Hvað er breytinga­skeiðið?

Almenn fræðsla Breytingaskeið

Allar konur ganga í gegnum tíðahvörf en það er þegar blæðingar stöðvast. Um er að ræða náttúrulegt ferli sem allir einstaklingar sem fæðast með eggjastokka ganga í gegnum á einhverjum tímapunkti. 

Það getur gerast af náttúrulegum orsökum þegar eggjastokkarnir hætta að framleiða egg og þar með stöðvast framleiðsla hormóna í eggjastokkunum eða ef eggjastokkarnir eru fjarlægðir eða eyðileggjast af öðrum ástæðum t.d við lyfja-eða geislameðferð t.d vegna krabbameins.

Tíðahvörf eru í raun afturvirk greining sem fylgir í kjölfar tímabils sem sem hefur staðið yfir í lengri tíma en samkvæmt skilgreiningu er kona komin í tíðahvörf þegar ár er liðið frá síðustu blæðingum. Meðalaldur við tíðahvörf eru um 51 ár og tíminn fram að því kallast breytingaskeið. Breytingaskeiði fylgja flöktandi hormónagildi sem geta staðið yfir í mörg ár. Ýmis sállíkamleg einkenni geta komið fram en þau geta verið óljós og því vangreind, ekki tekin alvarlega og oft ekki meðhöndluð sem skyldi. Einkenni eins og þreyta og orkuleysi, heilaþoka, hita og svitakóf geta haft áhrif á líf kvenna bæði innan og utan heimilis, samskipti og atvinnuþátttöku. Það er því mikilvægt bæði fyrir konurnar sjálfar, aðstandendur, vinnuveitendur og samfélagið allt að auka fræðslu og þekkingu um breytingaskeiði kvenna og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að konur geti farið í gegnum þetta tímabil á sem bestan máta.

Það er algengur misskilningur að blæðingarstopp sé fyrsta einkenni breytingaskeiðs. Oftast er það alls ekki raunin heldur er blæðingastoppið sjálft eitt það síðasta sem gerist. Einkenni breytingaskeiðs geta komið fram allt að 7-10 árum áður en blæðingar hætta. Það þýðir að konur geta farið að finna fyrir einkennum á fertugsaldri eða þegar þær eru komnar á fimmtugsaldur. Fyrstu einkenni breytingaskeiðs eru oft smávægileg breyting á tíðahringnum, hann styttist um
nokkra daga eða blæðingar aukast eða minnka. Kona getur verið með einkenni breytingaskeiðs þó hún sé ennþá með reglulegar blæðingar. Stundum fara konur að finna fyrir versnandi fyrirtíðaspennu, mígreni og jafnvel nætursvita, sérstaklega rétt fyrir blæðingar.

Helstu hormónin sem um ræðir eru estrogen (estradiol), progesterone og testosterone. Estrogen og progesterone vinna saman við stjórnun tíðahringsins. Í öllum okkar líffærakerfum er að finna frumur sem hafa hafa viðtaka fyrir þessum hormónum. Þau hafa því víðtæk áhrif útum allan líkama. Estrógen hefur m.a. áhrif á bein, andlega líðan, minni, húð, hár ofl. Líkaminn er vanur að hafa visst magn af þessum hormónum og þegar magn þeirra fer að flökta og minnka geta því
komið fram hin ýmsu sállíkamlegu einkenni. Sumar konur finna mikið fyrir þessu tímabili en aðrar finna lítið fyrir því. Almennt er talað um að um 80% kvenna finni einhver einkenni.

Þó meðalaldur við tíðahvörf sé um 51 ár eru margar konur sem hætta mun fyrr á blæðingum. Ef tíðahvörf verða fyrir 45 ára er talað um snemmkomin tíðahvörf en ef tíðahvörf verða fyrir 40 ára aldur er talað um ótímabæra vanstarfsemi eggjastokka. Mikilvægt er að greina þessi tilfelli svo að hægt sé ræða meðferðarmöguleika. Ef eggjastokkar eru fjarlægðir með aðgerð eða eyðileggjast af öðrum orsökum, t.d við lyfja- eða geislameðferð vegna krabbameins, gengur konan í gegnum tíðahvörf í kjölfarið.

Áhrif estrogens á líkamann

  • Heili - stýrir líkamshita, minni, kynhvöt
  • Hjarta - stýrir hjartslætti, lækkar kolesteról, heldur æðaveggjum heilbrigðum
  • Lifur - hefur áhrif á kólesterólgildi
  • Bein - viðheldur styrk beina
  • Húð - stýrir framleiðslu collagens, viðheldur teygjanleika og raka
  • Liðir og vöðvar - minnkar bólgur, viðheldur vöðvastyrk, teygjanleika og smurningu liða.
  • Meltingarkerfi - viðheldur starfsemi, hefur áhrif á þarmaflóruna
  • Taugakerfi - hefur áhrif á leiðni taugaboða
  • Þvagfærakerfi - minnkar líkur á sýkingum, viðheldur starfsemi
  • Kynfæri/leggöng - kemur í veg fyrir ofvöxt baktería (bacterial vaginosis) viðheldur raka og teygjanleika slímhúða

Einkenni á breytingaskeiði

Andleg vanlíðan, áður óþekktur kvíði eða depurð, svefntruflanir, orkuleysi, einbeitingarskortur, heilaþoka, augnþurrkur, eyrnasuð, hjartsláttartruflanir, hita og svitakóf, skapsveiflur, óreglulegar blæðingar, hármissir, húðþurrkur, húðkláði, versnandi höfuðverkur, aukin fyrirtíðaspenna, liðverkir, vöðvaverkir, þrálátar þvagfærasýkingar, leggangaþurrkur, minnkuð kynhvöt, sársauki við samfarir ofl.

Hvernig greinum við breytingaskeiðið?

Ef þú ert 45 ára eða eldri með óreglulegar blæðingar og dæmigerð einkenni breytingaskeiðsins ætti ekki að þurfa rannsóknir til að greina breytingaskeiðið. Ef þú ert undir 45 ára og sérstaklega ef þú ert yngri en 40 ára og með blæðingaóreglu og breytingaskeiðseinkenni er mælt með að taka blóðprufur til að útiloka aðra kvilla. Hormónamælingar á þessu tímabili eru mjög óáreiðanlegar þar sem hormónagildi sveiflast mikið og geta gefið falskt eðlileg gildi og því ekki mælt með að gera þær nema í sérstökum tilfellum.

Hormónauppbótarmeðferð

Það eru til ýmsir meðferðarmöguleikar til að draga úr íþyngjandi einkennum breytingaskeiðs. Fyrsta skrefið er að skrá vel einkennin og leita til heilbrigðisstarfsmanns sem er vel að sér í einkennum á breytingaskeiði. Hann getur veitt ráðgjöf og fræðslu um hvaða möguleikar eru í boði og aðstoðað við að taka upplýsta ákvörðun um hvað hentar best.

Ein leið til að slá á einkenni breytingaskeiðs er að nota hormónauppbótarmeðferð. Það er meðferð með hormónum sem ætlað er að jafna út hormónasveiflurnar og bæta upp hormónaskortinn sem verður á breytingaskeiðinu og eftir tíðahvörf. Ávinningurinn er hvað mestur ef byrjað er á hormónum áður en blæðingarnar hætta alveg eða amk innan 10 ára frá tíðahvörfum. Þekking er að aukast um virkni þessarar hormónauppbótameðferðar og jákvæð áhrif hennar á heilsu kvenna til framtíðar. Þrátt fyrir að það sé vitað að hormónin virki vel og séu örugg meðferð fyrir flestar konur er aðeins 10-20% kvenna sem notast við hana vegna einkenna
breytingaskeiðs.

Hormónin er hægt að taka inn í töfluformi eða sem gel eða plástur í gegnum húð. Þau eru  lyfseðilsskyld og því þarf að fá þau í gegnum lækni. Hormónin sem um ræðir eru:

  • Estrógen sem gegnir mikilvægu hlutverki í svo til öllum líffærakerfum líkamans, m.a heila, hjarta, beinum, húð, hári og leggöngum. Estrógen er hægt að fá sem gel, plástur eða töflur. Öruggasta leiðin er að fá estrógen í gegnum húðina í gelformi eða sem plástur en þannig fer estrógenið beint í gegnum húðina út í blóðið. Sé estrógen tekið í töfluformi er það tekið upp í gegnum meltingarveginn og þaðan gegnum lifrina þar sem það getur virkjað  storkukerfið okkar og þar með er aðeins aukin hætta á blóðtappa.
  • Prógesterón sem hefur það hlutverk að stýra tíðahringnum okkar. Það er notað sem hluti af hormónauppbótarmeðferð hjá konum sem eru með leg. Estrógen örvar slímhúð í legholi og veldur því að hún þykknar. Í sumum tilfellum getur estrógen eitt og sér valdið ofvexti slímhúðar í legi sem getur leitt til frumubreytinga og í sjaldgæfum tilfellum til krabbameins í legi. Þess vegna er mikilvægt fyrir konur með leg að taka prógesterón líka til að koma í veg fyrir ofvöxt slímhúðarinnar. Öruggasta leiðin til að taka prógesteróne er að taka svokallað mikroniserað prógesterón en það er hvað líkast því prógesteróni sem myndast í líkama okkar og hefur þ.a.l. minni aukaverkanir og er öruggara hvað varðar hættu á brjóstakrabbameini. Hér á íslandi heitir það utrogest/utrogestan en það eru töflur sem eru  teknar með glasi af vatni að kvöldi. Annar möguleiki er að fá Mirena hormónalykkju. Hún dugar í 5 ár og virkar líka sem getnaðarvörn ef þörf er á því. Prógesterón er einnig hægt að fá sem framleidd prógestógen í töfluformi. Rannsóknir sýna að notkun þeirra fylgi aðeins  aukin hætta á brjóstakrabbameini. Sú aukning samsvarar þeirri auknu hættu á  brjóstakrabbameini sem fylgir því að drekka tvö vínglös á dag eða vera í yfirþyngd. Sumar konur kjósa samt sem áður að nota hormóna í töfluformi eða samsetta plástra sem innihalda tilbúin prógestógen því það er ekkert eitt sem hentar öllum. Mikilvægt er að eiga samtal um  hættur og ávinning af meðferð og að kona sé upplýst um aðeins aukna áhættu tengda þessari tegund af hormónameðferð til að geta valið meðferð sem hentar best hverju sinni.
  • Testósterón er ekki bara karlhormón heldur framleiða eggjastokkar kvenna talsvert magn af testósteróni líka. Testósterón gegnir ýmsum hlutverkum í líkama kvenna og í sumum tilfellum getur kona haft gagn af testosterón viðbót ef ekki næst ásættanlegur bati með estrógeni og prógesteroni.

Leggangaþurrkur og þvagfæraeinkenni

Hormónið estrógen viðheldur heilbrigði slímhúð í leggöngum og þvagfærakerfi. Það viðheldur  raka og teygjanleika og stuðlar auk þess að eðlilegri legganga flóru og verndar gegn ýmsum sýkingum. Á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf þegar estrógen gildin lækka geta komið fram ýmis óþægindi frá leggöngum og þvagrás. Þessi einkenni geta versnað með tímanum og valda konum oft miklum óþægindum eftir tíðahvörf. Staðbundin estrógen meðferð er best við einkennum frá kynfærum og þvagfærum. Þessi meðferð er mjög örugg, eykur ekki hættu á krabbameini eða blóðtappa og óhætt að halda meðferð áfram svo lengi sem hver kona vill og hefur ávinning af meðferðinni. Hægt er að nota hana samhliða hormónauppbótarmeðferð eða  eina og sér. Þessi meðferð er lyfseðilskyld og fæst í gegnum lækni, t.d heimilislækni eða kvensjúkdómalækni. Hægt er að fá töflur sem heita vagifem, sem settar eru upp í leggöng á hverjum degi fyrstu 14 dagana og eftir það 2-3 sinnum í viku. Einnig er hægt að fá mjúkan sílikonhring, sem hér heitir estring, sem settur er upp í leggöng og gefur þar frá sér estrógen í 90 daga og því þarf að fjarlægja hann og setja nýjan á þriggja mánaða fresti. Ef kona treystir sér ekki til að skipta sjálf er hægt að fá lækni eða hjúkrunarfræðing t.d á heilsugæslunni til að fjarlægja þann gamla og setja nýjan hring upp. Auk þessa eru til estrógen krem sem hægt er að
bera á sig, t.d ovestin. Ýmis Rakagefandi krem og sleipiefni geta líka komið sér vel og duga mörgum konum. Þau fást án lyfseðils.

Aðrir meðferðarmöguleikar

Það eru margar leiðir til að bæta líðan á breytingaskeiði og ekkert eitt sem hentar öllum. Á þessu tímabili er mikilvægt að viðhalda heilbrigðum lífsstíll og huga að mataræði þar sem ákveðnar fæðutegundir og drykkir geta haft áhrif á einkenni. Regluleg hreyfing er góð fyrir andlega og líkamlega heilsu, léttir lund, eykur orku og hefur jákvæð áhrif á heilbrigði beina og hjarta- og æðakerfis.

  • Hugræn atferlismeðferð hjá sálfræðingi getur hjálpað sumum. Aðrar leita í óhefðbundnar aðferðir eða náttúrulyf. Til eru allskonar bætiefni og náttúrulyf sem hafa verið markaðssett með það í huga að bæta einkenni kvenna á breytingaskeiði. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum efnum og eru áhrifin yfirleitt sambærileg við lyfleysu. Athugið að þó bætiefni séu náttúruleg eru þau ekki endilega án aukaverkana.
  • Önnur lyfseðilsskyld lyf eru stundum notuð til að slá á einkenni ef frábending er fyrir hormónameðferð. Þá er átt við þunglyndislyf, gabapentin, clonidine eða betablokkera. Heimilislæknir eða kvensjúkdómalæknir geta veitt frekari upplýsingar um meðferðarmöguleika.

Svefn

Svefntruflanir eru algengt vandamál hjá konum á breytingaskeiði. Ástæðan fyrir truflun á svefni á þessum tíma eru m.a hitakóf, svitakóf, tíð þvaglát, liðverkir, hjartsláttartruflanir og kvíði. Flest þessara einkenna má tengja flöktandi hormónaframleiðslu, en hormónin estrógen, prógesteron og testósterone hafa jákvæð áhrif á bæði gæði og lengd svefns. Góðar svefnvenjur skipta líka miklu máli fyrir góðan svefn.

Mikilvægt er að byggja upp svefnþrýsting frá því að við vöknum á morgnana þangað til við förum að sofa á kvöldin, þættir sem hjálpa til við það eru t.d að fara út í dagsljósið fljótlega eftir að þú ferð á fætur, regluleg hreyfing og hafa vökutímann sem lengstan. Þættir sem geta haft neikvæð áhrif á svefn þrýstingi eru t.d að leggja sig á daginn, að sofa út um helgar, fara í rúmið fyrr en venjulega, of mikið koffín og streita.

Áhrif á heilsu til framtíðar

Skortur á kynhormónum veldur ekki bara þessum þrálátu einkennum sem nefnd hafa verið hér að ofan og margar konur upplifa. Kynhormónin, sérstaklega estrógen, eru mikilvæg fyrir líkamsstarfsemi okkar og eftir tíðahvörf þegar hormónagildin lækka, eykst hætta á að konur þrói með sér hina ýmsu sjúkdóma s.s. beinþynningu, hjarta- og æðasjúkdóma ofl.

Estrógen styrkir beinin en með lækkandi estrógengildum á breytingaskeiðinu verða konur útsettari fyrir beinþynningu en karlar. Beinþynning er ástand sem veikir beinin og eykur líkurnar á því að þau brotni. Konur missa allt að 10% af beinþéttni sinni á fyrstu 5 árunum eftir tíðahvörf. Aðrir þættir sem hafa áhrif á beinþéttnina er fjölskyldusaga, reykingar og mikil áfengisdrykkja.

Estrógen tekur þátt í að halda æðum líkamans heilbrigðum og teygjanlegum og hefur jákvæð áhrif á kólesterólgildi. Flöktandi gildi estrógens í líkamanum eykur líkur á sjúkdómum sem snerta hjarta og æðakerfi líkamans t.d kransæðasjúkdóma, heilablóðföll og elliglöp. Aðrir þættir  sem auka líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum eru háþrýstingur, reykingar, offita og fjölskyldusaga. Estrógen gegnir einnig mikilvægu hlutverki í starfsemi heilans. Konur eru mis næmar fyrir því þegar estrógen lækkar en margar upplifa áberandi einkenni sem hafa áhrif á lífsgæði þeirra. Þetta getur t.d verið minnisleysi, einbeitingarskortur, erfiðleikar við að taka við upplýsingum. Þetta getur haft áhrif á starfsgetu kvenna og einfaldar athafnir daglegs lífs eins og t.d að lesa bók eða hlusta á útvarp. Sumar konur upplifa minnkað sjálfstraust í tengslum við þetta og hætta t.d. til að treysta sér til að keyra sjálfar og annað sem þær hafa gert áður. Hjá sumum konum verða þessi einkenni það hamlandi að konur geta ekki hugsað sér að lifa við þessar aðstæður og fá jafnvel sjálfsvígshugsanir.

Það er mikilvægt að auka þekkingu um þetta stóra breytingatímabil. Fræðslu þarf að auka og opna umræðuna um breytingaskeiðið. Það er mikil valdefling í því falin að konur skilji hvað er að gerast á þessu tímabili og af hverju það gerist. Auk þess að vita að það er hægt að fá samtal og hjálp. Þetta er ekki bara hjálplegt fyrir konurnar sjálfar og fjölskyldur þeirra heldur einnig fyrir samfélagið og atvinnulífið því konur sem fá tíð og flókin einkenni, sem þær jafnvel skilja ekki til fulls, virðast í mörgum tilfellum detta út af vinnumarkaði í styttri eða lengri tíma, vegna vangreiningar eða mismunagreininga og rangrar meðferðar. Ef kona veit hvað er að gerast og afhverju, hvað breytingaskeiðið er, hver einkennin geta verið, hvaða meðferð er í boði er hún betur í stakk búin til að taka ábyrgð á eigin lífi, leita sér aðstoðar og meðferðar við hæfi og gera lífstílsbreytingar sem geta skipt sköpum fyrir andlega líðan og heilsu til framtíðar.

Mynd: Kat Med on Unsplash

 

Höfundur: Hanna Lilja Oddgeirsdóttir sérnámslæknir í kvensjúkdóma- og fæðingarlækningum