Næring Skólabarna

Almenn fræðsla Næring Vítamín

  • Skolamatur

Holl næring er öllum nauðsynleg ekki síst börnum sem eru að vaxa og þroskast. En hvað á að gefa börnunum að borða þannig að þeim líði vel og gangi sem best í leik og starfi? Morgunverðurinn er oft sagður mikilvægasta máltíð dagsins. Hann þarf þó ekki að vera flókin máltíð, t.d. er kornmatur og mjólkurmatur ásamt ávöxtum eða hráu grænmeti góður morgunmatur og getur samsetningin verið á ýmsa vegu. Sem dæmi má nefna hafragraut eða morgunkorn með mjólk og ávexti, brauð með áleggi og grænmeti ásamt mjólk eða súrmjólk með múslí ásamt ávaxtabita. Þeir sem hafa meiri lyst á morgnana geta bætt við brauðsneið með áleggi. Velja ætti sýrðar mjólkurvörur og morgunkorn með sem minnstum sykri. Lýsi eða annar D-vítamíngjafi er svo ómissandi með morgunmatnum.

Nesti
Fyrir þá sem borða vel á morgnana hentar vel að fá sér ávöxt og eitthvað að drekka, t.d. vatn í nestistíma á morgnana. Hinir sem hafa borðað minna þurfa meira að borða, t.d. samloku með góðu áleggi til viðbótar við ávöxtinn. Æskilegast væri ef börnin gætu fengið ávextina í áskrift líkt og tíðkast hefur með drykkina í skólanum, því þeir vilja oft velkjast í skólatöskunni og eru þá ekki lystugir.

Hádegi
Í hádeginu ætti svo öllum börnum að standa til boða holl mátíð í skólanum. Til að stuðla að því hefur Lýðheilustöð gefið út Handbók fyrir skólamötuneyti. Í henni er mælt með að börnin fái heita máltíð í hádeginu sem flesta daga vikunnar. Fjölbreytnin skal höfð í fyrirrúmi, m.a. er mælt með að fiskur sé á borðum tvisvar í viku en saltur og reyktur matur sem sjaldnast. Ávalt sé grænmeti og/eða ávöxtur með hádegismatnum og einnig kalt vatn að drekka og léttmjólk (Dreitil) með orkuminni máltíðum. Ávaxta- og grænmetisneysla íslenskra barna er mjög lítil. Sex ára börn borða t.d. einungis sem svarar ¼ úr gulrót og ½ ávexti á dag að meðaltali. Skólinn er kjörinn vettvangur til þess að stuðla að bættum neysluvenjum barnanna. Með því að bjóða upp á ávexti á morgnana og grænmeti og/eða ávöxt með hádegismat leggur skólinn sitt að mörkum til að auka ávaxta og grænmetisneyslu barna. Matartíminn ætti að vera hluti af námi barnanna í skólanum en í honum gefst kjörið tækifæri til að ræða við börnin á jákvæðan hátt um hollutu og gæði matarins.

Síðdegishressing
Um miðjan dag ættu svo börnin að fá hressingu, annað hvort í skólanum, þau sem eru í lengdri viðveru, eða heima. Gjarna gróft brauð, hrökkbrauð eða bruðu með vibiti og áleggi, léttmjólk að drekka og ávöxt eða glas af hreinum ávaxtasafa í stað mjólkur af og til. Kökur, kex og annað sætmeti ættu ekki að vera á borðum dags daglega en sjálfsagt er að gera sér dagamun. Mikilvægt er að foreldrar hugi að því að hafa til hollan og aðgengilegan mat á heimilunum þegar börnin koma heim, þannig að það sé auðvelt fyrir börnin að velja holla hressingu.

Kvöldmatur
Foreldrar þurfa svo að fá góðar upplýsingar um matinn sem börnin fá í skólanum. Þannig geta þeir samræmt matinn á heimilinu við matinn í skólanum svo fæða barnsins verði ekki einhæf. Gott væri að skólinn benti foreldrum á þetta. Matseðla má t.d. birta á heimasíðu skólans.  

Næg hreyfing er svo börnunum mikilvæg ekki síður en hollur matur og ættu þau að hreyfa sig minnst klukkustund á degi hverjum. Einnig er sjálfsagt að minna á að vatn er besti svaladrykkurinn

 

Frá landlæknisembættinu 

Grein fengin frá doktor.is