Hvað er rósroði?

10 góð ráð við rósroða

Almenn fræðsla Húð

Rósroði er mjög algengur bólgusjúkdómur í húð sem lýsir sér oftast með roða, bólum, graftrarbólum æðaslitum og stundum þrota í andliti. Einkenni sjúkdómsins ganga venjulega í köstum og stundum versna einkennin eftir hver kast. Það er því mikilvægt að hefja meðferð snemma til þess að stemma stigu við frekari þróun sjúkdómsins. Meðferðin er fjölþætt og beinist að bæði æða og bólguþættinum.

 10 góð ráð til að meðhöndla rósroða áður en leitað er til læknis:

Dr. Jenna Huld Eysteinsdóttir, sérfræðingur í húðsjúkdómalækningum, Húðlæknastöðinni

  1. Notaðu breiðvirka sólarvörn með a.m.k. SPF 30. Sólin getur haft mikil áhrif á rósroða og gert hann verri. Sólarvörnin hjálpar mjög mikið og á mikilvægt að velja sólarvörn fyrir olíukennda og viðkvæma húð. Mælum einnig með steinefna sólarvörn til að nota allan ársins hring til að nota í útivist á veturnar þar sem mikið mæðir á húðinni, bæði vindur og frost. Sólarvörn ver okkur ekki bara fyrir sólinni, í raun húðvörn allan ársins hring.
  2. Ekki fara í ljós. Útfjólubláu geislarnir í perum lampanna eru alveg jafnskaðlegir og geislar sólarinnar, stundum jafnvel verri. Notaðu frekar brúnkukrem
  3. Þrífðu húðina kvölds og morgna með mildum hreinsi. Flestar húðvörulínur í dag eru með sérstaka rósroða línu sem ætti að auðvelda valið. Mikilvægt er að hreinsa burt förðunarvörur, óhreinindi, sólarvörn og mengun sem situr á húðinni yfir daginn og ýta undir frekari skemmdir á húðfrumum.
  4. Notaðu rakakrem daglega sem hentar rósroða. Þá er best að nota olíulaus rakakrem eins og gel eða serum. Ef það dugar ekki til þá setja tvöfaldan raka, serum og svo rakakrem sem er „non-comedogenic“, þeas með það léttar olíur að þær loka ekki húðinni.
  5. Forðastu virkar húðvörur (t.d. anti-aging vörur) ef þú ert með mikil einkenni þar sem húðin er þá mjög viðkvæm. Virkar húðvörur eru ekki óalgeng orsök fyrir versnun á rósroða. Sem dæmi eru það retinól, glycolic sýra (AHA) og mjólkursýra (lactic sýra).
  6. Ekki skrúbba húðina eða nota kornamaska þar sem það getur ert húðina og gert rósroðann verri.
  7. Ef bólga/bólur í húðinni þá meðhöndla húðina með metronidazol kremi (Rosazol) á hverju kvöldi þar til bólgan hverfur.
  8. Drekktu vatn og borðaðu hollan mat. Áfengi, sterkur matur og mikill sykur geta gert rósroðann verri.
  9. Fáðu nægan svefn og dragðu úr streitu. Rannsóknir hafa sýnt að streita getur haft slæm áhrif á rósroða. Ef þessi ráð hjálpa ekki og húðin jafnvel versnar er mikilvægt að hitta húðlækni fyrr en síðar.
  10. Ef þessi ráð duga ekki til þá er kominn tími til að leita til annað hvort heimilislæknis eða húðlæknis. 

Innihaldsefni sem fást án lyfseðils sem vert er að skoða fyrir rósroða

 

  • Azelaic sýra
    Lífræn sýra unnin úr hveiti, byggi og rúgur. Er bakteríudrepandi og eykur hraða frumuskiptinga í húðinni. Örugg að nota á meðgöngu. Hefur einnig væg áhrif á litabreytingar í húðinni. Róar erta húð og er bólgueyðandi og því hentar hún vel í rósroða en getur einnig hjálpað við þrymlabólum (acne).
  • Metronidazol (Rosazol)
    Lyf sem bælir niður húðmaur (Demodex) sem lifir á húð okkar allra og yfirleitt í sátt og samlyndi. Húðmaurinn getur aftur á móti stundum valdið bólgum og bólum í rósroða og þá virkar þetta lyf mjög vel. Fæst án lyfseðils í apótekum.

ATH! ekki nota neinar virkar húðvörur ef mikil einkenni er til staðar.

Innihaldsefni sem vert er að skoða til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar ef rósroði er til staðar

 

  • Andoxunarefni

Minnka myndun sindurefna í húðinni en það eru efni sem hraða öldrun húðarinnar með niðurbroti á kollageni og skemmdum á húðfrumum

  1. C- vítamín
    Minnkar sólskaða í húð vegna útfjólublárrar geislunar, örvar kollagen nýmyndun og lýsir húðina og vinnur þannig gegn litabreytingum í húðinni.
  2. E-vítamín
    Fituleysanlegt andoxunarefni sem verndar frumuhimnur frá árásum sindurefnum
  3. Ferrulic sýra
    Andoxunarefni í plöntum og er unnið úr byggi. Hlutleysir sindurefni, drekkur í sig útfjólubláa geislun og er bólgueyðandi 
  • Hyaluronic sýra
    Náttúruleg fjölsykra sem bindur raka kröftuglega í húðinni.
  • Niacinamid
    Getur dregið úr fitumyndun í fitukirtlum og minnkað ásýnd opinna svitahola í húðinni.

ATH! ekki nota neinar virkar húðvörur ef mikil einkenni er til staðar.

Jennahuld

Höfundur: Dr. Jenna Huld Eysteinsdóttir, sérfræðingur í húðsjúkdómalækningum, Húðlæknastöðinni

Njótum okkar í eigin skinni

Hugsum vel um stærsta líffærið okkar húðina, innan frá og utan, frá toppi til táar
Húðin gegnir mikilvægum sérhæfðum hlutverkum, hún ver okkur, heldur á okkur réttu hitastigi og skynjar umhverfið okkar.

Lyfja er í góðu samstarfi við Húðlæknastöðina. Á Húðlæknastöðinni starfa færir húðlæknar og sérhæft starfsfólk með menntun á heilbrigðissviði við bæði húðlækningar og lýtahúðlækningar.

Heilsa þín er okkar hjartans mál – þess vegna leggjum við áherslu á fræðslu, gæðavörur og persónulega þjónustu.