Hægðatregða

Meltingarfærasjúkdómar

  • Haegdartregda

Margir hafa lent í því að hafa átt erfitt með hægðir enda getur hægðatregða gert vart við sig hjá öllum, jafnt fullorðnum sem börnum, einhvern tíma á ævinni.

Hægðatregða getur átt rætur sínar að rekja til ólíkra þátta, svo sem mataræðis, vökva, öndunar, tilfinninga, erfða og menningar. Hún veldur oft ómældum óþægindum, til skamms eða langs tíma.

Einkenni
Magaverkur, vindverkir, strjálar hægðir, þrýstingur í kviði, fyrirferð í meltingarvegi, þurrar harðar hægðir, lítið rúmmál hægða, blóð í hægðum, bólgur í endaþarmi, höfuðverkur, minnkuð matarlyst o.fl.

Afleiðingar
Saur safnast upp í meltingarveginum og það getur leitt til bakteríu- , sveppa- eða veirusýkingar, eða sníkjudýr taka sér bólfestu í líkamanum. Sýkingin veldur oft því að eitruð efni myndast og þau valda bjúgmyndun og að lokum skemmdum í meltingarvegi og jafnvel öðrum vefjum líkamans.

Ástæður
Rannsóknir sýna að algengustu orsakir hægðatregðu séu þær að of lítið magn af trefjum sé í fæðu, hreyfingarleysi, ónógur vökvi í fæðu eða að einstaklingur gefi sér ekki nægan tíma til að sinna þörfum sínum/sjálfum sér. Ýmislegt annað getur líka haft sitt að segja með hægðir. Þar má nefna að þungun dregur úr hreyfingu hjá konum og undirliggjandi sjúkdómar og lyf geta stuðla að hægðatregðu. Þetta eru sjúkdómar eins og Parkinson´s, fyrirferð í meltingarvegi, t.d. vegna æxlis, Colitis og Crohn´s svo að einhverjir sjúkdómar séu nefndir. Þá geta lyf stuðlað að hægðatregðu, t.d. járnlyf , Fluoxetín, Parkódín (kódein), Contalgin (morfín) o.fl.

Hvað er til ráða?
Nokkur óbrigðul ráð eru við hægðatregðu. Að passa sig á því að borða mikið af trefjum og drekka mikið vatn ásamt því að hreyfa sig reglulega hefur mikið að segja. Vökvi leysir upp massa sem annars gæti leitt til erfiðra hægða. Súrir ávaxtasafar eins og appelsínu- og sítrónusafar eru hér árangursríkari en vatn af því að safarnir hafa hærra sýrustig en vatnið. Í Lyfju fást “lyf” sem auka vatnsinnihald hægða, t.d. Sorbitól og Medilax (laktúlósa). Séu þessi lyf tekin inn tekur það venjulega nokkra daga að hafa áhrif. Lyf eins og Toilax, Microlax og Dulcolax eru lyf með hraðari verkun. Athugið að þessi lyf á aldrei að nota nema vissa sé fyrir því að hægðatregða stafi ekki af völdum sjúkdóms sem stíflar meltingarveginn. Kynnið ykkur vel þessi lyf í Lyfjubókinni og leitið eftir ráðleggingum lyfjafræðings. Ætíð skal leita læknis ef hægðatregða er af óþekktum orsökum eða er viðvarandi.

Hvað ber að varast?
Ýmis hægðalyf unnin úr plöntum geta leitt til rýrnunar á vöðvum í meltingarvegi og þ.a.l. haft óæskileg áhrif til lengdar. Dæmi um slíkt lyf er Senokot. Ætíð skal leita læknis ef hægðatregða er af óþekktum orsökum eða er viðvarandi.

Þessi texti er einungis skrifaður til leiðbeiningar. Hann kemur aldrei í stað greiningar sérfræðings.

Friðþjófur Már Sigurðsson, lyfjafræðingur.