Cystadane

Önnur meltingarfæra- og efnaskiptalyf | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Betaín

Markaðsleyfishafi: Recordati | Skráð: 1. júlí, 2013

Cystadane inniheldur vatnsfrítt betaín sem er ætlað sem viðbótarmeðferð við hómócysteinmigu,sem er arfgengur sjúkdómur (erfðasjúkdómur) sem lýsir sér þannig að amínósýran metíónín brotnar ekki fyllilega niður í líkamanum. Metíónín er til staðar í próteini í venjulegum mat (t.d. kjöt, fiskur, mjólk, ostur, egg). Það breytist í hómócystein sem breytist venjulega í cystein við meltingu. Hómócysteinmiga er sjúkdómur sem verður vegna uppsöfnunar hómócysteins sem breytist ekki í cystein og það myndar sega í bláæðum (blóðtappa), beinþynningu og kvilla í beinagrind og augasteini. Notkun Cystadane ásamt annarri meðferð eins og B6 vítamíni, B12 vítamíni, fólati og sérstöku mataræði miðar að því að draga úr aukinni þéttni hómócysteins.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Duft til inntöku

Venjulegar skammtastærðir:
Notkun lyfsins er undir eftirliti læknis með reynslu í meðferð sjúklinga með hómócysteinmigu. Notið lyfið alltaf eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi. Ráðlagður skammtur fyrir fullorðna er 6 g á dag sem skipt er í tvo 3 g skammta á dag.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Lyfið byrjar strax að verka.

Verkunartími:
Um það bil 24-48 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Duftið á að blanda með vatni, ávaxtasafa, mjólk, þurrmjólk eða fæðu þar til það er alveg uppleyst og neyta þess strax eftir blöndun. Ef tekinn er stærri skammtur en

Geymsla:
Geymið ekki við hærri hita en 25°C. Geymið glasið vel lokað til varnar gegn raka. Eftir að glasið hefur verið opnað á að nota lyfið innan 3 mánaða.

Ef skammtur gleymist:
Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka. Ef þú gleymir að taka skammt skaltu taka hann um leið og þú manst eftir því og taka svo næsta skammt á réttum tíma.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki hætta meðferðinni nema ráðfæra þig við lækninn. Hafðu samband við lækninn eða lyfjafræðing áður en þú hættir að nota lyfið.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Ef þú tekur of mikið af Cystadane fyrir slysni skaltu tafalaust hafa samband við lækni eða lyfjafræðing.

Langtímanotkun:
Lyfið er ætlað til langtímanotkunar


Aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum, þó ekki hjá öllum. Algengasta aukaverkunin við töku Cystadane sem kann að koma fram hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum (mjög algengt) er aukið metíónín í blóði. Metíónín gildi kunna að tengjast bólgu í heila (heilabjúgur) sem kann að koma fram hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum (sjaldgæft). Ef þú finnur fyrir höfuðverkjum á morgnana ásamt uppköstum og/eða sjónbreytingum skaltu tafarlaust hafa samband við lækninn (þetta gætu verið merki um bólgu í heila). Raskanir í meltingarfærum eins og niðurgangur, ógleði, uppköst, ónot í maga, bólga í tungu og tannraskanir koma sjaldan fyrir (kunna að koma fram hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum). Aðrar sjaldgæfar aukaverkanir (kunna að koma fram hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum) geta verið minnkuð matarlyst (lystarstol), óróleiki, þunglyndi, pirringur, persónuleikaröskun, svefntruflanir, hármissir, ofsakláði, óeðlileg húðlykt, skortur á stjórn á þvaglátum (þvagleki).


Milliverkanir

Ekki má taka Cystadane ef þú ert með ofnæmi fyrir vatnsfríu betaíni. Ef þú verður var/vör við aukaverkanir eins og höfuðverk, uppköst eða sjónbreytingar og þú ert með undirgerð hómócysteinmigu sem kallast skortur á cystatíonín beta-syntasa (CBS) skaltu hafa samband við lækninn samstundis, þetta gæti verið merki um bólgu í heila (heilabjúg). Þá mun læknirinn fylgjast með metíónín þéttni í líkamanum og fara yfir mataræðið. Hugsanlega þarf að gera hlé á Cystadane meðferðinni. Ef þú færð Cystadane og amínósýrublöndu og þarft hugsanlega að taka önnur lyf samtímis, þá skaltu láta 30 mínútur líða á milli inntöku.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Meðganga:
Við meðgöngu, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum áður en lyfið er notað. Læknirinn mun taka ákvörðun um það hvort þú getir notað lyfið á meðgöngu.

Brjóstagjöf:
Leita skal ráða hjá lækninum áður en lyfið er notað. Læknirinn mun taka ákvörðun um það hvort þú getir notað lyfið við brjóstagjöf.

Börn:
Hjá börnum yngri en 10 ára er dagskammtur 100 mg/kg/dag, sem skipt er í tvo skammta. Hjá börnum eldri en 10 ára er dagskammtur 6 g á dag mg/kg/dag, sem skipt er í tvo 3 g skammta á dag.

Akstur:
Cystadane hefur engin eða óveruleg áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.