Lyfja Heyrn opnar í Lágmúla

Almenn fræðsla

Lyfja Heyrn er fyrsta verslun sinnar tegundar, þar sem viðskiptavinir geta komið og skoðað heyrnartæki, stuðningsvörur heyrnartækja og fyrirbyggjandi lausnir með aðgengi að sérfræðiráðgjöf.

Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, var í dag viðstaddur opnun nýrrar sérvöruverslun á sviði heyrnarvarna, heyrnarmælinga og heyrnartækja.

Markmið Lyfju með versluninni er að breyta upplifun og vegferð viðskiptavina sem glíma við heyrnarskerðingu ásamt því að veita lausnir og faglega ráðgjöf á vörum sem vernda heyrn. Lyfja Heyrn sérhæfir sig í að verja, mæla og bæta heyrn með framúrskarandi þjónustu heyrnarfræðings og sérþjálfaðs starfsfólks í samvinnu við háls- nef- og eyrnarlækni sem starfar hjá Lækningu í Lágmúla.

„Við viljum þjónusta sérstaklega þá hópa sem þurfa á heyrnarvernd að halda í starfi og leik. Við bjóðum upp á sérsniðnar heyrnarvarnir en með því að skanna eyrað fáum við stafrænt mót af því sem hægt er að nota til að sérsmíða eyrnatappa“. Segir Karen Ósk Gylfadóttir, framkvæmdastjóri vöru, markaðar og stafrænnar þjónustu hjá Lyfju.

Lyfja Heyrn leggur mikið upp úr upplifun og að auka lífsgæði með bættri heyrn. „Við viljum veita einstaklingum með heyrnarskerðingu ráðgjöf, stuðning og þjónustu en einnig aðstandendum þeirra og því er vegferð viðskiptavina okkar hönnuð með aðstandendur heyrnaskertra í huga“ segir Karen Ósk enn fremur.

Það er markmið Lyfju að einfalda aðgengi að þjónustu sem snýr að heyrninni. Samhliða opnun Lyfju Heyrnar mun Lyfja því bjóða upp á nýja þjónustu hjá hjúkrunarfræðingum Lyfju Lágmúla og Smáratorgi, en þangað er hægt að mæta í heyrnarskimun án tímabókunar, en slík mæling gefur til kynna hvort heyrnarskerðing sé til staðar.

Willum Þór hefur slegið nýjan tón í Heilbrigðisráðuneytinu frá því að hann tók við, lagt sig fram um að byggja brýr á milli hagsmunaaðila og sýnt vilja í verki, meðal annars með tilraunaverkefnum þar sem heilbrigðisþjónusta er færð að hluta í apótek. Lyfja hefur um árabil boðið hjúkrunarþjónustu í apótekum sínum og við vitum svo vel hvers virði það er fyrir viðskiptavini að auðvelda aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Við erum ánægð með að hafa fengið rekstrarleyfi frá Heilbrigðisráðuneytinu til þess að selja heyrnartæki og hlökkum til að þjónusta viðskiptavini. Segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Lyfju.