Ofnæmi

Ofnæmi

Mig langar að forvitnast hvort að fólk sé farið að versla inn lyf við frjókornaofnæmi, ég er með ofnæmi en hef aldrei farið í test né til læknis, hef alltaf tekið Lóritín strax þegar sumarið kemur, er alltaf verst í byrjun sumars. Ég er búin að halda að ég sé búin að vera svona kvefuð, eða í rúma viku, brjálað nefrennsli og augnpirringur, lekur endalaust úr augum og nefi. Er samt aðeins farin að halda að þetta sé ofnæmi en ekki kvef. Er búin að vera að taka ofnæmistöflur síðustu daga en er ekkert betri. Hver er munurinn á þessum lyfum sem hægt er að kaupa í apóteki ? Ætti ég að prófa eitthvað annað en Lóritín ?

Einkenni þín koma heim og saman við ofnæmi og ofnæmiskvef. Til er aragrúi af ofnæmislyfjum og er Loritin eitt söluhæsta ofnæmislyfið enda búið að vera á markaði lengi.  

Önnur, nýrri ofnæmislyf verka á svipaðan hátt en eru þó oftast með kröftugri verkun auk þess sem minni líkur eru á að þau valdi syfju. Ég myndi mæla með að þú myndir kaupa þér eitt af þessum nýrri ofnæmislyfjum (Kestine, Nefoxef eða Flynise) og prufa hvort þau hafi verkun umfram Loritin. 

Ef verkunin er ekki nægjanleg eru til ofnæmisaugndropar (Livostin og Zaditen) og ofnæmisnefsprey (Livostin) í lausasölu. Nái töflurnar ekki að bæla niður ofnæmiseinkenni má bæta við öðru hvoru eða hvoru tveggja til að hafa hemil á einkennum.