Exem

Algengir kvillar

Exem lýsir sér sem bólga í húð. Það byrjar oft sem kláði og stundum roði. Síðar myndast rauðleitir hnútar og/eða vessafylltar blöðrur. Ef blöðrurnar springa myndast grunn, vessandi sár. Exemið þróast síðan yfir á þurrara stig þannig að vessinn þornar og hrúður myndast.

Exem lýsir sér sem bólga í húð. Það byrjar oft sem kláði og stundum roði. Síðar myndast rauðleitir hnútar og/eða vessafylltar blöðrur. Ef blöðrurnar springa myndast grunn, vessandi sár. Exemið þróast síðan yfir á þurrara stig þannig að vessinn þornar og hrúður myndast. Exem getur stafað af mismunandi orsökum þótt einkennin séu oft áþekk. Helstu orsakir eru erfðaþættir, ofnæmi eða efni sem er í sífelldri snertingu við húðina og skaðar hana. Börnum er sérlega hætt við að fá ákveðnar gerðir exems, sennilega vegna þess hversu viðkvæm húð þeirra er.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef exemið er mjög vessandi eða er langvinnt.
  • Ef exemið er víða sett djúpum sprungum.
  • Ef þú ert með exem kringum augun.
  • Ef barn fær exem.
  • Ef þú hefur farið eftir þeim ráðum sem hér eru gefin og þau koma ekki að gagni, þarftu ef til vill sterkari lyf eða þú ert haldinn einhverjum húðsjúkdómi sem þarfnast annarrar meðferðar.


Hvað get ég gert?
Vægt exem sem lýsir sér með lítilsháttar roða og þurri húð þarf ekki alltaf að valda miklum óþægindum. Þá getur verið nóg að bera mýkjandi krem á exemið. Forðastu að klóra eða nudda þurra og viðkvæma húð. Það ertir ysta borð húðarinnar og gerir aðeins illt verra. Reyndu heldur að klípa húðina varlega þar sem klæjar eða þrýsta á hana. Það getur linað kláðann án þess að skaða húðina. Kroppaðu hvorki né rífðu upp hreistur eða lausar húðflögur. Berðu mýkjandi og þunnfljótandi krem oft á þig.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Ef þú finnur fyrir miklum óþægindum vegna exemsins, til dæmis vegna kláða, getur þú reynt lyf sem inniheldur hýdrókortisón. Það er bólguhemjandi og kláðastillandi. Um er að ræða lyfið Mildison Lipid sem er feitt krem. Notaðu líka mýkjandi krem eða smyrsli, til dæmis Akvósum smyrsli, Decubal, Essex, Hýdrófíl krem, Eucerin eða Locobase. Berðu mýkjandi krem á þig í þunnu lagi og svo oft á dag að húðin verði aldrei þurr. Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.

Hvað get ég gert í forvarnarskyni?

Notaðu plasthanska (helst með bómullarfóðri sem tekur til sín raka húðarinnar) við uppþvott, þvotta og störf þar sem þú óhreinkar hendurnar. Forðastu allt sem þurrkar hendurnar, því að exemið magnast eftir því sem húðin er þurrari. Hafðu í huga að sápuefni veikja varnir húðarinnar. Klæðstu hönskum á veturna. Forðastu að þvo þér um andlitið á morgnana ef mjög kalt er í veðri. Reyndu að halda húðinni góðri með því að nota mýkjandi krem reglulega. Berðu helst alltaf krem á hendurnar þegar þú þværð þér og gleymdu ekki að bera á húðina milli fingranna. Þegar meðferð með hýdrókortisóni er afstaðin er mikilvægt að halda meðferðinni áfram með mýkjandi kremi til þess að viðhalda bata. Slepptu því að láta setja gat í eyrun. Þú átt þá á hættu að fá nikkelofnæmi. Nikkel er það efni sem oftast veldur ofnæmi og það finnst í nær öllum ódýrum skartgripum. Ef þú ert með göt í eyrum skaltu nota eyrnalokka sem innihalda ekki nikkelmálm.