Leghálskrabbamein

Krabbamein

Tíðni leghálskrabbameins hefur farið lækkandi undanfarna áratugi. Þetta er þakkað skipulagri skimun með leghálsstroki.

Greinist forstigsbreytingar að krabbameini í leghálsinum má með réttum aðgerðum yfirleitt fyrirbyggja sjúkdóminn.

Faraldsfræði
Um 45% kvenna með leghálskrabbamein eru undir 35 ára aldri. Í þróunarlöndum er leghálskrabbamein ein algengasta ástæða dauða kvenna. Líklega er þetta vegna lélegrar heilbrigðisþjónustu og forvarna í þessum löndum.

Áhættuþættir
HPV-veira er þekktur áhættuþáttur. Reyndar eru um 90% leghálskrabbameina rakin til þessarar veirusýkingar. Veiran smitast við samfarir.

Reykingar eru einnig þekktur áhættuþáttur leghálskrabbamein. Er talið að ónæmisbælandi verkun reykinga eigi hér hlut að máli.

Aðrir ónæmisbælandi þættir eins og ónæmisbælandi lyf eða sjúkdómar (HIV sýking – AIDS) leiða til aukinnar tíðni leghálskrabbameins.

Einkenni
Einkenni geta verið margvísleg, s.s. milli-tíðablæðing, óvenju miklar blæðingar og/eða verkir við blæðingar. Blæðing eftir samfarir. Verkir í kvið eða grindarbotni, þvag- og hægðatregða.

Skimun
Leghálsstrok er einföld, markviss og auðveld skimun. Mælt er með að allar konur 18 ára og eldri sem stunda kynlíf séu skimaðar árlega í 3 ár og síðan á 2-3 ára fresti. Vakni grunur um forstigsbreytingar er mælt með tíðari sýnatökum. Í sumum tilvikum er jafnvel mælt með töku vefjasýnir úr leghálsi til að útiloka krabbamein.

Meinafræði
Algengast er svokallað flöguþekjukrabbamein. Kirtilkrabbamein telur nú um fimmtung allra leghálskrabbameina. Afar sjaldgæft er að sjá aðrar tegundir krabbameina í leghálsi svosem eitlakrabbamein, sortuæxli (melanoma) og sarkmein.

Stigun
Sjúkdómurinn er stigaður með tölvusneiðmyndum. Segulómun er mjög gagnleg við að meta útbreiðslu í grindarholi. Sjúkdómurinn er flokkaður í 4 stig allt eftir útbreiðslu.

Meðferð

Að vanda byggir meðferð á mörgum þáttum, m.a. stigi sjúkdómsins og ásigkomulagi sjúklingsins. Beitt er skurð-, geisla- og lyfjameðferð allt eftir því sem við á. Nýlega hefur afbrigði af A-vítamíni (13 cis-retinoic acid) og ónæmismeðferð (interferon alfa 2a) reynst gagnlegt í meðferð á sjúkdómnum í völdum tilvikum.

Sigurður Böðvarsson, læknir.