Rósroði

Húðsjúkdómar

  • Rosrodi

Rosacea er krónískur húðsjúkdómur þar sem skiptast á betri og verri tímabil. Oftast eru breytingarnar á kinnum, nefi , höku og enni.

Húðbreytingarnar samanstanda af:

  • Húðroða
  • Aukinni æðateikningu í andlitinu
  • Litlum upphækkunum í húðinni
  • Bólgu í húðinni
  • Litlum graftarbólulíkum breytingum

Margir sjúklingar finna að ýmislegt utanaðkomandi veldur versnun á einkennunum.

Dæmi eru: 

  • Heitir drykkir
  • Sterkt kryddaður matur
  • Áfengi 
  • Sól og hitabreytingar

Sjúkdómurinn er nokkuð algengur. Kemur oft fyrir á bilinu 30-40 ára. Orsök hans er óþekkt en sjúkdómurinn smitar ekki. Í einstaka tilfellum hleypur ofvöxtur í húðina á nefinu (rhinophyma). Þetta gerist þó nær eingöngu hjá karlmönnum. Um 50% sjúklinga hafa einkenni frá augum svo sem sviða, bólgur og önnur óþægindi.

Meðferð
Besta meðferð eru tetracyclin lyf sem eru sýklalyf (t.d. Doxylin). Þá er oft byrjað á fullum skammti og síðan trappað niður í lægsta skammt sem heldur sjúkdómnum niðri. Þegar húðin hefur verið góð í nokkurn tíma má hætta með lyfið og byrja síðan aftur blossi sjúkdómurinn upp á ný.

Við vægum einkennum má nota krem sem innihalda metronidazol, azelaic acid krem eða krem sem innihalda brennistein (Sulfur). Einnig er hægt að nota lausn sem inniheldur sýklalyfið clindamycin. Við sjúkdómi sem svarar illa meðferð má nota laser meðferð.

Varast skal að nota sterk kortison krem í andlitið (sterarkrem) því það gerir sjúkdóminn verri.

Steingrímur Davíðsson, húðlæknir.