Kvef

Lausasölulyf

Eftir 10 daga notkun á Otrivin, getur maður skipt yfir í Nezeril þ.s. það á ekki að vera sama lyfið?

Otrivin og Nezeril eru ekki nákvæmlega sama lyfið en þau eru af sama lyfjaflokki og virka mjög svipað, þ.e. valda því að æðar í nefslímhúðinni dragast saman sem aftur minnkar bólgur í nefslímhúðinni og dregur úr slímmyndun. Ef Otrivin/Nezeril er notað í lengri tíma getur viðkomandi einstaklingur fengið langvarandi slímhimnubólgu í nefið sem lýsir sér svipað og kvef. Viðkomandi er þá endalaust með nefrennsli/stíflu í nefi og er kominn í nokkurs konar vítahring. Ég get því ekki mælt með því að nota Nezeril strax á eftir Otrivin (eða öfugt).
Ef sjúkdómseinkenni/kvefeinkenni hafa ekki lagast af 10 daga notkun af annað hvort Otrivin eða Nezeril mæli ég með því að viðkomandi leiti til læknis.