Stóru augnsjúkdómarnir þrír

Almenn fræðsla Augun

Jóhannes Kári augnlæknir fræðir um stóru augnsjúkdómana þrjá, forvarnir og mikilvægi þess að fara reglulega í augnskoðun.

https://www.youtube.com/watch?v=HIXvCsuLBxY

Með aldrinum aukast líkur á augnsjúkdómum. Margir aldraðir sjá mjög vel en það eru aðallega þrír augnsjúkdómar sem sérstaklega þarf að vera á varðbergi fyrir – ekki síst þar sem hægt er að meðhöndla þá og koma í veg fyrir sjóntap ef gripið er inn í á réttum tímapunkti. Því þurfa einstaklingar yfir 60 ára að fara til augnlæknis á að minnsta kosti 3ja ára fresti og oftar ef þarf.

  1. Aldursbundin augnbotnahrörnun er sjúkdómur sem kemur upp í augnbotnum (sjónhimnu) eins og nafnið gefur til kynna. Hann skiptist í þurra hrörnun og vota hrörnun. Sú fyrrnefnda er miklu algengari en sú síðarnefnda er mun alvarlegri og veldur hraðari og meiri sjónversnun. Aðaleinkenni sjónversnunar í aldursbundinni augnbotnahrörnun er versnun sjónar í miðju sjónsviðs – hliðarsjón er óbreytt í sjúkdómnum og fólk verður aldrei alblint með þennan sjúkdóm. Oft er hægt að meðhöndla hann með augnvítamínum og stundum þarf að gefa lyf inn í augað.
  2. Annar augnsjúkdómurinn er gláka, sem veldur breytingum á hliðarsjón fyrst og fremst en minna í miðju sjónar fyrr en á lokastigum sjúkdómsins. Gláka getur valdið alblindu en sem betur fer hefur henni verið nánast útrýmt hér vegna góðrar meðferðar í formi augndropa, laseraðgerða og stundum skurðaðgerða sem eru í sífelldri framför. Gláka er mjög ættgeng og því þurfa þeir sem hafa sögu um slíkt í ættinni að fara reglubundið til augnlæknis. Öll meðferð við gláku beinist að því að lækka augnþrýsting þar sem sjúkdómurinn orsakast af því að þrýstingur inni í auganu skemmir sjóntaugina smám saman.
  3. Þriðji augnsjúkdómurinn er svo skýmyndun á augasteini. Nær allir þurfa að fara í slíka aðgerð einhvern tíma á ævinni ef þeim endist aldur til. Augasteinninn verður skýjaður með aldrinum og á einhverjum tímapunkti versnar sjónin að því marki að viðkomandi þarf að láta skipta um augastein. Slík aðgerð hefur þróast mjög á undanförnum áratugum og tekur aðgerðin nú aðeins 10 mínútur og þarf viðkomandi ekki að leggjast inn á sjúkrahús. Hún er orðin algengasta aðgerð hér á landi sem annars staðar og er mjög örugg skurðaðgerð.

Hugaðu að augnheilsunni. Hjá okkur færð þú fjölbreytta fræðslu, ráðgjöf, bætiefni, augnvörur, gleraugu og linsur.

Augun_vorur_1350x350_vorur