Ópíóíðar

Almenn fræðsla Lyfjainntaka

Frá örófi alda hefur maðurinn leitað til náttúrunnar eftir hjálp við verkjum og veikindum. Smám saman lærðu menn að þekkja hverjar af þúsundum plantna voru eitraðar og hverjar gátu hjálpað þeim. Ópíum úr valmúaplöntunni er meðal elstu verkjastillandi efna sem uppgötvuð hafa verið og eru enn þann dag í dag mikið notuð. 

https://www.youtube.com/watch?v=ojBb5o_j-Mw

Morfín er virkasta efnið í ópíum og er það grunnur að hundruðum lyfja sem framleidd hafa verið eftir uppgötvun þess. Morfín er afar öflugt verkjalyf og erfitt er að hugsa sér hvernig lífið væri nyti þess ekki við. Það er notað við mjög slæmum verkjum, sérstaklega hjá fólki með banvæna sjúkdóma. En eins og á við um mörg lyf þá hafa morfín og aðrir ópíóíðar einnig dökkar hliðar séu þau ekki notuð rétt eða ekki notuð í læknisfræðilegum tilgangi. Sum lyf eru notuð vegna vellíðunaráhrifa þeirra og er það einnig ævaforn venja. Sem dýrategund höfum við þá einstöku tilhneigingu að leita í hugbreytandi efni og jafnvel halda því áfram þó að við vitum að slík hegðun getur skaðað okkur. Mjög erfitt getur reynst að losna undan slíkri notkun vegna ávanabindingar og fíknar í efnin.

Dæmi um lyf sem flokkast sem ópíóíðar eru m.a. Contalgin töflur, Okikodon/Oxycodone/Oxycontin forðatöflur, Fentantyl forðaplástur, Tradolan/Tramadol töflur, Parkodin/Parkodin Forte o.fl.

Það efni sem hvað mest hefur verið í umræðunni undanfarin ár vegna neikvæðra hliða á notkun þess er oxýcontín, en um er að ræða ópíóíða með langverkandi áhrif (forðatöflur). Eins og með önnur lyf með sambærilega verkun í gegnum tíðina, var það talið mun öruggara og mikið auglýst sem betri kostur við miklum verkjum. Þegar heróín kom á markað á sínum tíma var það líka talið mun öruggara en morfín og var selt í apótekum án nokkurs eftirlits, meðal annars í hóstamixtúrum. Það átti að lækna ópíóíðafíkn en fljótlega kom annað í ljós. Þetta er því ekki í fyrsta skipti sem lofað er betri áhrifum og minni áhættu við notkun, sem ekki stenst.

Talað hefur verið um oxýcontínfaraldur vegna fjölda dauðsfalla sem það hefur valdið undanfarin mörg ár. Margt ungt fólk í blóma lífsins hefur látið lífið vegna of stórs skammts af lyfinu. Ef lyfinu er ekki ávísað af lækni er erfitt að meta hvaða skammt á að taka og lítið þarf til að fara í öndunarstopp. Lyfið er ætlað til inntöku en stundum er það notað á annan mjög hættulegan máta eins í til innsprautunar í æð. Mikið af lyfjum sem læknar ávísa til sjúklinga virðast enda í röngum höndum og ganga kaupum og sölum á götunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að þeir sem fá þessi lyf frá lækni gæti þess að þau komist ekki í rangar hendur. Geyma á lyf í læstum lyfjaskápum á heimilum því ef börn komast í lyf þarf oft ekki nema eina töflu til að valda dauðsföllum.

Taka á lyfin nákvæmlega eins og læknir hefur gefið fyrirmæli um og stendur það á áritunarmiða á lyfjapakkningunni. Lyfin eru yfirleitt gefin á 12 klst. fresti. Aldrei má taka stærri skammta eða nota lyfið lengur en fyrirmæli segja til um. Aldrei má deila þessum lyfjum með öðrum, sérstaklega ekki með þeim sem hafa sögu um lyfjamisnotkun eða fíkn. Það að selja eða gefa lyfin öðrum er lögbrot og getur verið lífshættulegt!

Gleypa á þessi lyf heil með glasi af vatni, því ef þau eru mulin eða tekin í sundur getur losnað svo mikið af efninu í einu að það getur verið lífshættulegt. Ekki má drekka áfengi með oxýcontín eða öðrum sterkum verkjalyfjum, því það getur aukið öndunarslævandi áhrif þess. Öndunarerfiðleikar eru algengari í eldra fólki og sjúklingum með öndunarvandamál, t.d. astma. Ýmis önnur lyf geta haft áhrif á oxýcontín og önnur sterk verkjalyf. Alltaf verður að láta lækni vita hvaða önnur lyf er verið að nota, t.d. frá öðrum læknum. Mörg sljóvgandi lyf, s.s. kvíðastillandi lyf, svefnlyf, önnur verkjalyf o.fl., geta aukið hættu á öndunarbælingu og verður læknir að meta hvort og í hvaða skömmtum má þá taka þau samhliða. Mjög hættulegt getur verið að nota blöndu af mörgum lyfjum og verður einn og sami læknir að geta fylgst með öllum lyfjum sem sjúklingur er að nota. Mörg ýmiss konar lyf við mismunandi sjúkdómum geta haft áhrif á oxýcontín.

Ef fólk sem notar oxýcontín eða aðstandendur verða varir við eftirfarandi einkenni verður strax að hafa samband við lækni þar sem þetta getur verið vísbending um ofskömmtun:

  • Andvörp, hæg, grunn öndun og öndun sem stoppar í svefni
  • Hægur hjartsláttur eða veikur púls
  • Tilfinning um yfirlið
  • Rugl eða óeðlileg hugsun og hegðun
  • Krampar

Hægt er að gefa lyf sem er móteitur við ópíóíða ofskömmtun ef sjúklingur kemst nógu snemma til læknis/á sjúkrastofnun.(naloxon)

Lyfin eru yfirleitt merkt með rauðum viðvörunarþríhyrningi eins og flestöll lyf sem flokkast sem ávana- og fíknilyf (þ.e. hætta er á að geti valdið ávana- og fíkn). Lyfin eru sljóvgandi og ekki má keyra eða stjórna vélum nema læknir hafi metið að sjúklingur sé í það góðu jafnvægi og á viðeigandi skammti og hafi vanist sljóvgandi áhrifunum það mikið að hætta stafi ekki af honum í umferðinni. Þó að lyf sé ekki merkt með rauðum þríhyrningi getur það samt skert hæfni til aksturs og alltaf gott að spyrja lyfjafræðing eða lækni hvort óhætt sé að keyra eftir notkun á sterkum verkjalyfjum (og mörgum öðrum lyfjum líka).

Ef fólk er að fara í aðgerð þarf það að tala við lækni um hvort megi taka lyfin því það getur þurft að sleppa lyfjum fyrstu 12-24 klst eftir aðgerð vegna áhrifa á smáþarmana.

Ópíóíðar verka á svo kallaða viðtaka í heilanum og mænunni og dempa taugaboð sem berast um verki til heilans. Þessir viðtakar eru hluti af okkar eigin verkja-varnarkerfi og við framleiðum okkar eigin endorfínefni sem tengjast þessum viðtökum. Endurtekin notkun á oxýcontíni og öðrum sterkum verkjalyfjum veldur þoli svo hærri og hærri skammta þarf til að stilla verki. Fólk hefur mismikið þol og þeir sem hafa notað lyfin að staðaldri yfir ákveðinn tíma þola mikið stærri skammta en þeir sem eru að byrja að nota lyfin eða hafa hætt notkun þess og byrjar aftur seinna. Ef slíkur einstaklingur fer að nota sama skammt og hann þoldi áður er mikil hætta á að það valdi öndunarbælingu og dauðsfalli.

Læknar hræðast oft að gefa þessi lyf öðrum en fólki með banvæna sjúkdóma vegna hættu á lyfjafíkn. Þeir sem hafa ánetjast lyfjunum geta lent í að fá mjög slæm fráhvarfseinkenni reyni þeir að hætta notkun þeirra. Í fráhvarfi reynir líkaminn að ná nýju jafnvægi á sama tíma og hann skilur út restar af efninu úr líkamanum. Þetta getur valdið tímabundnu ójafnvægi í efnafræði heilans og þessu geta fylgt mjög alvarlegar andlegar og líkamlegar afleiðingar. Þessi fráhvarfseinkenni eru sjaldan lífshættuleg en þau geta valdið hræðilegri vanlíðan. Best er að fá aðstoð hjá lækni um niðurtröppun sem dregur mikið úr hættu á fráhvarfseinkennum. Mikilvægt er að trappa notkun niður hægt og rólega til að forðast fráhvarfseinkenni. Langverkandi ópíóíðar byrja að valda fráhvarfi eftir 2-4 daga sé notkun hætt skyndilega og einkennin fara að minnka innan 1-2 vikna. Fráhvarfseinkenni eru m.a. taugaveiklun/kvíði, svefntruflanir, miklir geispar, ógleði og niðurgangur, vöðvakrampar/verkir, nefrennsli, mikill sviti, hita/kuldaköst o.fl.

Ópíóíðar eru hvorki fyrsta val við langvarandi verkjum, sem ekki eru vegna illkynja sjúkdóma, né eru þeir ráðlagðir sem eina meðferð. Fylgjast þarf vel með teiknum um hvort sjúklingur með langvarandi verki (ekki illkynja sjúkdómur) hafi þróað með sér lyfjaávana eða misnotar lyfið. Þessi lyf eru ekki við bráðaverkjum (þá eru stuttverkandi ópíóíðar frekar notaðir).

Öll lyf ber að umgangast af varúð og nota í réttum ráðlögðum skömmtum og í þann tíma sem ráðlagt er að nota þau. Ef grunur leikur á ofnotkun/misnotkun eða misferli í sambandi við lyfin er hægt að tilkynna það Landlæknisembættinu. Læknar bera ábyrgð á lyfjaávísunum og þeim ber að tryggja eins vel og mögulegt er að notkun lyfjanna sé rétt. Landlæknir á að fylgjast með og gera athugasemdir við lækna sem ávísa ópíóíðum í langan tíma eða í mjög stórum skömmtum handa sjúklingum sem eru ekki í líknandi meðferð. Því miður eru mörg dæmi um að sami einstaklingur hafi fengið lyf frá mörgum læknum og misnoti þau eða selji þau öðrum með oft á tíðum skelfilegum afleiðingum. Vonandi verður hægt að stemma stigu við þeirri þróun svo hægt verði að nota þessi lyf áfram til hjálpar þeim sem á þurfa að halda.

 Mynd: Hal Gatewood on Unsplash