Húðin og húðlyf

Almenn fræðsla Húð

Húðin er stærsta líffæri líkamans og í henni finnast m.a. æðar, taugaendar, svitakirtlar, hársekkir o.fl. Hún er í 3 lögum (yfirhúð, leðurhúð og undirhúð). Mikilvægt er að passa vel uppá húðina og vernda hana eins og hægt er svo hún geti sinnt margvíslegum hlutverkum sínum.

Húðin gegnir margvíslegum hlutverkum en þau helstu eru:

  • Hún veitir vernd gegn ýmsu utanaðkomandi áreiti og kemur í veg fyrir að ýmsir sýklar (bakteríur, sveppir eða veirur) komist inn í líkamann. Ef húðin er ekki heil eiga sýklar greiðan aðgang inn í líkamann. Hún verndar okkur gegn vökvamissi, verndar okkur frá geislum sem gætu skaðað innri vefi líkamans (með litarefnaframleiðslu í húð), þó er mikilvægt að nota sólarvörn til að vernda húðina enn frekar gegn geislum og bruna.
  • Hún hjálpar okkur að stjórna líkamshitanum í gegnum svitakirtla og æðar í húðinni.
  • Hún hjálpar okkur að skynja hita, kulda, þrýsting, snertingu og verki í gegnum taugaenda í húðinni. Hún veitir þannig vörn gegn skaða með því að láta líkamann vita ef eitthvað er okkur hættulegt og þörf er á að varast eða koma sér úr aðstæðum fljótt.
  • Hún er okkar aðal uppspretta af D-vítamíni gegnum framleiðslu á D-3 vítamíni í yfirhúð.

Almenn húðumhirða:

  • Forðast mikla sól og nota sólvörn eða verndandi fatnað
  • Þvo húð reglulega með mildri sápu og vatni
  • Láta fylgjast með fæðingarblettum
  • Nota góð rakakrem til að fyrirbyggja sprungur og sáramyndun vegna þurrks (helst án ilmefna).

Sjúkdómar/kvillar í húð:

  • Útbrot, þau geta verið vegna ertingar í húð en geta líka verið vegna sjúkdóma (sýkinga, ofnæmis o.fl.)
  • Húðbólga (dermatitis)
  • Ofnæmishúðbólga (atopic dermatitis)
  • Exem, bólga í húð sem veldur kláða og útbrotum vegna ofvirkni í ónæmiskerfinu
  • Psoriasis, sem er vegna sjálfsónæmis og veldur útbrotum í húð þar sem húðin verður skellótt og hreistruð
  • Acne, graftarbólur sem stundum þarfnast lyfjameðferðar. 85% af fólki fær þetta á ákveðnum tímabilum í lífinu
  • Rosroði, rauð útbrot í andliti sem geta aðeins líkst acne
  • Ristill, vegna hlaupabóluveirunnar (herpes zoster), útbrot á öðrum helmingi líkamans, aðallega á bol
  • Kláðamaur, einkennni aðallega á fingrum, úlnliðum, olnbogum og rasskinnum
  • Margt fleira eins og vörtur, húðkrabbamein (melanoma), herpes, veirusýkingar (valda oft útbrotum sérstaklega hjá börnum), ofnæmi o.fl.
    Hvenær ætti að leita læknis vegna kvilla í húð?
  • Ef einkenni eru um mikla bólgu í húð (roði, hiti í húð, þroti, verkir o.fl.)
  • Ef einkenni eru um sýkingu (gröftur, hiti í húð, þroti, verkir)
  • Við slæm ofnæmisviðbrögð (kláði, ofsakláði, roði, útbrot, hiti í húð)
  • Við óeðlilega fæðingarbletti (eða breytingar á þeim) t.d. með óreglulega lögun, stækkandi eða með sárum/verkjum eða kláða í þeim
  • Við hnúða í húð eða litabreytingar í húð

Lyf á húð:

Ýmis lyf eru notuð við húðsjúkdómum en algengustu lyfin eru bólgueyðandi sterar sem eru m.a. til sem krem, smyrsli og fljótandi áburðir. Þeir draga úr virkni ónæmiskerfisins í húð sem hemur bólguviðbrögð, dregur úr kláða o.fl. óþægindum í húð. Þeir eru til í mismunandi styrkleikum (flokkaðir í flokka 1-4 þar sem 4 eru sterkustu sterarnir). Hægt er að kaupa daufustu sterana (flokkur 1) án lyfseðils (hydrocortison). Sterar eru notaðir við ýmsum tegundum af exemi, skordýrabitum, ofnæmiskláða í húð, psoriasis, miklum þurrki í húð o.fl. Sterar eru stundum blandaðir öðrum lyfjum eins og bakteríudrepandi lyfi, sveppalyfi o.fl.

Flokkun stera:

  • Flokkur 1- Sterar með væga verkun (Mildison Lipid®/Hydrocortison Evolan ®)
  • Flokkur 2- Sterar með meðalsterka verkun (Locoid ®, Locoid Lipid ®, Locoid crelo®)
  • Flokkur 3- Sterar með sterka verkun (Betnovat ®, Synalar ®, Elocon ®, Ovixan ®, Flutivat ®)
  • Flokkur 4– Sterar með mjög sterka verkun (Dermovat ®)

Sterar eru yfirleitt bornir á húð í jöfnu, þunnu lagi 1-2svar á dag. Smyrsli eru sett á þurra hreistraða eða sprungna húð. Krem eru sett á húð sem er ekki mjög þurr eða á rök húðsvæði eða svæði sem vætlar úr. Húðlausn er t.d. sett á hærð svæði á líkamanum.

Ekki má setja stera á opin sár og passa þarf að sterar berist ekki í augun (þvo hendur eftir notkun). Sýna þarf varkárni þegar stór húðsvæði eru meðhöndluð í lengri tíma (sérstaklega hjá börnum þar sem hætta er á bælingu á starfsemi nýrnahettubarkar m.a. hjá yngri en 12 ára eftir langvarandi meðferð á sterkum sterum).

Oftast eru sterar notaðir í kúrum í ákveðinn tíma (sterkustu ekki lengur en 2-4 vikur í senn) eða í eins stuttan tíma og hægt er, þar til bati næst. Síðan má skipta yfir í daufari stera eða nota mýkjandi góð krem inn á milli. Passa þarf að reyna að fyrirbyggja húðþurrk þar sem þurr húð er auðertanlegri og veldur frekar kláða.

Sterar geta valdið húðrýrnun eftir langvarandi notkun, sérstaklega í andliti, kynfærum og á innanverðum hand- og fótleggjum (viðkvæmustu staðirnir). Þeir geta valdið flögnun á húð, víkkun æða og aukið hárþykkt og hárlengd staðbundið þar sem þeir eru bornir á húð. Sterar geta valdið bólum vegna áhrifa á hársekksfrumur og aukins styrks á fitusýrum á yfirborði húðar. Frábending við notkun eru bakteríusýkingar þar sem bólgueyðandi og æðaherpandi áhrifin geta falið sýkinguna og frestað greiningu og meðferð sýkingarinnar.

Sterar eru ekki notaðir á meðgöngu eða við brjóstagjöf nema í samráði við lækni (áhrif á barn við brjóstagjöf eru ólíkleg við notkun á sterum í flokki 1 en betra er að ráðfæra sig við lækni).

Ráð fyrir þurra/exem/vandamála húð:

  • Fólk er yfirleitt verra á veturna en á sumrin og húðin lagast oftast mikið í sól og hita (nota samt sólvörn ). Hægt er að bæta loftgæðin heima með rakatæki (á veturna er loftið þurrara, bæði úti og inni)
  • Ekki liggja lengi í baði (ekki lengur en 5-10 mín) og ekki vera lengi í sturtu. Nota frekar volgt vatn en heitt. Hægt er að nota baðolíur (ilmefnalausar) til að mýkja vatnið. Húðin tapar fitulagi og raka við mikla böðun. Betra er að fara í stutta sturtu en að liggja í baði lengi
  • Nota mildar ilmefnalausar sápur og lítið af þeim
  • Gott er að bera á sig gott rakakrem eftir bað/sturtu eða eftir handþvott, þá helst raki betur í húðinni
  • Mikilvægt er að drekka nóg af vökva yfir daginn (ekki koffeindrykki, þeir eru vatnslosandi)
  • Nota ilmefnalaust þvottaefni og forðast mýkingarefni í þvotti
  • Forðast að vera að vera í ullarfötum eða einhverju sem ertir húðina

Lyfja mælir með:
Ýmis góð krem eru til við húðvandamálum, sem nota má t.d. þegar hlé er gert á notkun stera á húð og til að halda húðinni góðri svo hægt sé að komast af með minna af sterum á húð. Þau eru einnig notuð við miklum þurrki í húð. Fólk þarf oft að prófa sig áfram og finna hvað hentar því þar sem mismunandi er hvað hentar hverjum og einum. Meðal annars má nefna eftirfarandi (alls ekki tæmandi listi):


Krem