Úlfur í sauðagæru

Almenn fræðsla Krabbamein Reykingar

  • Munntobak_01

Mikið hefur verið rætt um munntóbaksnotkun og þá kannski sérstaklega á meðal ungs fólks. En hvernig er staðan? Hversu margir eru að nota munntóbak? Er það ekki margfalt saklausara en reykingar? Kannski ekki, kannski er munntóbak í raun úlfur í sauðagæru. 

Lifið heil kannaði málið og leitaði fanga víða, m.a. hjá Landlækni og Vísindavefnum. Niðurstaðan í stuttu máli er að svo virðist vera að munntóbaksnotkun sé nokkuð útbreidd hér á landi þrátt fyrir að útlent munntóbak sé ekki fáanlegt hér á landi eftir löglegum leiðum. Bæði er að menn finna leiðir til að flytja inn munntóbak frá útlöndum, sérstaklega frá hinum Norðurlöndunum, og svo er verið að taka íslenska neftóbakið í vörina.

Samkvæmt greiningu Landlæknis á munntóbaksnotkun er hún mest á meðal karlmanna frá 18 til 24 ára. Landlæknisembættið framkvæmdi kannanir á notkun tóbaks árið 2012 og svo aftur á síðasta ári. Þróunin hefur verið sú að talsverð aukning er á notkun munntóbaks í yngsta hópnum, 18-24 ára. Árið 2012 neyttu 15% karla munntóbaks daglega en árið 2015 var þessi tala komin upp í 23%. Í aldurshópnum 25-34 er þessi þróun öfug, dagleg notkun fer úr 13% í 7%, sem eru afar góðar fréttir. Notkun á meðal kvenna er enn mjög lág. Það er áhyggjuefni að yngsti hópurinn skuli auka svo mikið neyslu sína að einn af hverjum fjórum körlum á þessum aldri noti munntóbak daglega.

En hversu hættulegt er að taka tóbak í vörina?

Skaðsemi reyklauss tóbaks (hér er átt við munntóbak og neftóbak) byggist annars vegar á eituráhrifum nikótíns í líkamanum og hins vegar á áhrifum annarra eitraðra efna í tóbakinu. Í reyklausu tóbaki eru efni sem vitað er að geta valdið krabbameini og notkun þessa tóbaks virðist geta valdið krabbameini í nefi, munni, hálsi, vélinda, maga og ef til vill víðar. Hætta á krabbameini virðist þó ekki eins mikil og hjá þeim sem reykja.

Talið er að í munntóbaki séu a.m.k. 28 krabbameinsvaldandi efni og sum í meira mæli en í reyktóbaki. Slímhúð þykknar og langvarandi notkun eykur líkur á krabbameini í munnholi og munnvatnskirtlum, einnig í vélinda og ofanverðum meltingarvegi þar sem einhverju af munntóbakssafa er kyngt og tóbakið er líka talið geta valdið krabbameini í brisi.

Fyrir utan hættuna á krabbameini hefur reyklaust tóbak ýmis konar skaðleg áhrif þar sem það er sett. Neftóbak fer mjög illa með slímhúðir í nefi og munntóbak fer sömuleiðis illa með slímhúðir í munni og getur þar að auki valdið tannskemmdum og tannlosi.Munntobak_02

Nikótín

Það sem margir gera sér ekki grein fyrir er að í einum skammti af reyklausu tóbaki er mörgum sinnum meira magn af nikótíni en í einni sterkri sígarettu. Nikótín er eitt kröftugasta fíkniefni sem þekkt er og er sennilega enn meira vanabindandi en efni á borð við heróín og kókaín. Nikótín hefur margvísleg áhrif á líkamann sem öll verður að telja skaðleg. Það örvar hjartað og veldur æðasamdrætti en í sameiningu leiðir þetta til hækkaðs blóðþrýstings og getur þar verið um verulega hækkun að ræða. Hækkaður blóðþrýstingur eykur álag á hjarta og æðar og getur leitt til hjarta- og æðasjúkdóma, meðal annars kransæðasjúkdóms.

Skaðsemin

Ef reynt er að bera saman skaðsemi reyklauss tóbaks og reykinga þá bendir flest til þess að af tvennu illu þá sé hætta á krabbameini minni við notkun reyklausa tóbaksins, en hætta á eiturverkunum nikótíns, einkum hjarta- og æðasjúkdómum, sé jafn mikil eða meiri.

Viltu hætta?

Það er því ljóst að þeir sem neyta munntóbaks og neftóbaks að staðaldri eiga í raun erfiðara með að hætta notkun þess en þeir sem vilja hætta að reykja, vegna hins mikla nikótínmagns í tóbakinu. Það má því með sönnu segja að munntóbak sé úlfur í sauðargæru. Sömu aðferðum hefur þó verið beitt til þess að hætta. Þeim sem hafa áhuga á að hætta notkun munntóbaks er bent á að fá einstaklingsmiðaða aðstoð í síma 800 6030 (ráðgjöf í reykbindindi) alla virka daga milli kl. 17 og 19.

Heimildir: Landlæknisembættir, Vísindavefur Háskóla Íslands, doktor.is