Góð ráð til að undirbúa líkama og sál fyrir fæðingu

Almenn fræðsla Móðir og barn Nýtt líf – nýtt hlutverk

Að eiga von á barni og fá það í hendurnar er stórkostleg upplifun. Hér að neðan eru góð ráð frá ljósmæðrum, svefnráðgjafa og næringarfræðingi sem snýr að meðgöngu og ungbarni. Við vonum að ráðin komið þér að góðum notum.

 

 

 

Gott að hafa tilbúið fyrir heimkomu af fæðingardeild

Fyrir barnið

☐ Barnabílstóll með 5 punkta belti
☐ Vagga/rúm, dýna
☐ Sæng fyrir barnið
☐ Rúmfatnaður
☐ Teppi
☐ Barnavagn
☐ Kerrupoki
☐ Fatnaður
☐ 6-8 samfellur eða nærbolir (ull eða bómull)
☐ 3-4 sokkabuxur/leggings
☐ 6-8 síðerma bolir/peysur
☐ 1-2 þykkari peysur
☐ Sokkar - nokkur pör
☐ 3-4 náttgallar
☐ Taubleyjur
☐ Útigalli/hlý útiföt
☐ 1-2 húfur
☐ 4-6 þvottaklútar
☐ Ef barnið á að nota taubleyjur þarf líklega um 48 bleyjur og 4-6 bleyjubuxur
☐ Skiptiborð (eða önnur skiptiaðstaða og skiptidýna)
☐ Einnota bleyjur
☐ Einnota svampar/grisjur
☐ Bómullarhnoðrar
☐ Eyrnapinnar
☐ Hitamælir fyrir barnið
☐ Handklæði

Fyrir mömmuna

☐ Gjafabrjóstahaldari og innlegg í brjóstahaldara
☐ Dömubindi
☐ Handspritt til að hafa á heimilinu

Höfundur: Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Grein fengin af vef ljósmæðra og birt með leyfi, ljosmodir.is

Fimm góð ráð til að undirbúa líkama og sál fyrir fæðingu

 

 1.  Aflaðu þér upplýsinga
  Gott er að afla upplýsinga um val á fæðingarstað, hvernig fæðing fer fram og hvaða þjónusta er í boði. Ljósmæður í meðgönguvernd geta bent þér á ýmis námskeið, bækur eða fræðsluefni.
 2. Búðu líkamann undir fæðinguna
  Stundaðu hreyfingu eða æfingar sem hjálpa þér að öðlast vellíðan og slökun, svo sem meðgöngujóga eða meðgöngusund. Göngutúrar, hugleiðsla og slökun hjálpa einnig.
 3. Kynntu þér bjargráð í fæðingu
  Kynntu þér mismunandi leiðir til verkjastillingar og slökunar. Vertu með góðan stuðningsaðila í fæðingunni og ræðið saman hverjar óskir og væntingar ykkar til  fæðingarinnar eru.
 4. Tileinkaðu þér jákvæðar hugsanir og jákvætt sjálfstal
  Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða gagnvart fæðingu, en fáðu faglega aðstoð ef kvíðinn er of mikill. Það skiptir sköpum að koma með jákvætt hugarfar inn í fæðinguna því neikvæðni og kvíði helst í hendur. Lestu sögur af fæðingum sem hafa gengið vel. Margar konur sýna mikinn innri styrk í fæðingunni og koma sjálfri sér á óvart.
 5. Leyfðu þér að hlakka til
  Barnið þitt er alveg að koma í heiminn! Fæðing er einhver merkilegasta og eftirminnilegasta upplifun sem fólk gengur í gegnum á ævinni. Leyfðu þér að hlakka til stóru stundarinnar. 

Með hlýrri kveðju og von um góða fæðingarupplifun, Inga María Hlíðar Thorsteinson ljósmóðir

Spurt og svarað

Hvernig er best að undirbúa líkamann fyrir þungun?
Líkaminn er best undirbúinn með því að lifa heilsusamlegu lífi, það er borða hollan mat og stunda hreyfingu. Einnig er öllum konum á barneignaraldri ráðlagt að taka inn fólínsýru 400 μg og D-vítamín 15 μg á dag. Ef þú ert á einhverjum lyfjum ættir þú að athuga hvort gera þurfi lyfjabreytingar og ef þú notar tóbak eða nikótín er ráðlagt að reyna að hætta því. Einnig eru minni líkur á fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu hjá konum sem eru í kjörþyngd.

Hvaða matvæli ætti ég að forðast á meðgöngu?
Almennt þurfa konur ekki að gera miklar breytingar á mataræði á meðgöngu. Þungaðar konur ættu að borða venjulegan mat samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði, hafa fæðuvalið fjölbreytt og að mestu leyti hollt. Það eru þónokkrar fæðutegundir sem ætti að forðast, en það eru hrár, grafinn eða reyktur fiskur, hrátt kjöt, hrá egg og hráar baunaspírur. Einnig ætti að forðast ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir úr ógerilsneyddri mjólk (allir íslenskir ostar eru gerilsneyddir). Önnur sjaldgæfari matvæli sem ófrískar konur ættu að forðast eru súrsaður hvalur, þorskalifur, hákarl, sverðfiskur, stórlúða, fýll og fýlsegg. Þau matvæli sem er í lagi að borða einu sinni í viku eru túnfisksteik og búri. Að hámarki má borða túnfisk í dós, svartfuglsegg og hrefnukjöt tvisvar í viku. Síðast en ekki síst er mikilvægt að gæta að hreinlæti við matargerð og skola vel grænmeti og ávexti fyrir neyslu.

Hvaða vítamín á ég að taka?
Þau vítamín sem öllum þunguðum konum er ráðlagt að taka eru fólínsýra 400 μg og D-vítamín 15 μg eða 600 IU. Þessi vítamín er hægt að fá í töfluformi, en einnig fæst D-vítamín úr krakkalýsi eða Omega 3 + D-vítamíni.

Hversu mikla hreyfingu/líkamsrækt ætti ég að stunda?
Þunguðum konum er ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti 30 mínútur á dag. Hafir þú stundað hreyfingu fyrir þungun getur þú haldið þeirri hreyfingu áfram svo lengi sem ekki er hætta á höggum á kúluna. Hvað varðar ákefð er mikilvægt að þú hlustir á líkamann og passir að ofgera þér ekki. Á meðgöngu ætti ekki að vera markmið að setja ný met, heldur að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Hafir þú ekki stundað mikla hreyfingu fyrir þungun er þetta góður tími til þess að byrja á því, en mikilvægt er að þú finnir þér hreyfingu sem þú hefur gaman af og byrjir rólega, til dæmis með því að fara í göngutúra, synda eða stunda jóga.

Hvenær fer ég í sónar og hvað er verið að skoða?
Í eðlilegri meðgöngu fara konur tvisvar sinnum í sónar. Fyrri skoðun er við 12 vikur, þá er meðgöngulengd metin út frá stærð fóstursins og áætlaður fæðingardagur reiknaður. Fjöldi fóstra er athugaður og líkamsgerð fósturs skoðuð eins vel og hægt er á þessum tíma. Einnig er í boði að fá samþætt líkindamat, þar sem líkur á þremur litningagöllum er metinn. Það er gert með því að mæla hnakkaþykkt fósturs í sónarnum og lífefnavísa í blóði móður með blóðprufu. Seinni sónarinn er við 20 vikur, þá er fjöldi fóstra og meðgöngulengd staðfest, staðsetning fylgju og legvatnsmagn metið, auk þess sem fóstrið er skoðað með tilliti til sköpulags- og líffæraafbrigða.

Samdrættir, hvað er eðlilegt?
Samdrættir eiga sér stað þegar kúlan verður hörð án þess að konan finni fyrir verkjum með þeim. Þetta er algengt á síðasta þriðjungi meðgöngu, sérstaklega á kvöldin og er þetta leið legsins til þess að æfa sig og þjálfa fyrir fæðingu. Það getur komið fyrir að konur finni tímabundið fyrir tíðum og reglulegum samdráttum fyrir 37 vikna meðgöngu og jafnvel geta fylgt verkir. Í þeim tilvikum er mikilvægt að konan hætti því sem hún er að gera og fari í algjöra hvíld, drekki vel af vatni og sjái hvort samdrættirnir hætti eða minnki. Ekki er æskilegt að samdrættirnir séu mikið fleiri en fjórir á klukkustund. Ef þeir lagast ekki við hvíld er rétt að hafa samband á áætlaðan fæðingarstað. Eftir 37 vikna meðgöngu getur þú verið róleg yfir tíðum samdráttum því þá ertu gengin fulla meðgöngu samkvæmt skilgreiningu.

Fósturhreyfingar á meðgöngu, hvað er eðlilegt?
Eðlilegt er að byrja að finna hreyfingar við 16-20 vikna meðgöngu. Sumar konur finna þær fyrr, sérstaklega fjölbyrjur og aðrar finna þær seinna. Langflestar konur eru farnar að finna hreyfingar við 24 vikna meðgöngu. Þær aukast síðan jafnt og þétt fram að viku 32, en eftir þann tíma ættu þær að haldast stöðugar fram að fæðingu.

Þegar sér fyrir endann á meðgöngunni og plássið er orðið minna hjá barninu, geta hreyfingarnar breyst og orðið meira að hnoði. Þú finnur fyrir barninu hreyfa sig í staðinn fyrir að finna bein spörk, það er eðlilegt en hreyfingum ætti ekki að fækka.

Mjög misjafnt er milli kvenna hversu mikið þær finna fyrir hreyfingum barnsins. Því er erfitt að segja til um ákveðinn fjölda hreyfinga sem ættu að vera til staðar. Þú ferð að þekkja hversu mikið eðlilegt er fyrir þitt barn að hreyfa sig, oft myndast líka ákveðið mynstur. Barnið hreyfir sig mikið á þessum tíma dags en lítið á öðrum. Ef þú hefur áhyggjur af hreyfingum barnsins, skaltu leggjast niður í algjöra hvíld í um klukkustund og einbeita þér að hreyfingunum. Ef barnið hreyfir sig jafn mikið og það er vant þarftu ekki að hafa áhyggjur, en séu þær minni en vanalega er rétt að hafa samband við ljósmóður.

Hvenær á að hafa samband við fæðingarstað í upphafi fæðingar?
Ef þig grunar að þú sért að byrja í fæðingu skaltu taka tímann frá því að hver hríð byrjar og þar til hún endar, einnig frá því ein hríð byrjar þar til sú næsta byrjar. Einnig er gott að vita um það bil hvenær samdrættirnir byrjuðu að vera reglulegir. Viðmiðunarreglan er sú að tími sé komin að fara á fæðingarstað þegar þrjár til fjórar mínútur eru á milli hríða, hver hríð varir í 45 sekúndur eða lengur og reglulegar hríðar hafa varað í klukkustund eða lengur. Þetta er einungis til viðmiðunar, því líðan konunnar skiptir einnig máli og hvernig henni líður með að vera áfram heima. Hvort hún treysti sér til þess eða finnist öruggara að koma sér á fæðingarstað. Ef vatnið fer eða þig grunar að það hafi farið skaltu einnig hafa samband á fæðingarstað. Ef kollur var skorðaður í síðustu mæðraskoðun er óþarfi að koma með sjúkrabíl. Ef kollur var óskorðaður og mikið legvatn rennur skaltu leggjast niður þar sem þú ert og hringja á sjúkrabíl.

Spítalataskan - Hvað þarf ég að hafa með mér á fæðingarstað?
Það er aðeins mismunandi eftir fæðingarstöðum hvað boðið er uppá fyrir móður og barn. Yfirleitt er boðið uppá sjúkrahúsfatnað fyrir móður ásamt dömubindum. Sumstaðar er boðið uppá bleyjur og jafnvel föt á nýbura, en yfirleitt þurfa foreldrar að taka með sér allar nauðsynjar fyrir nýburann. Móðirin þarf auka föt fyrir sig og föt til þess að fara í heim ásamt hreinlætisvörum. Stuðningsaðili gæti þurft föt til skiptana ásamt hreinlætisvörum.

Hvernig veit ég hvort barnið mitt sé að fá nóg að drekka?
Besti mælikvarðinn á það hvort barnið sé að fá nóg að drekka er að það þyngist vel eða léttist ekki of mikið fyrstu dagana. Langflest börn léttast fyrstu dagana en þau ættu að ná fæðingarþyngd við 1-2 vikna aldur. Ef barnið drekkur 8-12 sinnum á sólarhring er rólegt og sælt eftir gjafir og bleytir að minnsta kosti sex bleyjur á sólarhring (eftir fimm daga aldur), eru yfirgnæfandi líkur á að það sé að fá nóg.

Grein eftir Hafdísi Guðnadóttur ljósmóður.

Svefn ungbarna

 

 1. Reglulegur svefntími (dag- og nætursvefn)
  Best er að svefntímar barna séu þeir sömu alla  daga vikunnar. Kröfur foreldra til barna sinna þurfa  að vera raunhæfir. Skynsamlegt er að foreldrar skoði vökutíma barna ekki síður en svefntíma.
 2. Huggunartæki
  Mörg börn vilja hafa einhvers konar huggunartæki eins og bangsa, teppi eða snuð þegar þau fara að sofa. Ef venja á barn á öryggis- eða huggunartæki þarf að hafa það hjá barninu þegar því líður vel til dæmis þegar barnið er knúsað, það er að drekka,  lesið er fyrir það eða þegar barnið er nuddað.
 3. Fyrir svefn
  Síðasti klukkutíminn fyrir svefn ætti að vera rólegur og notalegur tími. Síðustu mínútur þess  klukkutíma er gott að framkvæma nokkrar athafnir í reglubundinni röð tiul dæmis að lesa, kúra eða drekka og síðan er barnið lagt í rúmið sitt, talað rólega við það eða sungið og því boðið góða nótt.  Setjið barnið syfjað í rúmið sem það á að sofa í, en  ekki þegar það er sofnað.
 4. Sömu aðstæður
  Barnið þarf að sofa við sömu aðstæður og það á að vera í yfir nóttina til dæmis í sama herbergi  og það á að sofa í, í sama rúmi, með sama bangsann og svo framvegis. Einnig er gott að sá sem ætlar að sinna barni fyrir nóttina, leggi það  líka til svefns. Það er eðlilegt að börn rumski yfir nóttina en ef barn rumskar og sér að það er á öðrum stað og hugsanlega við allt aðrar aðstæður en það var við þegar það sofnaði, er mun líklegra að það gráti eða finni fyrir óöryggi eða reiði.

Grein eftir Örnu Skúladóttur barnahjúkrunarfræðing.

Arna Skúladóttir - svefnráðgjöf fyrir yngstu börnin 


Arna Skúladóttir gaf foreldrum barna á fyrsta aldursárinu góð ráð í gegnum lifandi streymi á facebook síðu Lyfju þann 21. apríl 2021. Arna er hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í barnahjúkrun með svefnvandamál sem undirsérgrein. Hún starfar á Barnaspítala Hringsins og hefur tekið á móti þúsundum barna og foreldra sem leitað hafa til hennar með margvísleg svefnvandamál og fyrirspurnir. Árið 2006 sendi hún frá sér bókina Draumaland, svefn og svefnvenjur barna frá fæðingu til tveggja ára og hefur sú bók átt miklum vinsældum að fagna hér heima síðan, hún hefur einnig verið þýdd á fjölmörg tungumál.

Arna gaf einnig út bókina Veganesti árið 2011 sem er um næringu barna fyrstu árin. Á síðasta ári var gefin út endurbætt útgáfa af Draumalandi fyrir 0-6 ára þar sem fjallað er um svefn en einnig um persónugerðir, nánd og margt fleira er snertir uppeldi og þroska.

Undirbúningur fyrir fæðingu á lifandi streymi á facebook

Inga María Hlíðar ljósmóðir gaf góð ráð til að undirbúa líkama og sál fyrir fæðingu á lifandi streymi á facebooksíðu LYFJU miðvikudaginn 12. maí 2021.

Á dögunum gaf hún út sína fyrstu bók „Fæðingin ykkar -handbók fyrir verðandi foreldra“ en í bókinni má finna góð ráð til undirbúnings fyrir fæðinguna. Hún fjallar m.a. um val á fæðingarstað, ferli fæðingar, bjargráð í fæðingu og inngrip í fæðingu. Hún leggur sérstaka áherslu á viðhorf í garð fæðingar sem hefur sterka tengingu við upplifun af fæðingu, auk mikilvægi stuðnings í fæðingu.

 

Mynd við grein: freestocks on Unsplash