Meðgangan | Spurt og svarað

Almenn fræðsla Móðir og barn Nýtt líf – nýtt hlutverk

  • Inga María Hlíðar ljósmóðir
    Inga María Hlíðar

Inga María Hlíðar ljósmóðir svarar 10 spurningum um meðgönguna. Hafdís svarar m.a hvernig best sé að undirbúa líkamann fyrir þungun og hvaða vítamín sem best að taka.

 

Hvernig er best að undirbúa líkamann fyrir þungun?

Líkaminn best undirbúinn með því að lifa heilsusamlegu lífi, þ.e. borða hollan mat og stunda hreyfingu. Einnig er öllum konum á barneignaraldri ráðlagt að taka inn fólínsýru 400 μg og D-vítamín 15 μg á dag. Ef þú ert á einhverjum lyfjum ættirðu að athuga hvort gera þurfi lyfjabreytingar og ef þú notar tóbak eða nikótín er ráðlagt að reyna að hætta því. Einnig eru minni líkur á fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu hjá konum í kjörþyngd. 

Hvaða matvæli ætti ég að forðast á meðgöngu?

Almennt þurfa konur ekki að gera miklar breytingar á mataræði á meðgöngu. Þungaðar konur ættu að borða venjulegan mat samkvæmt ráðleggingum Embættis  landlæknis um mataræði, hafa fæðuvalið fjölbreytt og að mestu leyti hollt. Það eru þó nokkrar fæðutegundir sem ætti að forðast en það eru hrár, grafinn eða reyktur fiskur, hrátt kjöt, hrá egg og hráar baunaspírur. Einnig ætti að forðast ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir úr ógerilsneyddri mjólk (allir íslenskir ostar eru gerilsneyddir).

Önnur sjaldgæfari matvæli sem ófrískar konur ættu að forðast eru súrsaður hvalur, þorskalifur, hákarl, sverðfiskur, stórlúða, fíll og fílsegg. Þau matvæli sem er í lagi að borða einu sinni í viku eru túnfisksteik og búri. Að hámarki má borða túnfisk í dós tvisvar í viku, svartfuglsegg og hrefnukjöt. Síðast en ekki síst er mikilvægt að gæta að hreinlæti við matargerð og skola vel grænmeti og ávexti fyrir neyslu. 

Hvaða vítamín á ég að taka?

Þau vítamín sem öllum þunguðum konum er ráðlagt að taka eru fólínsýra 400 μg og D-vítamín 15 μg eða 600 IU. Þessi vítamín er hægt að fá á töfluformi en einnig fæst D-vítamín úr krakkalýsi eða Omega 3 + D-vítamín.

Hversu mikla hreyfingu/líkamsrækt ætti ég að stunda?

Þunguðum konum er ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti 30 mínútur á dag. Hafir þú stundað hreyfingu fyrir þungun getur þú haldið áfram þeirri hreyfingu svo lengi sem ekki er hætta á höggum á kúluna. Hvað varðar ákefð er mikilvægt að þú hlustir á líkamann og passir að ofgera þér ekki. Á meðgöngu ætti ekki að vera markmið að setja ný met heldur að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Hafir þú ekki stundað mikla hreyfingu fyrir þungun er þetta góður tími til þess að byrja á því, en mikilvægt er að þú finnir þér hreyfingu sem þú hefur gaman að og byrjir rólega, t.d. með því að fara í göngutúra, synda eða stunda jóga.

Hvenær fer ég í sónar og hvað er verið að skoða?

Á eðlilegri meðgöngu fara konur tvisvar sinnum í sónar. Fyrri er við 12 vikur, þá er meðgöngulengd metin út frá stærð fóstursins og áætlaður fæðingardagur reiknaður. Fjöldi fóstra er athugaður og líkamsgerð fósturs skoðuð eins vel og hægt er á þessum tíma. Einnig er í boði að fá samþætt líkindamat, þar sem líkur á þremur litningargöllum er metinn. Það er gert með því að mæla hnakkaþykkt fósturs í sónarnum og lífefnavísa í blóði móður með blóðprufu. Seinni sónarinn er við 20 vikur, þá er fjöldi fóstra og meðgöngulengd staðfest, staðsetning fylgju og legvatnsmagn metið, auk þess sem fóstrið er skoðað með tilliti til sköpulags- og líffæraafbrigða. 

Samdrættir, hvað er eðlilegt?

Samdrættir eru þegar kúlan verður hörð án þess að konan finni fyrir verkjum með þeim. Þetta er algengt á síðasta þriðjungi meðgöngu, sérstaklega á kvöldin og er leið legsins til þess að æfa sig og þjálfa fyrir fæðingu. Það getur komið fyrir að konur finni tímabundið fyrir tíðum og reglulegum samdráttum fyrir 37 vikna meðgöngu og jafnvel geta fylgt verkir. Í þeim tilvikum er mikilvægt að konan hætti því sem hún er að gera og fari í algjöra hvíld, drekki vel af vatni og sjái hvort samdrættirnir hætti eða minnki. Við viljum ekki að samdrættirnir séu mikið fleiri en fjórir á klukkustund en ef þeir lagast ekki við hvíld er rétt að hafa samband á fæðingarstað. Eftir 37 vikna meðgöngu getur þú verið róleg yfir tíðum samdráttum því þá ertu gengin fulla meðgöngu samkvæmt skilgreiningu. 

Fósturhreyfingar á meðgöngu, hvað er eðlilegt?

Eðlilegt er að byrja að finna hreyfingar við 16-20 vikna meðgöngu, sumar konur finna þær fyrr, sérstaklega fjölbyrjur og aðrar finna þær seinna. Langflestar konu eru farnar að finna hreyfingar við 24 vikna meðgöngu. Þær aukast síðan jafnt og þétt frá fram að viku 32, en eftir þann tíma ættu þær að haldast stöðugar fram að fæðingu. Þegar sér fyrir endann á meðgöngunni og plássið er orðið minna hjá barninu geta hreyfingarnar breyst og orðið meira að hnoði og þú finnur fyrir barninu hreyfa sig í staðin fyrir að finna bein spörk, það er eðlilegt en hreyfingum ætti ekki að fækka.

Mjög misjafnt er milli kvenna hversu mikið þær finna fyrir hreyfingum barnsins. Því er erfitt að segja til um ákveðinn fjölda hreyfinga sem ættu að vera til staðar. Þú ferð að þekkja hversu mikið eðlilegt er fyrir þitt barn að hreyfa sig, oft myndast líka ákveðið mynstur, það hreyfir sig mikið á þessum tíma dags en lítið á öðrum. Ef þú hefur áhyggjur af hreyfingum barnsins, skaltu leggjast niður í algjöra hvíld í um klukkustund  g einbeita þér að hreyfingunum. Ef barnið hreyfir sig jafn mikið og það er vant þarftu ekki að hafa áhyggjur, en séu þær minni en vanalega er rétt að hafa samband við ljósmóður. 

Hvenær á að hafa samband við fæðingarstað í upphafi fæðingar?

Ef þig grunar að þú sért að byrja í fæðingu skaltu taka tímann frá því að hver hríð byrjar og þar til hún endar, einnig frá því ein hríð byrjar þar til sú næsta byrjar. Einnig er gott að vita um það bil hvenær samdrættirnir byrjuðu að vera reglulegir. Viðmiðunarreglan er sú að tími sé komin að fara á fæðingarstað þegar 3-4 mínútur eru á milli hríða, hver hríð varir í 45 sekúndur eða lengur og reglulegar hríðar hafa varað í klukkustund eða lengur. Þetta er einungis til viðmiðunar því líðan konunnar skiptir einnig máli og hvernig henni líður með að vera áfram heima, hvort hún treysti sér til þess eða finnist öruggara að koma sér á fæðingarstað. Ef vatnið fer eða þig grunar að það hafi farið skaltu einnig hafa samband á fæðingarstað. Ef kollur var skorðaður í síðustu mæðraskoðun er óþarfi að koma með sjúkrabíl. Ef kollur var óskorðaður og mikið legvatn rennur skaltu leggjast niður þar sem þú ert og hringja á sjúkrabíl. 

Spítalataskan - Hvað þarf ég að hafa með mér á fæðingarstað?

Það er aðeins mismunandi eftir fæðingarstöðum hvað boðið er uppá fyrir móður og barn. Yfirleitt er boðið uppá sjúkrahúsfatnað fyrir móður ásamt dömubindum.

Sumstaðar er boðið uppá bleyjur og jafnvel föt á nýbura en yfirleitt þurfa foreldrar að taka með sér allar nauðsynjar fyrir nýburann. Móðirin þarf auka föt fyrir sig og föt til þess að fara í heim ásamt hreinlætisvörum. Maki/stuðningsaðili gæti þurft föt til skiptana ásamt tannbursta/hreinlætisvörum. Þá er gott að hafa með sér hleðslutæki og góðan lagalista. 

Hvernig veit ég hvort barnið mitt sé að fá nóg að drekka?

Besti mælikvarðinn á það hvort barnið sé að fá nóg að drekka er að það þyngist vel eða léttist ekki of mikið fyrstu dagana. Langflest börn léttast fyrstu dagana en þau ættu að ná fæðingarþyngd við 1-2 vikna aldur. Ef barnið drekkur 8-12 sinnum á sólarhring er rólegt og sælt eftir gjafir og bleytir að minnsta kosti 6 bleyjur á sólarhring (eftir 5 daga aldur), eru yfirgnæfandi líkur á að það sé að fá nóg. 

Höfundur: Hafdís Guðnadóttir jósmóðir