Háþrýstingur

Almenn fræðsla Hjarta– og æðakerfið

Háþrýstingur er talinn valda um þriðjungi ótímabærra dauðsfalla. Ómeðhöndlaður háþrýstingur getur leitt til æðakölkunar, hjartadreps, hjartabilunar, heilablóðfalls, heilabilunar, nýrnabilunar og sjónskerðingar. Mikilvægt er því að greina háþrýsting á snemmstigum því háþrýsting er hægt að meðhöndla. Sýnt hefur verið fram á að hækkun um 20 mmHg í efri mörkum og 10 mmHg í neðri mörkum tvöfaldar líkur á þróun hjarta- og æðasjúkdóma.

Hathristingur

Árið 2010 voru um 30% fullorðinna greindir með háþrýsting í heiminum og fer tíðnin hækkandi. Ástæðurnar eru taldar vera nokkrar, m.a. hækkandi aldur, aukin saltneysla og hreyfingarleysi. Dreifing sjúkdómsins er nokkuð jöfn milli kynja.
Þrátt fyrir að góðar meðferðarleiðbeiningar hafi verið kunnar um nokkurt skeið er sjúkdómurinn enn vangreindur og vanmeðhöndlaður. Árið 2010 vissi rúmlega helmingur fólks með háþrýsting ekki að hann væri með sjúkdóminn og náði einungis tæpum 14% af meðferðarmarkmiðum (<140/90 mmHg). Greining og meðferð á Íslandi fer að mestu leyti fram á heilsugæslu en einnig á læknastofum sérgreinalækna.

Algengt er að blóðþrýstingur hækki með aldrinum. Ástæðan er talin vera minni eftirgefanleiki slagæða og/eða lélegri síun í gauklum nýrna. Þá hækka efri mörk út ævina en neðri mörk til 55-60 ára aldurs. 

Nýleg rannsókn sýndi að enn eru margir háþrýstingssjúklingar ógreindir á Íslandi og til mikils að vinna að bæta greiningu og meðferð.

Þegar hjartað dælir blóði um æðakerfið myndast þrýstingur sem við köllum blóðþrýsting. Hann vísar til þrýstings í slagæðum sem viðheldur blóðrás til alls líkamans og er mældur í tveimur tölum. Efri mörk kallast slagbilsþrýstingur sem vísar til þrýstings í æðum þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í slagæðarnar. Neðri mörk kallast hlébilsþrýstingur þegar hjartað slakar á og fyllist aftur af blóði. Blóðþrýstingur er afar breytilegur og getur m.a. hækkað við andlega spennu, streitu og áreynslu, en lækkar aftur þegar slakað er á.

SKILGREINING HÁÞRÝSTINGS
Háþrýstingur er þegar þrýstingur blóðs í slagæðum verður of hár. Venjulega er miðað við mælingu á a.m.k. tveimur ólíkum dögum.

Greining háþrýstings byggir á því að blóðþrýstingur sé mældur við viðeigandi aðstæður. Flokkun á háþrýstingi er mismunandi en skv. amerísku hjartalæknasamtökunum er miðað við:

 • Eðlilegur blóðþrýstingur: Slagbilsþrýstingur <120 mmHg og hlébilsþrýstingur <80 mmHg.
 • Hækkaður blóðþrýstingur: Slagbilsþrýstingur 120-129 mmHg og hlébilsþrýstingur <80 mmHg.
 • Háþrýstingur*:

○ Stig 1: Slagbilsþrýstingur 130-139 mmHg eða hlébilsþrýstingur 80-90 mmHg.
○ Stig 2: Slagbilsþrýstingur ≥140 mmHg eða hlébilsþrýstingur ≥90 mmHg.

*Ef slagbils- og hlébilsþrýstingur stangast á þá er miðað við hærra gildið.

Á Íslandi er aðallega stuðst við evrópskar leiðbeiningar sem skilgreina háþrýsting sem slagbilsþrýsting ≥140 mmHg eða hlébilsþrýsting ≥90 mmHg.

Til að greining háþrýstings sé marktæk þarf að endurtaka blóðþrýstingsmælingu við viðeigandi aðstæður, bæði af heilbrigðisstarfsmanni og utan læknastofu. “White coat” háþrýstingur er þekktur en þá mælist blóðþrýstingur endurtekið hækkaður á læknastofu en ekki þegar mælt er utan stofu. Dulinn háþrýstingur er aftur á móti þegar blóðþrýstingur mælist hækkaður utan læknastofu en ekki á læknastofu.

AÐ MÆLA BLÓÐÞRÝSTING
Umhverfi þarf að vera rólegt þegar blóðþrýstingur er mældur. Viðkomandi ætti að slaka á í fimm mínútur fyrir mælingu. Nota þarf viðeigandi stærð af manséttu (eftir ummáli upphandleggs) og hvorki reykja, drekka kaffi eða aðra koffíndrykki né stunda líkamsrækt hálftíma fyrir mælingu. Gæta þarf að því að bak sé beint, fætur flatar á gólfi og samsíða (ekki krosslagðar). Efri handleggur á að vera í hæð við hjartastað. Neðri brún mansettunnar á að vera rétt fyrir ofan olnbogabótina. Teknar eru að minnsta kosti tvær mælingar og meðaltal mælinganna reiknað. Þá er ráðlagt að mæla á báðum handleggjum í fyrstu komu. Sé munur á hægri og vinstri hendi meiri en 15 mmHg getur það bent til slagæðasjúkdóms. Í kjölfarið skal mæla blóðþrýsting á þeim handlegg sem gefur hærra gildi, ef munur er á þeim. Þegar blóðþrýstingur er mældur heima skal taka tvær mælingar með eins mínútna millibili á morgnana áður en lyf eru tekin inn og síðdegis fyrir kvöldmat.

ÁHÆTTUÞÆTTIR HÁÞRÝSTINGS
Orsök háþrýstings er ekki þekkt með vissu en líklega er um að ræða samspil erfða og umhverfis. Þó eru nokkrir áhættuþættir þekktir, við höfum stjórn á sumum þeirra en öðrum ekki.

Þættir sem við stjórnum ekki eru fjölskyldusaga, aldur (65 ára og eldri) og undirliggjandi sjúkdómar. Háþrýstingur er um tvöfalt algengari hjá einstaklingum sem eiga foreldri með háþrýsting og talið er að gen stjórni um 30% af breytileika í blóðþrýstingi. Þá getur lág fæðingarþyngd og næringarskortur eða útsetning fyrir lyfjum í móðurkviði aukið tilhneigingu að blóðþrýstingur hækki síðar á ævinni. Undirliggjandi sjúkdómar, t.d. Kæfisvefn, skjaldkirtilssjúkdómur og nýrnasjúkdómur geta leitt til háþrýstings.

Þeir umhverfisþættir sem auka líkur á háþrýstingi getum við oftast stjórnað, þ.e. óhollt mataræði. Svo sem mikil neysla á salti, skyndibitafæði, unnum matvörum og fæði sem inniheldur mettaða fitu og/eða transfitu, ásamt því að borða lítið af grænmeti og ávöxtum. Að draga úr saltneyslu og borða hreint fæði sem kemur beint úr náttúrunni getur lækkað blóðþrýsting. Mikil áfengisneysla (>3 drykkir á dag) hækkar blóðþrýsting og er aukningin skammtaháð. Að draga úr neyslu áfengis getur því lækkað blóðþrýsting. Offita og þyngdaraukning er stór áhættuþáttur háþrýstings og tengist oft háþrýstingi sem sést með hækkandi aldri. Því er þyngdarstjórnun mikilvæg. Hreyfingarleysi eykur líkur á háþrýstingi en sýnt hefur verið fram á að regluleg hreyfing lækkar blóðþrýsting bæði hjá fólki með háþrýsting sem og eðlilegan blóðþrýsting. Streita hækkar blóðþrýsting gegnum kortisól. Svefntruflanir, sambandserfiðleikar og fleira geta ræst streitukerfið og þar með hækkað blóðþrýsting.

Ýmsir aðrir þættir geta ýtt undir þróun háþrýstings, þ.á.m. ýmis lyf, til að mynda getnaðarvarnarpillan, bólgueyðandi lyf, þunglyndislyf, sterar o.fl. Vímuefni svo sem metamfetamín og kókaín geta einnig hækkað blóðþrýsting.

FYLGIKVILLAR HÁÞRÝSTINGS
Háþrýstingur getur gert æðar stífar, dregið úr blóðflæði og súrefnisflutningi sem geta valdið brjóstverk, hjartaáfalli, hjartsláttartruflunum (sem getur leitt til skyndidauða) og hjartabilun. Að sama skapi getur háþrýstingur valdið heilablóðfalli og nýrnabilun.

Á heildina litið er háþrýstingur algengasti áhættuþáttur ótímabærra hjartasjúkdóma, sem hægt er að fyrirbyggja. Hann er jafnframt algengari en sígarettureykingar eða sykursýki, sem eru aðrir stórir áhættuþættir. Háþrýstingur fer þó oft saman með þessum áhættuþáttum ásamt offitu, óheilbrigðu mataræði og hreyfingarleysi. Í stórri samantektarrannsókn kom í ljós að hætta á hjartasjúkdómi eykst í öllum aldurshópum þegar slagbilsþrýstingur fer yfir 115 mmHg og hlébilsþrýstingur yfir 75 mmHg. Fyrir hverja 20 mmHg hækkun á slagbilsþrýstingi og 10 mmHg hækkun á hlébilsþrýstingi, tvöfaldaðist hætta á ótímabærum dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóms.

GREINING HÁÞRÝSTINGS
Greining háþrýstings þarf að byggja á mörgum mælingum, nota þarf viðeigandi mælingaraðferð og styðjast við mælingu utan læknastofu. Fullorðnir með eðlilegan blóðþrýsting ættu að láta mæla sig árlega. Þeir sem mælast rétt undir mörkum háþrýstings eða eru með áhættuþátt ættu að láta mæla sig tvisvar á ári.

Ekki þarf frekari staðfestingu á greiningu háþrýstings mælist einstaklingur með slagbilsþrýsting sem er 180 mmHg eða hlébilsþrýstings 120 mmHg eða hærri. Hjá öllum öðrum sem mælast með hækkaðan blóðþrýsting á læknastofu ætti að staðfesta greiningu með því að mæla utan læknastofu. Mælist meðalslagbilsþrýstingur af tveimur mælingum 140 mmHg eða hærri, eða hlébilsþrýstingur 90 mmHg eða hærri, má segja að viðkomandi hafi háþrýsting. Ef ekki er unnt af einhverjum ástæðum að mæla blóðþrýsting heima fyrir má gera greininguna á læknastofu. Þ.e. ef blóðþrýstingur mælist hækkaður í þrjú samfelld skipti yfir nokkurra vikna aða mánaða tímabil.

ALVARLEIKI HÁÞRÝSTINGS METINN
Greinist viðkomandi með háþrýsting er æskilegt að meta mögulega fylgikvilla, eins og hvort merki séu um líffæraskaða, hjarta- eða nýrnasjúkdóma. Þá skal meta hvort aðrir áhættuþættir séu til staðar og hvort önnur lyf geti stuðlað að háþrýstingi. Þá er mælt með læknis- og augnskoðun. Til stuðnings er líklegt að læknir panti blóð- og þvagrannsókn (sölt, kretínín, fastandi blóðsykur og blóðfita, blóðhagur og skjaldkirtilspróf) ásamt því að fá hjartalínurit. Stundum er ástæða til ítarlegri rannsókna.

MEÐFERÐ HÁÞRÝSTINGS
Allir sem greinast með háþrýsting ættu að fá lífsstílsráðgjöf því með breytingu á lífsstíl er oft hægt að komast hjá lyfjagjöf (sjá að ofan). Þá metur læknir hvort ástæða sé til að hefja meðferð með blóðþrýstingslækkandi lyfjum.

SPURNINGAR OG SVÖR

 1. Hvað er blóðþrýstingur?
  Þegar hjartað dælir blóði um æðakerfið myndast þrýstingur sem við köllum blóðþrýsting. Hann vísar til þrýstings í slagæðum sem viðheldur blóðrás til alls líkamans og er mældur í tveimur tölum: Efri mörk kallast slagbilsþrýstingur og vísar til þrýstings í æðum þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í slagæðarnar en neðri mörk kallast hlébilsþrýstingur þegar hjartað slakar á og fyllist aftur af blóði.
 2. Hvað er háþrýstingur?
  Háþrýstingur er þegar þrýstingur blóðs í slagæðum verður of hár. Venjulega er miðað við mælingu á tveimur ólíkum dögum og þá er slagbilsþrýstingur ≥140 mmHg og/eða hlébilsþrýstingur ≥90 mmHg á báðum dögum. Viðmiðunargildi fyrir háþrýsting eru aðeins misjöfn eftir löndum.
 3. Hvað eykur líkur á háþrýstingi?
  Áhættuþættir skilgreinast bæði af erfðum og umhverfi. Þættir sem við stjórnum ekki eru fjölskyldusaga, aldur (65 ára og eldri) og undirliggjandi sjúkdómar. Við getum oftast stjórnað umhverfisþáttum, eins og óhollu mataræði þegar of mikil neysla er á salti, mettaðri fitu og transfitu, og lítið er borðað af grænmeti og ávöxtum. Hreyfingarleysi, tóbak, áfengisneysla og ofþyngd auka einnig líkur á háþrýstingi.
 4. Hver eru einkenni háþrýstings?
  Flestir með háþrýsting eru einkennalausir og því er hann oft kallaður “silent killer”. Af þessari ástæðu er mikilvægt að fylgjast með blóðþrýstingi. Í þau skipti sem einkenni koma fram þá geta þau birst sem morgunhöfuðverkur, nefblæðingar, óreglulegur hjartsláttur, sjónbreytingar, og suð í eyrum. Alvarlegur háþrýstingur getur valdið þreytu, ógleði, uppköstum, rugli, kvíða, brjóstverk og skjálfta. Eina leiðin til að greina háþrýsting er að mæla hann reglulega við kjöraðstæður.
 5. Hverjir eru fylgikvillar ómeðhöndlaðs háþrýstings?
  Hár blóðþrýstingur getur gert æðar stífar, dregið úr blóðflæði og súrefnisflutningi sem getur valdið brjóstverk, hjartaáfalli, hjartsláttartruflunum (sem getur leitt til skyndidauða) og hjartabilun. Að sama skapi getur háþrýstingur valdið heilablóðfalli og nýrnabilun.
 6. Hvernig er hægt að draga úr sjúkdómsbyrði af völdum háþrýstings?
  Með því að draga úr saltneyslu (undir 3g á dag), borða daglega grænmeti og ávexti, hreyfa sig markvisst, halda sig frá tóbaki og halda áfengisneyslu í góðu hófi neyti maður áfengis. Einnig er mikilvægt að minnka neyslu á mettaðri fitu og transfitu ásamt því að draga úr streitu og tileinka sér slökun í daglegu lífi. Síðan er ráðlagt að mæla blóðþrýsting reglulega og meðhöndla greindan háþrýsting.

Lyf_1200x628_hjukrunarthjonusta4_1660832133351

Dr. Lára G. Sigurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísundum (18.8.2022)

Heimildir


1. https://www.laeknabladid.is/tolublod/2022/02/nr/7941
2. https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/hypertension
3. UpToDate.com
4. https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/hypertension

5. https://www.heart.org/en/health-topics/high-blood-pressure/understanding-blood-pressure-readings

6. https://www.nia.nih.gov/health/high-blood-pressure-and-older-adults#:~:text=Normal%20blood%20pressure%20for%20most,pressure%20of%20less%20than%2080.

7. https://www.mayoclinic.org/tests-procedures/blood-pressure-test/about/pac-20393098

8. https://www.cdc.gov/bloodpressure/about.htm

9. https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/high-blood-pressure/symptoms-causes/syc-20373410