Fimm góð ráð til að undirbúa líkamann fyrir fæðingu

Almenn fræðsla Móðir og barn Nýtt líf – nýtt hlutverk

Inga María Hlíðar Thorsteinson ljósmóðir veitir góð ráð til að undirbúa verðandi mæður líkamlega og andlega undir fæðinguna.

840x300

 1. Aflaðu þér upplýsinga
  Gott er að afla upplýsinga um val á fæðingarstað, hvernig fæðing fer fram og hvaða þjónusta er í boði. Ljósmæður í meðgönguvernd geta bent þér á ýmis námskeið, bækur eða fræðsluefni.
 2. Búðu líkamann undir fæðinguna
  Stundaðu hreyfingu eða æfingar sem hjálpa þér að öðlast vellíðan og slökun, svo sem meðgöngujóga eða meðgöngusund. Göngutúrar, hugleiðsla og slökun hjálpa einnig.
 3. Kynntu þér bjargráð í fæðingu
  Kynntu þér mismunandi leiðir til verkjastillingar og slökunar. Vertu með góðan stuðningsaðila í fæðingunni og ræðið saman hverjar óskir og væntingar ykkar til fæðingarinnar eru.
 4. Tileinkaðu þér jákvæðar hugsanir og jákvætt sjálfstal
  Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða gagnvart fæðingu, en fáðu faglega aðstoð ef kvíðinn er of mikill. Það skiptir sköpum að koma með jákvætt hugarfar inn í fæðinguna því neikvæðni og kvíði helst í hendur. Lestu sögur af fæðingum sem hafa gengið vel. Margar konur sýna mikinn innri styrk í fæðingunni og koma sjálfri sér á óvart.
 5. Leyfðu þér að hlakka til
  Barnið þitt er alveg að koma í heiminn! Fæðing er einhver merkilegasta og eftirminnilegasta upplifun sem fólk gengur í gegnum á ævinni. Leyfðu þér að hlakka til stóru stundarinnar.

Með hlýrri kveðju og von um góða fæðingarupplifun, Inga María Hlíðar Thorsteinson ljósmóðir