Langvarandi notkun nefdropa

Almenn fræðsla Sérfræðingar Lyfju

Nefúði getur verið ávanabindandi og mikil notkun hans orðið að vítahring. Lyfja hefur gefið út ráðleggingar til að styðja við þá sem nota nefúða og vilja minnka eða hætta noktun hans.

AÐ HÆTTA LANGVARANDI NOTKUN NEFDROPA

  • Nota skal stera í nef einu sinni á dag (Mometasone og Fluticasone) í 7-28 daga áður en byrjað er að trappa nefdropana út. Vika getur dugað til en oft þarf lengri tíma eða allt að mánuð á nefsterunum áður en viðkomandi er tilbúinn í að hefja niðurtröppun nefdropanna, það fer eftir hversu sterkur ávaninn er. Nota skal nefsterana áfram með niðurtröppuninni eins og þörf er á en helst ekki lengur en í þrjá mánuði samtals.
  • Flestir eiga erfiðast með að hætta notkun nefdropanna á nóttunni. Það má byrja á því að setja þá aðeins í aðra nösina meðan hin nösin er að jafna sig. Þegar nösin, sem ekki er spreyjað í opnast má reyna aðra hverja nótt eða jafnvel hætta strax.
  •  Hve langan tíma það tekur er einstaklingsbundið og fer eftir því hve lengi viðkomandi hefur notað nefdropana að staðaldri. Ferlið getur tekið allt frá viku upp í þrjá mánuði.
  • Líkamleg áreynsla eins og skokk getur hjálpað og nefskolun með Nasaline saltvatni. Sumir glíma við höfuðverk og má þá notast við Ibuprofen eða Paracetamol í skamman tíma.
  • Einnig þykir sumum hjálplegt að nota Sinomarin Adults sem er yfirþrýstin saltvatnslausn eða Nezefri menthol, saltvatnslausn með mentholi í stað nefdropanna á meðan á niðurtröppun stendur og eins lengi og viðkomandi telur þörf á.

AUKAVERKANIR
Til að fyrirbyggja aukaverkanir sem oft koma af notkun stera í nef og ofnotkunar ofangreindra nefropa getur verið mjög gagnlegt að nota Nozoil sem inniheldur sesamolíu. Sesamolían bætir virkni bifhára í nefi. Nefúðinn verndar einnig gegn aukaverkunum kortisón steranefúða, eins og ertingu, brunatilfinningu og blóðnasir. Mælt er með notkun Nozoil um 10 mínútum eftir meðferð með kortisón steranefúða. Nozoil er líka til með eucalyptus (Nozoil Eucalyptus) sem hjálpar til við að draga úr ofnæmisbólgu og ertingu.

Í slæmum tilfellum getur tekið nokkra mánuði að losna við fráhvörfin af nefdropunum og í mjög erfiðum tilfellum þar sem ofangreind meðferð dugar ekki til þarf að leita til læknis. Þá getur þurft að beita sterameðferð í töfluformi samhliða meðferð.

Kvef nefdropar eru notaðir við nefstíflum og miklu nefrennsli. Virku efni lyfjanna (Xylometazolin eða Oxymetazolin) valda því að æðar í nefslímhúðinni dragast saman. Við þetta minnka bólgur í nefslímhúðinni og dregið er úr slímmyndun. Lyfin eru einnig notuð við miðeyrnabólgu. Ef nefdroparnir eru notaðir lengur en í 7-10 daga í senn eykst hætta á því að langvarandi bólga í nefslímhúð komi fram þegar notkun þeirra er hætt.

Mynd: Diana Polekhina frá Unsplash

046fcdb2-57fd-49c0-bfba-f10482ca337f