Brjóstamjólk og ónæmiskerfið

Getur brjóstagjöf haft varanleg áhrif á heilsu barnsins?

Ofnæmi

  • Brjostamjolk-og-onaemiskerfid

Nýlega hefur verið sýnt fram á langvarandi áhrif brjóstagjafar á ónæmiskerfi barnsins.

Þetta veitir vörn fyrir sýkingum árum saman og niðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar í Svíþjóð benda til þess að vörn fyrir vissum sýkingum geti varað í allt að 10 ár. Flutningur á frumum úr ónæmiskerfi móður til brjóstmylkings virðist einnig verja barnið fyrir ofnæmi og sjálfsofnæmissjúkdómum síðar á ævinni. Menn eru hægt og hægt að átta sig á þessum staðreyndum og að skilja hvernig það gerist.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lengi rekið áróður fyrir brjóstagjöf í þróunarlöndunum. Ástæður þessa eru einkum tvær, brjóstagjöf lækkar ungbarnadauða og fækkar fæðingum. Drykkjarvatn og fæða eru víða sýklamenguð í þessum löndum og reiknað hefur verið út að 40% aukning brjóstagjafa gæti lækkað dánartíðni vegna niðurgangs hjá börnum undir 18 mánaða aldri um 66%. Meirihluti mæðra eru ófrjóar meðan þær eru með barn á brjósti og þannig lengir brjóstagjöf bilið milli fæðinga og lækkar fæðingatíðni. Af þessum ástæðum hafa menn verið almennt sammála um gagnsemi brjóstagjafa í fátækum löndum heims en ekki eins sammmála um það hvort brjóstagjafir í löndum eins og Evrópu og Norður-Ameríku séu eins gagnlegar eða yfirleitt heppilegar. Þrátt fyrir sterkar hefðir í mörgum löndum hefur ástandið verið að breytast og með rannsóknum og aukinni þekkingu koma sífellt í ljós fleiri kostir brjóstagjafa.

Líkaminn myndar ýmsar gerðir mótefna sem drepa sýkla eða gera þá óvirka. Í blóðinu eru m.a. mótefni af gerð sem kallast IgG (Immunoglobulin-G) en aðra gerð sem nefnist IgA er einkum að finna í slími á yfirborði slímhúða. Slímhúðamótefnin IgA hafa mikla þýðingu fyrir varnir líkamans enda komast sýklar oftast inn í líkamann gegnum slímhúðir og 70-80% af mótefnum líkamans eru af þessari gerð. Um síðustu aldamót fundu menn að brjóstamjólk inniheldur mikið af mótefnum og löngu síðar kom í ljós að þessi mótefni eru að mestu leyti af gerðinni IgA. Þessi mótefni í mjólk eru mynduð í brjóstunum en beinast gegn sýklum (bakteríum, veirum og sveppum) í meltingarfærum móðurinnar. Sýklar í meltingarfærum móðurinnar eru einnig líklegir til að vera í meltingarfærum barnsins sem fær með mjólkinni ágæta vörn meðan ónæmiskerfið er ekki orðið nógu þroskað. Um er að ræða mjög mikið magn mótefna sem sést af því að móðirin myndar um 2,5 g af IgA á dag fyrir sig sjálfa en barnið sem er aðeins fáein kg að þyngd fær með móðurmjólkinni 0,5 - 1 g á dag. Í brjóstamjólk eru ýmis fleiri efni sem verja barnið fyrir árásum sýkla, má þar nefna laktóferrín og lysózým sem drepa bakteríur. Í brjóstamjólk er einnig mikið af ýmsum fásykrungum sem verja meltingarfærin fyrir sýklum og eiturefnum sem þeir mynda.

Það er vel staðfest að brjóstagjöf fækkar sýkingum. Mest sláandi eru áhrifin á niðurgang vegna sýkingar í meltingarfærum en einnig er vitað að brjóstmylkingar fá síður miðeyrnabólgu, öndunarfærasýkingu, blóðsýkingu og þvagfærasýkingu. Sum af þessum varnandi áhrifum eru langvarandi og virðast geta varað í allt að 10 ár. Börn sem fengið hafa brjóstamjólk taka betur en önnur við bólusetningum enda virðist brjóstamjólkin hafa almennt örvandi áhrif á ónæmiskerfið. Brjóstabörn fá síður sykursýki en önnur og vísbendingar eru um það sama varðandi mænusigg (MS), liðagigt og blæðandi ristilbólgu en það þarf að staðfesta betur. Til eru rannsóknir sem gefa til kynna lægri tíðni ofnæmis og astma hjá brjóstabörnum en öðrum, en flestir eru sammála um að þetta þurfi að rannsaka betur.

Af öllu þessu er auðvelt að draga þá ályktun að þær mæður sem á annað borð geta haft börn sín á brjósti ættu að gera það og að stuttur tími er betri en enginn. Ekki má gleyma því að móðir sem sýkt er af alnæmi getur smitað barn sitt með móðurmjólkinni og stundum neyðast konur til að taka lyf sem útiloka brjóstagjöf.

Magnús Jóhannsson, læknir.