Lungnakrabbamein
Engin tegund krabbameins veldur fleiri dauðsföllum en lungnakrabbamein.
Reyndar veldur lungnakrabbamein fleiri dauðsföllum en brjóstakrabbamein, blöðruhálskrabbamein og ristilkrabbamein samanlagt. Þrjú hin síðarnefndu krabbamein eru hvert um sig í öðru, þriðja og fjórða sæti á eftir lungnakrabbameini hvað dauðsföll af völdum krabbameina varðar. Þessar staðreyndir eru sérstaklega sorglegar í ljósi þess að yfir 90% lungnakrabbameina má rekja til reykinga og hefði því mátt koma í veg fyrir.
Algengt er að flokka lungnakrabbamein í tvo hópa. Annarsvegar smáfrumuæxli og hinsvegar “ekki-smáfrumuæxli” (stórfrumuæxli, flöguþekjuæxli og kirtilæxli). Þessi skipting er hjálpleg því meðferð þessara tveggja tegunda er mjög mismunandi. “Ekki-smáfrumuæxli” eru mun algengari eða um 80% allra lungnakrabbameina.
Faraldsfræði
Nýgengi árið 1994 var 74 tilfelli á hverja 100.000 karlmenn og 43 tilfelli á hverjar 100.000 konur. Meðalaldur við greiningu er um 60 ár. Árið 2000 greinast um 172.000 Bandaríkjamenn með sjúkdóminn og um 159.000 munu deyja úr lungnakrabbameini í Bandaríkjunum einum saman.
Áhættuþættir
90% tilfella eru rakin til reykinga. Fylgni er á milli magns, þ.e. hversu mikið er reykt og áhættu. Tíminn, þ.e. hversu lengi viðkomandi hefur reykt er þó sterkari áhættuþáttur en magnið. Reykingamaður er tuttugu sinnum líklegri til að fá lungnakrabbamein en sá sem reykir ekki. Áhætta þeirra sem hætta að reykja fellur og nálgast áhættu þeirra sem aldrei hafa reykt eftir 15-25 ár. Óbeinar reykingar valda lungnakrabbameini. Einstaklingur sem býr í sama húsi/íbúð og reykingamaður (t.d. maki sem reykir ekki) er í 30% aukinni áhættu miðað við manneskju sem ekki reykir og ekki býr með reykingamanni.
Asbest er efni sem mikið var notað í ýmiss konar klæðningar á húsnæði áðurfyrr. Það er áhættuþáttur fyrir lungnakrabbamein sem og krabbamein í fleyðru brjósthols. Aðrir áhættuþættir eru uranium og hugsanlega ýmis ryk-mengun.
Einkenni
Lungnakrabbamein er því miður lúmskur sjúkdómur sem oft veldur ekki einkennum fyrr en seint og þá þegar sjúkdómurinn er langt genginn. Einkenni geta verið margvísleg. Þau helstu eru: hósti (stundum blóðlitaður), mæði, brjóstverkur, verkir í öxl eða handlegg, hæsi, lystarleysi, þyngdartap, hiti, sviti og verkir.
Skimun og sjúkdómsgreining
Skimun hefur enn ekki borið árangur. Þó eru töluverðar líkur á að skimun með tölvusneiðmyndatækni kunni að reynast gagnleg í framtíðinni. Þessi tækni er mun næmari á að finna krabbamein í lungum en venjuleg röntgenmyndataka sem mest hefur verið notuð við skimun hingað til.
Sjúkdómsgreiningin er yfirleitt gerð með vefjasýni. Liggi æxli nálægt brjóstkassanum má oft fá gott sýni með því að stinga nál inn í æxlið um brjóstkassann. Æxli sem liggja miðlægt í brjóstholi þarf yfirleitt að nálgast með berkjuspeglun.
Meinafræði
Eins og fyrr segir er um fimmtungur lungnakrabbameina svokölluð smáfrumukrabbamein. Þau vaxa hratt og sá sér fljótt. Þau eru mjög líkleg til að svara vel lyfjameðferð. “Ekki-smáfrumuæxli” (stórfrumuæxli, flöguþekjuæxli og kirtilæxli) eru um 80% allra lungnakrabbameina. Þau má hugsanlega lækna ef þau greinast nógu snemma og unnt er að fjarlægja þau að fullu. Geisla- og/eða lyfjameðferð hægir oft verulega á sjúkdómnum og eykur vellíðan og þrótt sjúklinga.
Stigun, meðferð og horfur
Þrátt fyrir meðferð er 5-ára lifun aðeins 14% í heildina séð. “Ekki-smáfrumukrabbamein” er flokkað í 4 stig. Smáfrumukrabbamein hinsvegar er eingöngu flokkað í tvö stig, þ.e. staðbundinn sjúkdóm eða dreifðan sjúkdóm.
Meðferð byggist á skurð-, geisla- og lyfjameðferð allt eftir stigi sjúkdómsins og ástandi sjúklingsins hverju sinni.