Góðar svefnvenjur

Almenn fræðsla Svefn

Dr. Erla Björnsdóttir sem er klínískur sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og sérfræðingur í svefnrannsóknum veitir ráð um góðar svefnvenjur.

  1. Regla á svefninum. Mikilvægt er að fara í rúmi á svipuðum tíma á kvöldin og á fætur á morgnana. Þannig kemst regla á líkamsklukkuna og líkur á svefnvanda minnka.
  2. Stuttur blundur getur hjálpað. Ef mikil dagssyfja er til staðar getur hjálpað að fá sér stuttan blund. Best er að blunda snemma dags (fyrir klukkan 15) og varast skal að sofa lengur en 30 mínútur því þá getur blundurinn haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.
  3. Stunda reglubundna hreyfingu. Reglubundin hreyfing eykur svefngæði. Forðast skal þó mikla hreyfingu minna en þrem tímum fyrir háttatíma.
  4. Hafa hitastig í svefnherberginu sem þægilegast. Of heitt eða of kalt andrúmsloft getur truflað svefninn. Æskilegt er að hafa frekar svalt loft og sofa með opin glugga og vera með gluggatjöld sem útiloka alla birtu.
  5. Borða reglulega og ekki fara svangur/svöng að sofa. Hungur getur truflað svefninn. Létt snarl á kvöldin getur verið skynsamlegt en forðast skal þungar máltíðir rétt fyrir svefninn.
  6. Takmarka skjánotkun á kvöldin. Skjánotkun á kvöldin hefur slæm áhrif á svefn og æskilegt er að sleppa allri skjánotkun síðustu tvær klukkustundirnar fyrir svefn.
  7. Rólegar kvöldvenjur. Mikilvægt er að gíra sig niður á kvöldin og koma líkama og sál í ró. Gott er að dempa ljós, leggja frá sér skjátæki og eiga rólega stund, t.d að lesa, fara í heitt bað eða hlusta á rólega tónlist áður en farið er að sofa.
  8. Neyta koffeins í hófi. Koffein er örvandi og hefur slæm áhrif á svefn. Koffein er lengi í líkamanum og mikilvægt er takmarka neyslu koffeins og forðast alla koffein neyslu eftir klukkan 14.00 á daginn.
  9. Nota rúmið eingöngu fyrir svefn. Mikilvægt er að takmarka alla óþarfa vöku í rúminu. Sjónvarp, talva og snjalltæki ættu ekki að vera í svefnherberginu.
  10. Forgangsraða svefni. Svefn er ein mikilvægasta grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu og mikilvægt er að setja svefninn í forgang og tryggja að fá að jafnaði nægan nætursvefn.

Kynntu þér fleiri góð ráð og aðra fræðslu um svefninn hér

Í samstarfi við dr. Erlu Björnsdóttur sem er klínískur sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og sérfræðingur í svefnrannsóknum auk annarra svefnsérfræðinga hjá Betri Svefn viljum við hjá Lyfju hjálpa þér að sofa betur.

Recommended_sleep_chart_16475965582171350x350_svefn