Vatn er besti svaladrykkurinn

Almenn fræðsla Næring

  • IStock_79850275_SMALL

Við búum við þau forréttindi hér á landi að geta drukkið vatn beint úr krananum og bragðgæðin eru mikil. Í vatni er enginn viðbættur sykur, engin sætuefni, engin sítrónusýra (E330), engin rotvarnarefni og engin bragðefni.

Vatn er því besti svaladrykkurinn og er óhætt að drekka vel af því. Vatn er nú algengasti drykkur Íslendinga og hefur vatnsdrykkja þrefaldast frá árinu 1990 samkvæmt niðurstöðum Landskönnunar á mataræði fullorðinna frá 2010/11 og er það mjög jákvæð þróun.

Vökvaþörf er breytileg meðal manna

Stærstur hluti mannslíkamans er vatn og er nægilegt magn vökva nauðsynlegt fyrir eðlilega líkamsstarfsemi. Vökvaþörf er breytileg meðal manna og ræðst meðal annars af aldri, líkamsstærð, veðri og því hversu mikið menn hreyfa sig.

Á meðan 1-1,5 lítrar vökva úr drykkjum á dag ættu að duga flestum fullorðnum er vökvaþörf þeirra, sem hreyfa sig mikið eða tapa vökva af öðrum völdum oft meiri.

Takmarka þarf neyslu gos- og svaladrykkja

Neysla gosdrykkja hefur aukist mikið undanfarna áratugi hér á landi og er meiri en á hinum Norðurlöndunum. Tölur um fæðuframboð sýna tæplega hálfan lítra á hvern íbúa á dag eða samtals 146 lítra fyrir hvern íbúa á ári, hvort heldur um er að ræða börn, fullorðna eða eldra fólk.

Niðurstöður nýlegrar kerfisbundinnar yfirlitsgreinar (systematic review) sýndu að mikil neysla á sykruðum drykkjum, svo sem gosdrykkjum og djús, eykur að öllum líkindum hættu á sykursýki af tegund 2.

Hugsanlega skiptir neyslumynstur máli, en það virðist t.d. hafa mismunandi áhrif á efnaskipti líkamans hvort sykurs er neytt í minni skömmtum yfir daginn eða í miklu magni á stuttum tíma, eins og oft á við þegar sykraðra drykkja er neytt.

Mikil neysla sykraðra gosdrykkja og annarra sykraðra svaladrykkja hefur einnig verið tengt við aukna tíðni offitu. Það er því mikilvægt að takmarka neyslu gos- og svaladrykkja og velja vatn í staðinn.

Kolsýrt vatn án sítrónusýru getur einnig verið góður valkostur en mikilvægt er að hafa í huga að margir svaladrykkir á íslenskum markaði hafa glerungseyðandi áhrif og gildir það jafnt um gosdrykki, íþróttadrykki, orkudrykki og vatnsdrykki með sítrónusýru.

Auðveld leið til að auka vatnsdrykkju

Auðveld leið til að minnka gosdrykkjaneyslu og þar með sykurneyslu er að drekka vatn í staðinn. Einnig má draga úr óhóflegri kaffidrykkju með því að auka vatnsdrykkju.

Við erum svo lánsöm að geta nálgast hreint vatn beint úr krananum og því tilvalið að notfæra okkur það í ríkari mæli.

Til að stuðla að aukinni vatnsdrykkju má huga að því að bæta aðgengi að góðu drykkjarvatni. Það er hægt að gera með því að koma upp drykkjarbrunnum í skólum, íþróttahúsum og á vinnustöðum og draga úr framboði á óhollari vörum. Kalt og gott vatn ætti að vera alls staðar aðgengilegt þar sem börn og fullorðnir eru við leik og störf.

Stuðlum að betri heilsu með því að velja vatn sem oftast - besta svaladrykkinn.

Elva Gísladóttir, næringarfræðingur hjá Embætti landlæknis

Heimildir:

  • Ráðleggingar Embættis landlæknis um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri
  • Sonestedt E, Øverby NC, Laaksonen DE, Birgisdottir BE. Does high sugar consumption exacerbate cardiometabolic risk factors and increase the risk of type 2 diabetes and cardiovascular disease? Food & Nutrition Research 2012. 56:19104 
  • Vartanian LR, Schwartz MB, Brownell KD. Effects of Soft Drink Consumption on Nutrition and Health: A Systematic Review and Meta-Analysis. American Journal of Public Health 2007;97:667-675. doi:10.2105/AJPH.2005.083782.

Greinin birtist í blaðinu Mosfellingur, 30. janúar 2014 - 2. tbl. 13. árg.