BBlóðlyf

Lyfin í blóðlyfjaflokki hafa áhrif í blóði eins og heiti flokksins gefur til kynna. Þetta eru lyf sem eru ýmist notuð á sjúkrastofnunum við ákveðnar aðstæður eða lyf tekin að staðaldri vegna ýmissa sjúkdóma og/eða skorts á efnum.

B Blóðlyf

Lyfin í blóðlyfjaflokki hafa áhrif í blóði eins og heiti flokksins gefur til kynna. Þetta eru lyf sem eru ýmist notuð á sjúkrastofnunum við ákveðnar aðstæður eða lyf tekin að staðaldri vegna ýmissa sjúkdóma og/eða skorts á efnum.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Lyfin í blóðlyfjaflokki hafa áhrif á blóðið eins og heiti flokksins gefur til kynna. Þetta eru lyf sem eru ýmist notuð á sjúkrastofnunum við ákveðnar aðstæður eða lyf tekin að staðaldri vegna ýmissa sjúkdóma og/eða skorts á efnum. Segavarnarlyf, blæðingarlyf og blóðskortslyf eru gefin við sjúkdómum eða erfðagöllum sem valda því að blóðið verður ekki eðlilegt. Blóðvökvalíki og skolvökvar eru nær eingöngu notaðir á sjúkrastofnunum. Til þeirra flokkast meðal annars næringarblöndur, vítamín og steinefni.

Saga
Í upphafi síðustu aldar fóru menn að gera sér grein fyrir því hvernig storkukerfi blóðsins starfaði og hófu að einangra og rannsaka hlutverk einstakra efna innan kerfisins. Um svipað leyti varð segavarnarlyfið heparín uppgötvað og hæfileiki þess að leysa upp blóðsega. Fyrst til að byrja með var heparínið aðeins notað til að varna því að blóðsýni storknuðu en fljótlega var komist að því að hægt væri að gefa það mönnum. Bæði menn og dýr framleiða heparín og það finnst í frumum sem tilheyra ónæmiskerfinu, en hvert hlutverk þess nákvæmlega í líkamanum er enn óþekkt. Það heparín sem notað er til lækninga fæst úr lifur, lungum og þörmum nautgripa. Heparín er ekki hægt að taka inn um munn af því að það meltist og eyðileggst fari það í gegnum meltingarfærin og er því eingöngu notað sem stungulyf.

Það var líka á fyrri hluta síðustu aldar að menn uppgötvuðu díkúmaról sem veldur blóðþynningu, alveg eins og heparín gerir. Nautgripum hafði verið beitt á akra og á ökrunum uxu m.a. plöntur sem innihéldu díkúmaról. Fljótlega fór að bera á óeðlilegum blæðingum hjá nautgripunum og þegar málið var kannað reyndist vera hægt að rekja blæðingarnar til díkúmaróls. Ólíkt heparíni meltist díkúmaról ekki og því er hægt að taka það inn í töflum. Næst kom warfarín til sögunnar sem er náskylt díkómaróli hefur það verið mikið notað til blóðþynningar. 

Lyf sem eru hemlar með beina verkun á storkuþátt Xa er nýr flokkur segavarnarlyfja. Þessi flokkur er að taka við af warfaríni og helsti kostur hans er að reglulegar mælingar á blóðstorknun er ekki nauðsynleg líkt og fyrir warfarín. Í sumum tilfellum er mæling á styrk lyfjanna í blóði þó gagnleg.

Verkunarmáti
Segavarnar- og blóðstorknunarlyf hafa áhrif á blóðstorkunarferlið. Blóðstorknun er flókið ferli ýmissa efna, hvítra blóðkorna og blóðflagna. Truflanir geta orðið á ferlinu sem nauðsynlegt er að færa í rétt horf. Undir slíkum kringumstæðum er hægt að grípa inn í ferlið á mörgum stöðum, bæði til að letja eða hvetja blóðstorknun.

Um verkunarmáta annarra lyfja í þessum flokki blóðlyfja er ekki mikið að segja frá. Lyfin eru notuð til að bæta líkamanum upp skort á efnum en þau hafa ekki áhrif á ferli í átt til breytinga. Lyf þessi koma annað hvort í stað efna sem líkaminn hefur ekki getað nýtt sér úr fæðunni eða að þau eru gefin til að ráða bót á vannæringu.

Algengar aukaverkanir
Algengasta aukaverkun segavarnarlyfja stafar af því að skammtar eru ekki rétt stilltir og það gæti leitt til lífshættulegra blæðinga. Önnur lífshættuleg aukaverkun, samfara sumum blóðþynningarlyfjum, eru breytingar á blóðmynd eins og fækkun hvítra blóðkorna og vanmyndunarblóðleysi, sem hvor tveggja gæti orðið lífshættulegt. Öðrum lyfjum sem heyra til blóðlyfja getur fylgt einhverjar aukaverkanir, en þær eru hvorki jafn algengar né eins alvarlegar og aukaverkanir segavarnarlyfja.

Sjá einnig undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum læknis hvernig taka eigi lyfin. Segavarnarlyfin eru hérna sérstaklega varasöm. Samhliða notkun lyfjanna þarf að fara reglulega í mælingu til að kanna storknunarhæfni blóðsins og að lyfjaskammtar séu réttir en þeir eiga til með að breytast með tilliti til mælinganna. Þetta á ekki við um öll lyfin.

Flest blóðlyfin sem eru í formi stungulyfja eru gefin á sjúkrastofnunum í æð eða vöðva. Lyfjagjöfin er því oftast í höndum fagfólks en ekki sjúklinga.

Hvað ber að varast
Önnur lyf sem valda blóðþynningu má ekki taka að staðaldri með segavarnarlyfjum nema að skammtur segavarnarlyfjanna sé endurskoðaður með tilliti til þeirra. Þetta eru lyf sem valda blóðþynningu og þeirra á meðal er asetýlsalicýlsýra (Magnýl, Treo, Aspirin) og önnur bólgueyðandi lyf úr NSAID-flokki (sjá flokk M01). Einstaklingar á blóðþynnandi lyfjum ættu að forðast töku náttúrulyfja og fæðubótarefna eða í það minnsta að segja lækninum frá slíkri notkun því þau geta haft áhrif á virkni lyfjanna. Dæmi um fæðubótarefni sem virðist hafa áhrif á blóðþynnandi lyf er curcumin sem er virka efnið í túrmeriki, en það getur aukið áhrif lyfjanna.

Undirflokkar

B01 Segavarnarlyf

Myndist blóðtappi sem stíflar slagæð verður blóðþurrð og jafnvel drep í vefjum sem æðin liggur til. Stífli blóðtappi bláæð myndast bjúgur og bólga í vefjum sem æðin liggur frá.

Þegar hætta leikur á blóðtappa er nauðsynlegt að beita segavarnandi meðferð með samnefndum lyfjum. Skemmdir í æðavegg vegna æðakölkunar eða meiðsla, lélegt blóðflæði um æð eða sjúkdómar sem auka tilhneigingu blóðs til að storkna, geta aukið hættu á blóðtappamyndun. Þegar um slíkt er að ræða er þörf á að gefa segavarnarlyf í forvarnarskyni. Lyfin eru stundum notuð fyrirbyggjandi um skamman tíma, t.d. eftir skurðaðgerðir, hjá sjúklingum í blóðskilun, til að leysa upp blóðtappa eða hindra frekari blóðtappamyndun og á meðgöngutíma. Aðrir þurfa á lyfjunum að halda að staðaldri. Þar mætti nefna þá sem eru með hjartalokur, hafa fengið blóðtappa og þurfa á fyrirbyggjandi meðferð að halda.

Lyfin eru bæði til í töflum og sem stungulyf, hin síðarnefndu eru notuð þegar þörf er á skjótri verkun. Stungulyfin eru oftast gefin á sjúkrastofnunum og í umsjón sérfræðinga.

Langtímameðferð er yfirleitt hafin undir eftirliti enda verður að fylgjast náið með storknunarhæfni blóðsins til þess að lyfjaskammturinn sé rétt stilltur. Síðar eru blóðprufur teknar reglulega, eða eftir að hæfilegur skammtur hefur fundist með því að mæla storknunarhæfni og breyta skömmtum í samræmi við það sé þörf á.

Storkukerfi líkamans er flókið ferli og það fer af stað þegar blóð kemst í snertingu við annað yfirborð en æðaveggi. Blóðstorknun verður til fyrir tilstilli svokallaðra storkuþátta. Storkuþættir í blóði eru margir og rétt samspil þeirra á milli er forsenda þess að blóð storkni eðlilega. Ef einhvern þeirra vantar lengist storknunartíminn eða þá að blóðið storknar alls ekki. Þekktir eru arfgengir sjúkdómar þar sem einhvern storkuþátt vantar eða hann er gallaður. Við lok blóðstorknunar myndast fíbrín sem veldur því að blóðið storknar ásamt rauðum blóðkornum og blóðflögum. Sum segavarnandi lyf hamla myndun eins eða fleiri storkuþátta, önnur hindra samloðun blóðflagna.

Blóðtappaleysandi lyfjum er ætlað að leysa upp blóðtappa sem þegar hefur myndast. Lyfin örva ensím og við það brotnar fíbrín niður og blóðtappinn leysist upp. Með þessum hætti reynist unnt að opna að nýju æðar sem hafa lokast af blóðsega.

Verkun lyfsins fylgir óhjákvæmilega aukin blæðingartilhneiging. Hætta er á blæðingum ef of stórir skammtar eru teknir. Við það geta komið fram stórir marblettir, blæðingar frá tannholdi og blóð í þvagi eða saur. Við verulega ofskömmtun geta blæðingarnar orðið lífshættulegar. Fyrir ákveðin lyf er mikilvægt að stilla skammta vel og fara reglulega í eftirlit þar sem blóðið er mælt með tilliti til storknunar. Fyrir utan aukna blæðingarhættu eru aukaverkanir óverulegar út af lyfjum sem hafa áhrif á storkukerfið sjálft, líka þeim sem leysa upp blóðsega. Öllu algengara er að aukaverkanir fylgi lyfjum sem hafa áhrif á samloðun blóðflagna. Má þar nefna einkenni frá meltingarfærum, húð og miðtaugakerfi. Alvarlegri aukaverkun, en sjaldgæfari, er sú þegar lyfin fækka svo mikið hvítum blóðkornum að hættuástand skapast. Auk rannsókna á storknunartilhneigingu blóðs þarf að framkvæma heildarblóðfrumutalningu hvenær sem grunur leikur á um að slík einkenni gætu komið fram meðan á meðferð stendur. Af þessum sökum eru segavarnandi lyf oftast notuð í skamman tíma, eða því aðeins að önnur lyf hafi ekki komið að gagni.

 

B02 Blæðingalyf

Verði truflun á blóðstorknun í þá veru að blæðingartími lengist gæti reynst nauðsynlegt að grípa til blæðingarlyfja. Til eru arfgengir blæðingasjúkdómar þar sem einn eða fleiri storkuþátt vantar í storkuferlið. Flestir kannast við dreyrasýki sem verður til vegna gallaðs gens sem erfist frá móður til sonar, eða frá föður til dóttur. Einungis karlmenn veikjast og eru blæðarar en konur eru arfberar. Hægt er að gefa einstaka storkuþætti en ekki fyrr en búið er að greina hvaða storkuþátt vantar. Ásamt því að hafa arfbundinn skort á storkuþáttum er hægt að vera með áunna blokkara gegn þeim.

Storkuþættir eru yfirleitt framleiddir með líftækniaðferðum eða úr blóði manna. Helsta vandamálið sem kemur upp í lyfjagjöf er það þegar sjúklingar mynda mótefni fyrir storkuþáttunum sem verið er að gefa þeim.

K-vítamín er nauðsynlegt til að blóð storkni, en nokkrir storkuþættir eru háðir því að nægjanlegt magn af K-vítamíni sé í líkamanum til þess að svo verði. K-vítamín er gefið við blæðingum eða blæðingarhættu vegna skorts á K-vítamíni. Það er einnig notað sem mótefni ef gefnir hafa verið of stórir skammtar af vissum segavarnarlyfjum. Lyfið er líka gefið nýburum til að varna hættu á blæðingum. Lyfið veldur sárasjaldan aukaverkunum.

Hafi vefur skaddast og æðar skemmst, storknar blóðið í æðunum til þess að blæðing stöðvist sem fyrst. Síðar, þegar vefurinn hefur náð að jafna sig, leysist þessi blóðstorka upp og æðarnar geta aftur á ný tekið við að flytja blóð. Stafi blæðingarnar ekki af skorti á storkuþáttum eða K-vítamínskorti, er gefið lyf sem varnar því að blóðstorkan leysist upp of fljótt. Lyfið er einkum notað eftir skurðaðgerðir þegar blæðingarhætta er fyrir hendi, við miklum tíðablæðingum eða blóðnösum, blæðingum frá tannholdi og blæðingum innvortis. Lyfið er einnig hægt að nota í öðrum tilvikum, eða þegar staðbundin vökvasöfnun hefur orðið í húð og slímhúð. Af aukaverkunum lyfsins má helst nefna meltingaróþægindi eins og niðurgang, ógleði og uppköst.

B03 Blóðskortslyf

Blóðleysis gætir venjulega þegar framleiðsla minnkar á rauðum blóðkornum og stafar af blóðmissi. Til að framleiða rauð blóðkorn þarf m.a. járn, B12- vítamín og fólínsýru. Ef eitthvert þessara efna vantar, eða er í litlum mæli í líkamanum, dregur með tímanum úr framleiðslu á rauðum blóðkornum og einkenni um blóðleysi láta ekki standa á sér. Áður en meðferð við blóðleysi hefst er nauðsynlegt að taka blóðprufu til að komast að því af hvaða toga blóðleysið er svo að hægt sé strax að hefja réttu meðferðina.

Við járnskorti eru teknar inn töflur eða mixtúra sem hvor tveggja er hægt að fá í lausasölu í apóteki. Helstu aukaverkanir járns eru magaóþægindi, niðurgangur eða hægðatregða. 

Blóðleysi af völdum B12-vítamínskorts er meðhöndlað með því sprauta vítamíninu í vöðva, fyrst annan hvern dag, síðan á nokkurra vikna fresti.

Fólínsýra er tekin inn við blóðleysi af völdum fólínsýruskorts og á meðgöngu. Skorti fólínsýru á meðgöngu eykst hætta á klofnum hrygg hjá fóstrinu.

Hormón sem myndast í nýrum manna örvar framleiðslu á rauðum blóðkornum í beinmerg. Þeir sem eru með alvarlega nýrnasjúkdóma, eða eru án nýrna, skortir oft þetta hormón og gætu þar af leiðandi þjáðst af blóðskorti. Hormónið er hægt að framleiða með erfðatækni og þarf að gefa það að staðaldri einu sinni til þrisvar í viku. Aukaverkanir láta oft kræla á sér, algengast er að lyfið valdi hækkuðum blóðþrýstingi.

B05 Blóðlíki og skolvökvar

Ýmsar tegundir af næringarlausnum, blóðvökvalíki, vítamíni og steinefnablöndum, ásamt ýmsum saltlausnum og skolvökvum er hér að finna.

Til eru þeir sem ekki geta nærst á eðlilegan máta til lengri eða skemmri tíma og fá alla sína næringu í æð. Fjöldinn allur er til af næringarlausnum sem innihalda prótein, fitu eða kolvetni ásamt blöndum þessara efna. Hinum sömu eru gefin sölt til að saltjafnvægi líkamans haldist rétt og þeir fá líka vítamín, snefilefni og vatn til að fyrirbyggja ofþornun. Ekki er börnum og fullorðnum gefið það sama enda um ólíkar þarfir að ræða. Næringarlausnir eru nær eingöngu gefnar á sjúkrastofnunum. Þær valda sjaldan aukaverkunum en þó mætti nefna ógleði og æðabólgu.

Við mikinn blóðmissi, t.d. eftir bruna, skurðaðgerðir eða vegna meiðsla, eru gefin blóðvökvalíki og reynt er að láta samsetningu hans líkjast blóðvökva sem mest. Blóðvökvalíki samanstendur af söltum, vökva, og stundum kolvetnum til orkugjafar. Blóðvökvalíki getur valdið ofnæmisviðbrögðum.

Albúmín er mjög mikilvægt efni. Það bindur og flytur ýmis önnur efni en blóðkorn með blóðinu og stuðlar líka að því að halda rúmmáli blóðsins stöðugu. Albúmín er gefið við skorti á próteinum eða albúmíni. Tilgangur með gjöf lyfsins er sá að bæta blóðrásina og gera blóðinu kleift að sinna hlutverki sínu á sem eðlilegastan hátt. Ofnæmisviðbrögð vegna lyfsins eru afar sjaldgæf, en geta komið fyrir.

Fyrir sjúklinga með nýrnabilun er kviðskilun aðferð til að losa líkamann við eiturefni sem myndast við umbrot köfnunarefnis en við eðlilegar aðstæður eru þau jafnan skilin út um nýru. Á sama tíma stuðlar kviðskilun að jafnvægi í vökvabúskap, elektrólýtagildum og sýrustigi. Aðferðin felst í því að láta kviðskilunarlausnina streyma um legg og inn í kvið sjúklings. Lausnin inniheldur glúkósu, ásamt ýmsum jónum, og hún hefur hærri osmótískan styrk en sjálfur blóðvökvinn. Við þetta verður til osmótískur stigull úr blóði og yfir í kvið. Eftir að lausnin hefur verið í kviðnum í fáeinar klukkustundir mettast hún af úrgangsefnum af því að úrgangsefnin flæða úr líkamanum og út í kviðskilunarlausnina. Því sem hér hefur verið lýst er þýðingarmikið að framkvæma til að vega upp á móti vökvasöfnuninni sem verður óhjákvæmilega hjá sjúklingum með langvinna nýrnabilun. Einstaklingar með biluð nýru þurfa aðallega á kviðskilun að halda en hún getur einnig verið gagnleg ef um svæsna uppsöfnun vatns er að ræða, og líka til að meðhöndla lyfjaeitranir þegar ekki er völ á annarri meðferð. Sýkingar sem tengjast kviðskilunarlegg eru algengustu aukaverkanir, að meðaltali verður u.þ.b. ein sýking á hverjum tveimur meðferðarárum.

 

B06 Önnur blóðlyf

Í þessum flokki er meðal annars að finna lyf sem eru ensím, lyf með hemhóp, lyf notuð við arfgengum ofsabjúg og önnur blóðlyf.