Sólbruni og meðhöndlun hans

Almenn fræðsla Húð

Ef húðin fær of mikla sól í of langan tíma og er ekki vel varin, getur hún brunnið. Mikilvægt er að vernda húðina eins og hægt er með sólvörn eða fötum sem hylja viðkvæm svæði á húðinni. Mælt er með því að nota sólvörn með SPF 30-50 (með UVA og UVB filter). 

Muna þarf að bera sólvörn á sig nokkrum sinnum á dag, sérstaklega ef farið er í sjó/sundlaug. Fylgjast þarf með því hvort sólvörn er útrunnin og nota ekki útrunna sólvörn.

Einnig þarf að muna þarf eftir því að bera sólvörn á staði sem oft vilja gleymast eins og eyrun, hálsinn, nefið, handabök og ristar. Mikilvægt er að vera með derhúfu/hatt til að hlífa höfðinu og veita skugga á andlitið. Fara þarf varlega þegar gengið er á heitu yfirborði eins og sandi eða gangstétt þar sem hitinn þar getur hæglega brennt iljarnar og skaðað húðina á stuttum tíma.

Sólbruni getur valdið varanlegri skemmd í húð sem getur aukið líkur á húðkrabbameini.

Ef fólk hefur brunnið er ýmislegt hægt að gera til að lina óþægindin:

  • Gott er að fara oft í kalt bað/kalda sturtu til að minnka sársaukann. Einnig er hægt að væta handklæði með köldu vatni og leggja á húð nokkrum sinnum á dag. Passa þarf að þurrka húðina varlega á eftir (þerra hana) og skilja eftir smá raka í húðinni. Bera svo á sig rakagefandi krem/lotion (t.d. gott after-sun) til að halda raka í húðinni og koma í veg fyrir húðþurrk. Einnig er gott að nota AloeVera gel eða lotion til að bera á sólbrunann.
  • Hægt er að bera hydrocortison (steri í flokki 1) s.s. Mildison Lipid eða Hydrokortison Evolan á verstu brunasvæðin.
  • Ef óþægindin eru mikil má taka inn bólgueyðandi lyf eins og ibuprofen eða naproxen til að draga úr bólgu og verkjum. Þetta er eingöngu ráðlagt fyrir fólk sem þolir þessi lyf og er ekki með undirliggjandi sjúkdóm (t.d. magabólgur/magasár) þar sem bólgueyðandi lyf eru ekki ráðlögð eða á einhverjum lyfjum (t.d. ýmsum blóðþrýstingslyfjum, blóðþynningarlyfjum) sem ætti ekki að nota með bólgueyðandi lyfjum.
  • Mikilvægt er að drekka vel af vatni (ekki koffeindrykki, bjór eða vín sem eru vatnslosandi). Sólbruni dregur vökva úr líkamanum út í yfirborð húðarinnar og því þarf að bæta líkamanum það upp til að forðast vökvaskort.
  • Ef blöðrur koma á húðina eftir brunann verður að leyfa þeim að gróa. Blöðrur benda til 2. stigs bruna sem getur orðið mjög alvarlegur (neðri lög húðarinnar farin að skemmast). Ekki er ráðlagt að sprengja blöðrurnar þar sem þær hjálpa húðinni að gróa og vernda gegn sýkingu. Ekki á heldur að rífa flögnun af húðinni þar sem það getur valdið frekari skaða. Flögnun er hluti af bataferli húðarinnar.
  • Passa þarf að vernda húðina vel eftir brunann og halda sig innandyra eða í skugga og láta sólina ekki skína á brennd svæði (vera í fötum).

Flestir sólbrunar jafna sig sjálfir en í einstaka tilfellum þarf fólk að leita læknis:

  • Ef bruninn er slæmur og yfir stór svæði húðarinnar og blöðrur eru áberandi
  • Ef sólbrunanum fylgir hiti, höfuðverkur, mikill verkur í brunanum, vökvaskortur, rugl og ógleði (getur verið merki um sólsting líka sem getur verið mjög alvarlegt ástand)
  • Ef komin er sýking í brunann sem einkennist af bólgu, greftri og roða sem liggur frá blöðrunum

Eftir sólbruna getur tekið nokkra daga fyrir húðina að jafna sig. Það getur líka tekið 1-2 daga fyrir skaðann að koma að fullu í ljós.

Fólk með ákveðna sjúkdóma þarf að passa sérstaklega vel uppá húðina og mörg lyf valda auknu ljósnæmi í húð sem þýðir að minna þarf til að brenna en ef fólk væri ekki á lyfjunum. Ef fólk er með taugaskemmdir t.d. vegna sykursýki þarf að fylgjast mjög vel með húðinni þar sem fólk finnur oft ekki óþægindin sem fylgja brunanum.

Dæmi um lyf sem geta valdið auknu ljósnæmi:

  • Tetracyklin/doxycyklin (t.d. Doxylin)
  • Ciprofloxacin (t.d.Síprox)
  • Súlfalyf (t.d. Cotrim)
  • Ibuprofen (t.d. Íbúfen)
  • Naproxen (t.d Naproxen)
  • Celecoxib (t.d. Cloxabix)
  • Þvagræsilyf (t.d. Furix)
  • Retinoid (t.d. Decutan)
  • Sulfonyl lyf (t.d. Glimeryl)
  • Geðlyf (t.d.Truxal)
  • O.fl.

Kynntu þér úrval sólarvarna fyrir alla fjölskylduna í netverslun eða næstu verslun Lyfju.

Solarvarnir