Njálgur

Algengir kvillar

Njálgur er sníkjudýr sem lifir í þörmum manna. Ormurinn smitast auðveldlega milli manna með því að egg hans berast inn um munn frá smituðum einstaklingi. 

 Njálgur er sníkjudýr sem lifir í þörmum manna. Ormurinn smitast auðveldlega milli manna með því að egg hans berast inn um munn frá smituðum einstaklingi. Algengast er að eggin berist með fingrum, en einnig geta þau borist frá fötum, sængurfötum, leikföngum og öðrum hlutum, en þau geta lifað við stofuhita í allt að þrjár vikur. Eggin geta einnig svifið um og þannig borist inn um öndunarfærin. Eggin berast niður í smáþarmana þar sem þau klekjast út og ormurinn verður fullþroska á 2-6 vikum. Kvendýrin halda síðan för sinni áfram, jafnan að nóttu til, og út um endaþarmsopið þar sem þau verpa eggjum sínum og hringrásin heldur áfram. Flestir þeirra sem eru smitaðir eru einkennalausir en algengustu einkennin eru kláði við endaþarm síðla kvölds og að nóttu til, eða á þeim tíma sem kvendýrið er á ferli. Það sem veldur kláðanum er annars vegar hreyfing njálgsins og hins vegar límkennd eggin sem festast í húðfellingar við endaþarmsopið.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?
Ef þau ráð sem hér eru gefin koma ekki að gagni.

Hvað get ég gert?
Njálgur er sjaldnast hættulegur, miklu frekar hvimleiður. Njálgur er algengastur hjá börnum á leikskóla- og skólaaldri og endursýking er algeng. Greining er tiltölulega auðveld. Kvendýrið, sem er hvítleitt, þráðlaga og ca. 10 mm að lengd, sést með berum augum í saur og við svæðið kringum endaþarmsopið. Hægt er að greina kvendýrið nokkrum klukkustundum eftir að barnið er sofnað, og áður en það vaknar, en á þeim tíma er kvendýrið á ferli. Eggin sjást hins vegar einungis undir smásjá. Ef njálgur greinist, og ætlunin er að meðhöndla þá smituðu, er mikilvægt að meðhöndla alla fjölskyldumeðlimi og það á sama tíma. Lyfjameðferð ein og sér dugar ekki. Hreinlæti er mikilvægt á meðan á meðferð stendur og skal þvo þá staði og hluti sem líklega geyma egg njálgsins vel og vandlega. Sérstaklega ber að athuga nærföt, sem skal skipta um og þvo daglega, sængurföt, leikföng og klósettsetu. Þvo skal hendur fyrir mat og eftir klósettferðir, snyrta neglur allra, þvo sitjanda daglega og kenna skal barninu að halda fingrum þess og hlutum frá munni og nefi.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?

Vanquin fæst í lausasölu í töfluformi. Lyfið drepur njálg en ekki egg njálgsins. Skammtastærðir eru 1 tafla fyrir hver 10 kg líkamsþunga, hámark 8 töflur. Mikilvægt er að meðhöndla alla fjölskyldumeðlimi og endurtaka skal meðferðina 14 dögum síðar. Börn geta farið í skóla eftir fyrstu meðhöndlun.