileika í heila?
Þekking á efnafræði heilans og tengslum við geðklofa eykst óðfluga. Heilinn vinnur úr upplýsingum með aðstoð ýmissa boðefna sem bera upplýsingarnar milli taugafruma. Lengi hefur verið talið að geðklofi tengdist afbrigðileika á magni eða virkni þessara efna eða þá viðtækjanna sem boðefnin tengjast. Athygli manna hefur helst beinst að boðefnunum dópamíni og glútamati. Rannsóknir á þessu sviði lofa góðu.

Stafar geðklofi af afbrigðilegri byggingu heila?
Miklar framfarir hafa orðið undanfarið í geislagreiningu og myndgreiningartækni til að rannsaka heila lifandi fólks. Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að heilabyggingin í geðklofasjúklingi er ekki eðlileg. Sum svæði virðast til að mynda vera minni en í heilbrigðu fólki, og vökvahólf (ventricles) eru að jafnaði stærri. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós truflun á virkni á ákveðnum heilasvæðum. Rétt er að taka fram að þessi frávik eru tiltölulega lítil, þau koma ekki fram hjá öllum geðklofasjúklingum og geta einnig komið fram hjá fólki sem ekki þjáist af geðklofa. Krufning á heila látinna sjúklinga hefur leitt í ljós nokkurn afbrigðileika í fjölda og dreyfingu heilafruma. Talið er að þessi frávik í starfi og byggingu heila geðklofasjúklinga sé venjulega til staðar áður en bráðafasi veikindanna byrjar, og geðklofi stafi að einhverju leyti af röskun á þroska heilans á fósturskeiði og/eða í bernsku.

Sumir taugalíffræðingar telja að geðklofi stafi af því að taugungar í heilanum þroskist ekki rétt á fósturstigi og innbyrðis tengsl taugafruma truflist og myndist ekki á eðlilegan hátt. Truflunin liggi í dvala fram að kynþroska, en þá verða eðlilegar breytingar á innbyrðis tengingum taugafruma, og hafi tengingarnar orðið fyrir truflun á fósturskeiði geti breytingin ekki átt sér stað með eðlilegum hætti og sjúkdómurinn komi fram. Nú er verið að reyna að greina hvaða þættir á fósturstigi geti haft áhrif á þroska heilans.

Aðrar rannsóknir hafa fundið lífefnafræðilegar breytingar sem verða áður en geðklofaeinkenni koma fram, og gefa til kynna hvaða taugamót, net taugafruma og stýrikerfi heilans eigi þátt í myndun sjúkdómseinkenna. Einnig eru vísindamenn að rannsaka hvaða erfðaþættir stjórna þroska heilans og þeim boðefnakerfum sem stjórna starfssemi hans.

Meðferð
Geðklofi hefur trúlega margar samverkandi orsakir sem eru lítt þekktar í dag. Núverandi meðferð byggir á klínískri reynslu og niðurstöðum rannsókna og miðar að því að draga úr einkennum og halda sjúkdómnum í skefjum.

Lyfjameðferð
G
eðlyf sem halda geðrofseinkennum niðri hafa verið fáanleg síðan á miðjum sjötta áratugnum og hafa reynst geðklofasjúklingum ómetanleg hjálp. Geðlyf draga úr geðrofaeinkennum og gera sjúklingum kleift að bregðast við umhverfi sínu á viðeigandi hátt og lifa heilbrigðara lífi. Lyfjameðferð er áhrifaríkust þeirra meðferða sem nú eru fáanlegar. Þótt lyf geti reynst árangursrík til að halda sjúkdómseinkennum í skefjum lækna þau hvorki sjúkdóminn né tryggja að viðkomandi fái ekki fleiri geðrofaköst. Afar mikilvægt er að rétt lyf séu valin og að þau séu gefin í hæfilegu magni. Það er mjög einstaklingsbundið hvaða lyf halda einkennum í skefjum. Eitt lyf getur virkað vel á einn sjúkling en alls ekki á annan og velja þarf skammtastærð af mikilli nákvæmni til að lyfið hafi áhrif án alvarlegra aukaverkana.

Lyf draga úr einkennum hjá flestum sjúklingum með geðklofa. Þó hafa lyf lítil sem engin áhrif á suma sjúklinga, og einstaka sjúklingur virðist ekki þarfnast lyfja. Það getur verið vandasamt að greina hverjir muni njóta góðs af geðlyfjum og hverjir ekki, og oft er eina leiðin að prófa sig áfram með lyfjatöku og sjá árangurinn.

Á síðustu tíu árum hafa nokkur ný geðlyf við geðklofa rutt sér rúms, svokölluð ,,óhefðbundin" geðlyf (atypical antipsychotics). Hið fyrsta þeirra, clozapine (Leponex(r)) hefur reynst áhrifaríkara en önnur geðlyf en getur því miður haft í för með sér afar alvarlegar aukaverkanir. Alvarlegust er hættan á því að hvítum blóðkornum fækki og þar sem hvít blóðkorn eru helsta sjúkdómsvörn líkamans er mikilvægt að blóðprufur séu teknar reglulega til að fylgjast með blóðmyndinni sé lyfsins neytt. Nýrri lyf, svo sem risperidone (Risperdal(r)), olanzapine (Zyprexa(r)) og quetiapine (Seroquel(r)), eru öruggari en clozapine og ýmis eldri lyf og þeim fylgja færri aukaverkanir. Enn hefur þó ekki fundist lyf sem er jafn áhrifaríkt til að halda aftur af einkennum geðklofa og clozapine, en stöðugt er unnið í að þróa ný lyf.

Geðlyf eru jafnan áhrifaríkust til að draga úr geðrofseinkennum geðklofa, svo sem ofskynjunum og ranghugmyndum, en hafa því miður ekki reynst jafn vel til að draga úr öðrum einkennum, svo sem óvirkni og skerðingu á tilfinnigalífi. Sum eldri geðlyfja, til dæmis haloperidol (Haldol(r)) og chlorpromazine (Largactil(r)) geta jafnvel haft aukaverkanir sem svipar til þessarra einkenna. Stundum getur hjálpað að minnka lyfjaskammtinn eða skipta yfir í önnur geðlyf, til dæmis nýrri lyf eins og quetiapine (Seroquel(r)), olanzapine (Zyprexa(r)) eða risperidone (Risperdal(r)). Ef þunglyndi fylgir geðklofa getur það einnig aukið á önnur geðklofaeinkenni og stundum reynist vel að gefa þunglyndislyf samfara geðklofalyfjum.

Sjúklingar og fjölskyldur þeirra hafa stundum áhyggjur af því að geðlyf kunni að vera ávanabindandi auk þess að hafa óþægilegar aukaverkanir. Slíkar áhyggjur eru óþarfar af því að fólk kemst ekki í ,,vímu" af geðlyfjum og verður ekki háð þeim.

Annar misskilningur um eðli geðlyfja er að þau séu eins konar ,,spennitreyja á hugann" eða ,,heilaþvottaefni". Áhersla skal lögð á það að geðlyf, gefin í réttu magni, skerða hvorki frjálsan vilja fólks né koma því ,,út úr heiminum". Þrátt fyrir að geðlyf geti haft róandi áhrif liggur meðferðargildi þeirra ekki í því, heldur í mótverkandi áhrifum þeirra gegn þeim ofskynjunum, kvíða, ringulreið og ranghugmyndum sem fylgja geðklofaköstum. Geðlyfin hjálpa sjúklingnum að taka virkari þátt í samfélaginu með því að gera honum kleift að bregðast við umhverfi sínu á viðeigandi hátt.

Hversu lengi ættu geðklofasjúklingar að taka geðlyf?
G
eðlyf minnka líkurnar á því að sjúkdómurinn taki sig upp aftur hjá sjúklingum sem hafa jafnað sig eftir bráðafasa veikindanna. Þrátt fyrir stöðuga lyfjameðferð geta sumir veikst aftur, en hættan á því eykst til mikilla muna ef lyfjameðferð er hætt. Í mörgum tilfellum koma geðlyf ekki alfarið í veg fyrir að sjúkdómurinn taki sig upp aftur en köstin verða að jafnaði mun færri og einkennin vægari. Skammtur geðlyfja er aukinn þegar alvarleg einkenni koma fram og minnkaður þegar sjúkdómurinn er í rénum. Ef geðrofseinkenni byrja að koma fram þegar sjúklingurinn er á lágum lyfjaskammti má oft koma í veg fyrir að þau nái fullu valdi með því að auka skammtinn tímabundið.

Það eru verulega auknar líkur á því að sjúkdómurinn taki sig upp aftur ef hætt er að taka lyf og þessvegna er afar mikilvægt að viðkomandi haldi áfram lyfjatöku enda þótt honum finnist hann heill heilsu. Náin samvinna ætti alltaf að vera milli sjúklings, fjölskyldu og læknis til að tryggja að meðferðaráætlun sé fylgt, til dæmis að lyf séu tekin í réttu magni á réttum tímum, og að viðkomandi mæti til læknis á tilsettum tímum. Mörgum reynist erfitt að fylgja meðferðaráætlunum en hægt er að bæta þar úr með ýmsum ráðum.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að sjúklingar hætta að taka geðlyf. Sumir neita því að þeir séu veikir og þurfi á lyfjum að halda, og þótt viljinn sé fyrir hendi hjá öðrum getur verið svo mikil óreiða á hugsun þeirra að þeir muna ekki eftir því að taka inn lyfin. Ættingjar og vinir sem vita kannski lítið um geðklofa eiga það einnig til að ráðleggja fólki að hætta að taka lyf þegar sjúkdómseinkennum linnir. Læknar kunna enn fremur að vanrækja að fylgjast með því að meðferðaráætlun sé fylgt, og/eða reynast ósveigjanlegir til að verða við óskum sjúklings til að breyta lyfjaskammti eða reyna nýjar meðferðir. Lyfjum geta einnig fylgt afar óþægilegar aukaverkanir, og sumir sjúklingar halda því fram að geðklofaeinkennin séu helst til skárri. Að lokum getur misnotkun eiturlyfja dregið úr áhrifum geðlyfja og orðið til þess að sjúklingurinn hættir að taka þau inn.

Sem betur fer eru ýmsar leiðir færar til að auka líkur á að meðferðaráætlun sé fylgt og sjúkdómnum haldið í skefjum. Nú eru sum geðlyf til dæmis fáanleg í sprautuformi, þar á meðal haloperidol (Haldol(r)), flupentixol (Fluanxol(r)), og perphenazine (Trilafon(r)). Þessi lyf virka í langan tíma eftir inngjöf, og í stað þess að þurfa að taka töflur daglega þarf sjúklingurinn einungis að mæta í sprautu öðru hvoru. Hart er unnið að því að þróa sprautuútgáfur af fleiri lyfjum, einkum nýrri lyfjum sem hafa tiltölulega mildar aukaverkanir. Einföld hjálpartæki, svo sem pillubox merkt vikudögunum, geta auðveldað sjúklingum og aðstandendum að fylgjast með því að rétt lyf séu tekin á réttum tímum. Enn fremur er ráðlegt að lyf séu tekin á matmálstímum eða samhliða öðrum reglulbundnum daglegum athöfnum og að öðru heimilisfólki viðstöddu. Læknar og aðrir meðferðaraðilar eru færir um að gefa sjúklingum ýmis áhrifarík ráð og hvatningu reynist erfitt að halda úti meðferð.

Síðast en ekki síst er afskaplega mikilvægt að aðstandendur sjúklinga, svo og sjúklingarnir sjálfir, fái greinargóða og ítarlega fræðslu um geðklofa og þau lyf sem gefin eru við honum og slík fræðsla ætti alltaf að vera snar þáttur af meðferðinni.

Aukaverkanir
Geðlyfjum, eins og raunar flestöllum lyfjum, fylgja oft óþægilegar aukaverkanir. Við upphaf lyfjameðferðar finnur fólk til dæmis gjarnan fyrir syfju, eirðarleysi, vöðvakippum, skjálfta, munnþurrki eða sjóntruflunum. Flest þessara einkenna má losna við með því að minnka lyfjaskammtinn eða gefa önnur lyf samfara geðlyfjunum. Áhrif geðlyfja eru einstaklingsbundin og misjafnt er hvaða lyf gagnast hverjum og einum best og því þarf stundum að skipta um lyf í byrjun meðferðar og þreifa sig áfram.

Langvarandi aukaverkanir geðklofalyfja geta verið talsvert alvarlegri en ofantalin einkenni. Síðkomin hreyfitruflun (tardive dyskinesia) einkennist af ósjálfráðum hreyfingum. Þessi tuflun er oftast bundin við munn, varir og tungu, en leggst í sumum tilfellum á búk eða útlimi líka. Síðkomin hreyfitruflun hrjáir um 15-20 af hverjum hundrað sjúklingum sem tekið hafa eldri gerðir geðlyfja til lengri tíma en getur jafnvel komið fram eftir notkun í stuttan tíma. Í flestum tilfellum eru einkenni síðkominnar hreyfitruflunar þó væg og stundum tekur viðkomandi ekki eftir þeim.

Síðkomin hreyfihömlun er mun sjaldgæfari fylgifiskur nýrri lyfja en getur þó komið fyrir. Nýrri lyfjum fylgja líka stundum aukaverkanir sem ekki fylgja eldri lyfjum, svo sem þyngdaraukning. Of stórir skammtar geta enn fremur haft í för með sér alvarlegri aukaverkanir, svo sem félagslega einangrun og einkenni sem svipar til einkenna Parkinsonsveiki. Þrátt fyrir þetta eru nýrri geðlyf mikil framför frá eldri lyfjum, og verið er að gera umfangsmiklar rannsóknir á því hvernig þau nýtist best.

Sálfélagslegar meðferðir
Þótt geðlyf hafi reynst ómetanleg til að létta á geðrofa, ofskynjunum, ranghugmyndum og hugsanatruflunum hafa þau ekki reynst eins áhrifarík hvað varðar önnur einkenni, svo sem óvirkni, félagslegri einangrum og erfiðleikum í samskiptum við aðra. Jafnvel þegar sjúklingur er laus við öll geðrofseinkenni getur hann átt í vandræðum með öll mannleg samskipti, haft alvarlega skerta áhugahvöt og hirt lítið um sjálfan sig. Þar sem geðklofi brýst venjulega út á aldrinum 18-35 ára er einnig hætt við að náms- og starfsframi bíði af varanlegan skaða. Það er á þessum sviðum sem sálfélagslegar meðferðir geta verið gagnlegar.

Þrátt fyrir að sálfélagslegar meðferðir séu gagnslitlar til að meðhöndla geðrofseinkenni, geta þær hjálpað sjúklingum að koma reglu á líf sitt eftir að þeir hafa komið reiðu á hugann með aðstoð lyfja. Flestar sálfélagslegar meðferðir miða því að því að bæta félagsvirkni sjúklingsins og kenna honum að takast á við umhverfi sitt á uppbyggjandi hátt, hvort sem hann er staddur á sjúkrahúsi, heimili sínu eða vinnustað. Ýmsar sálfélagslegar meðferðir eru í boði þótt framboð sé því miður afar misjafnt eftir landshlutum. Fjallað er um sumar þessara meðferðarúrræða hér á eftir.

Endurhæfing
Endurhæfing hjálpar sjúklingum að aðlagast samfélaginu utan veggja geðheilbrigðisstofnana með því að þjálfa það sem er nauðsynlegt að takast á við hið daglega líf. Svo einhver dæmi séu nefnd þarf stundum að kenna fólki hversdagslegustu hluti, eins og að halda uppi samræðum við annað fólk, taka strætó, halda utan um fjármál sín, kaupa í matinn og hirða um sjálft sig og heimili sitt. Þá er lögð rík áhersla á að þjálfa fólk í starfi til að það geti séð fyrir sjálfu sér og lifað sjálfstæðu lífi.

Einstaklingsmeðferðir
Í einstaklingsmeðferð mætir sjúklingur í regluleg viðtöl til geðlæknis, sálfræðings, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa eða annarra fulltrúa geðheilbrigðisstéttarinnar með þjálfun í viðtalsmeðferð. Viðtalstímarnir snúast gjarnan um vandamál sjúklingsins, reynslu hans, hugsanir, tilfinningar og sambönd við annað fólk. Með því að ræða tilfinningar sína og reynslu við óhlutdrægan aðila getur fólk öðlast betri skilning á vanda sínum, og lært að greina hið ímyndaða frá hinu raunverulega. Nýlegar athuganir benda til þess að hugrænar atferlismeðferðir, sem ráðast að óraunhæfri bölsýnishugsun og kenna sjúklingum að takast á við vandamál á uppbyggilegan hátt, geti gagnast sjúklingum með geðklofa. Þó getur einstaklingsmeðferð aldrei komið í staðinn fyrir lyfjagjöf, og gerir mest gagn þegar geðrofseinkennum er haldið í skefjum með hjálp lyfja.

Fjölskyldufræðsla
Þegar sjúklingar útskrifast af stofnunum flytjast þeir oftast heim til fjölskyldna sinna. Fjölskyldu ætti að upplýsa vel um sjúkdóminn til þess að hún skilji erfiðleika og vandamál sem honum fylgja. Einnig er þýðingarmikið að fjölskyldan læri að draga úr hættu á frekari köstum, til dæmis með því að fylgjast með því að lyf séu tekin í réttu magni á réttum tímum. Þá ætti að kynna sér hvaða aðstoð er fáanleg meðan sjúklingurinn er að aðlagast umhverfinu utan sjúkrahússins á nýjan leik. Í fjölskyldufræðslu eru kenndar ýmsar aðferðir sem auðvelda fjölskyldunni að takast á við sjúkdóminn og bæta jafnt batahorfur sjúklingsins svo og almenna vellíðan fjölskyldunnar.

Sjálfshjálparhópar
Þótt sjálfshjálparhópar séu ekki leiddir af faglærðu fólki geta þeir tvímælalaust haft gildi fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Sjálfshjálparhópar eru oft uppspretta gagnkvæms stuðnings og gagnlegra ráðlegginga og fólki líður betur að vita af því að það er ekki eitt á báti. Sjálfshjálparhópar geta einnig verið öflugir þrýstihópar, þeir gætu til að mynda knúið á yfirvöld um nauðsynlegar rannsóknir, meðferðarúrræði og félagslegan stuðning. Í sameiningu er hægt að vinna gegn fordómum í samfélaginu á geðsjúkdómum og krefjast félagslegra úrbóta.

Hvað geta aðrir gert til að hjálpa?
Sjúklingar með geðklofa eru oft sannfærðir um að ofskynjanir og skynvillur þeirra séu raunverulegar og neita því að nokkuð ami að þeim. Það er því oft undir öðrum komið að þeir hljóti viðeigandi meðferð og í hlut fjölskyldu og vina kemur að sjá til þess að þeir fái faglegt mat hjá lækni. Stundum verður ekki hjá því komist að leggja sjúkling inn gegn vilja hans og svipta hann sjálfræði tímabundið. Það eru mjög skýrar reglur það um hvernig er staðið að tímabundinni sjálfræðissviptingu, nánari upplýsingar veita heilsugæslulæknar eða starfsfólk geðdeilda.

Stundum eru aðstandendur sjúklings meðvitaðir um furðulegar hugmyndir eða hegðun sem sjúklingurinn lætur ekki endilega uppi við sérfræðinginn sem metur hann. Mikilvægt er að sérfræðingnum sé greint frá hverju því sem kann að varpa ljósi á ástand sjúklingsins svo mat verði eins nákvæmt og auðið er og hægt sé að velja bestu fáanleg meðferðarúrræði.

Þegar sjúklingur er útskrifaður af sjúkrahúsi getur hann einnig þurft á aðstoð annarra að halda til að fylgja eftir meðferðaráætlun. Án tilsjónar annarra er hætt við að einstaklingurinn hætti að taka lyf og mæta í viðtalstíma sem leiðir til þess eins að geðrofseinkenni koma upp á yfirborðið á nýjan leik. Stuðningur aðstandenda getur skipt sköpum fyrir bata sjúklings og lífsgæði. Án meðferðar geta sjúklingar orðið svo veikir að þeir verða fullkomlega ófærir um að sjá um sig sjálfir, hafa jafnvel ekki rænu á að halda sér hreinum, klæða sig eða fæða.

Aðstandendur geðklofasjúklinga vita oft ekki hvernig þeir eiga að bregðast við undarlegum yfirlýsingum þeirra eða skynjunum. Sjúklingarnir eru sannfærðir um að ranghugmyndir og ofskynjanir þeirra séu rökréttar og raunverulegar og ógerningur að telja þeim trú um annað. Þótt aðstandendur ættu að hafa þetta í huga, ættu þeir samt að gera sjúklingnum grein fyrir því að þeir sjái málið í öðru ljósi eða séu ekki sammála röksemdafærslu hans, fremur en að samsinna öllu sem hann segir. En forðast ætti eins og heitan eldinn að lenda í rifrildi eða illdeilum við sjúklinginn.

Það getur verið gagnlegt fyrir aðstandendur að halda dagbók yfir einkenni, lyfjagjöf og áhrif meðferðar. Með því að fylgjast með einkennum þegar þau koma fram, og skrá þær breytingar sem verða hjá einstaklingnum samhliða því, geta aðstandendur gert sér betri grein fyrir hverju þeir þurfa að fylgjast með framvegis. Þeir kunna jafnvel að taka betur og fyrr eftir hættumerkjum en sjúklingurinn sjálfur, til dæmis breytingum á svefnmynstri eða aukinni hlédrægni. Ef geðrofskast er greint snemma má koma í veg fyrir að einkennin komi fram í öllu sínu veldi með því að breyta lyfjaskammti. Ef fjölskyldan eða aðrir aðstandendur hafa enn fremur skráð niður hvaða áhrif mismunandi lyf hafa áður haft á sjúklinginn, tekur það meðferðaraðilann mun styttri tíma að finna bestu meðferðina.

Auk þess að hvetja viðkomandi til að leita sér hjálpar, geta fjölskylda, vinir og aðrir þeir sem umgangast einstaklinginn veitt honum hvatningu og stuðning til að endurheimta fyrri hæfileika. Þó skyldi forðast að fara of hratt í sakirnar og gæta þess að sett markmið séu raunhæf af því að álag og streita geta ýtt undir það að sjúkdómurinn taki sig upp. Einnig er mun vænlegra til árangurs að lofa það sem vel er gert heldur en að lasta það sem betur mætti fara.

Framtíðarhorfur
Horfur geðklofasjúklinga hafa batnað umtalsvert á síðasta aldarfjórðungi. Meðferðir sem við höfum nú yfir að ráða hafa hjálpað mörgum sjúklingum að lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi, þrátt fyrir að enn hafi ekki fundist nein algild lækning. Einnig verður þekking á orsökum geðklofa smám saman heilsteyptari og stöðugt er unnið að því að þróa betri meðferðarúrræði.

Langtímaathuganir, þar sem fólki með geðklofa er fylgt eftir frá fyrstu sjúkdómseinkennum fram á gamals aldur, hafa gefið misvísandi niðurstöður. Ákveðnir þættir virðast bæta batahorfur sjúklinga, til dæmis góð félagshæfni áður en sjúkdómurinn gerir vart við sig. Enn er þó ómögulegt að spá fyrir af nokkurri nákvæmni hverjir muni ná fullum bata og hverjir ekki.

Geðklofi er afar margslunginn sjúkdómur og enn er mörgum spurningum ósvarað um orsakir, forvarnir og meðferð. Mikil rannsóknarvinna er enn fyrir höndum og öllum yfirlýsingum um undralækningar ætti að taka með fyrirvara. Þrátt fyrir að skilningur á sjúkdómnum hafi aukist til muna á síðustu áratugum og vel ígrundaðar rannsóknir varpi jafnt og þétt betra ljósi á heildarmyndina, er enn nokkuð langt í land.