Lús, hvað skal gera?

Algengir kvillar

  • IStock_88442153_SMALL

Mikilvægt er að þeir sem greinast með höfuðlús eða forráðamenn þeirra bregðist strax við smitinu, með þeim aðferðum sem ráðlagðar eru hér á eftir, til að komið sé í veg fyrir dreifingu til annarra.

Hver eru einkenni smits?

  • Tveir af hverjum þremur sem smitaðir eru af höfuðlús hafa engin einkenni.
  • Einn af hverjum þremur fær kláða. Kláðinn stafar af ofnæmi, sem myndast með tímanum (frá nokkrum vikum að þremur mánuðum), gegn munnvatni lúsarinnar sem hún spýtir í hársvörðinn þegar hún sýgur blóð. Kláðinn getur orðið mikill og húðin roðnað og bólgnað þegar viðkomandi klórar sér og í einhverjum tilfellum geta komið sár sem geta sýkst af bakteríum.

Smitleiðir

  • Lúsin getur farið á milli hausa ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt. 
  • Höfuðlús sem fallið hefur út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þ.a.l. ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt en ekki er þó hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli.

Greining

  • Leita þarf að lús í höfuðhárinu með nákvæmri skoðun, en það er best gert með kembingu með lúsakambi yfir hvítum fleti eða spegli og hafa góða birtu.
  • Mörgum finnst þægilegra að kemba blautt hár sem í er hárnæring (sjá nánari lýsingu um kembingu) en öðrum finnst þægilegra að kemba hárið þurrt.
  • Finnist lús, jafnvel bara ein, er það merki um að viðkomandi er með höfuðlús og þarf meðferð. Meðferðin getur falist í kembingu eingöngu (einu sinni á dag í 14 daga) eða meðferð með lúsadrepandi efnum.
  • Nit lítur í fljótu bragði út eins og flasa, en ólíkt flösu er hún föst við hárið og er helst að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi.

Meðferð við höfuðlús

Til að greina höfuðlús í hári þarf að kemba hárið með góðum lúsakambi. Einungis skal meðhöndla með lúsadrepandi efni, þá sem hafa í hári sínu lifandi lús.

Höfuðlúsaeyðing með „náttúrulegum" efnum
Rannsóknir hafa sýnt að jurtaseyði og ýmis gömul húsráð (s.s. að setja júgursmyrsli eða vaselín í hárið, majonesu, ólívuolíu, jurtaolíu o.s.frv.) drepa ekki höfuðlýs þó eitthvert gagn hafi reynst vera af Tea tree olíu. Ekki er hægt að mæla með notkun ilmolíu í baráttunni við höfuðlús og líklegt er að slíkt geri ekkert gagn - engar rannsóknir eru til að styðja notkun slíkra efna. Aftur á móti hefur þekkst til að notast sé við Tea tree olíu í fyrirbyggjandi tilgangi gegn höfuðlúsinni.

Aldrei skal setja í hárið eldfim efni og eitruð, s.s. bensín eða kerósón, né efni sem ætluð eru til nota á dýrum.

Ef meðferð ber ekki árangur er líklegast að ekki hafi verið rétt staðið að henni s.s. að ekki hafi verið notað rétt efni, að ekki hafi verið notað nægilega mikið efni, að efnið hafi ekki verið haft nægilega lengi í hárinu eða að endursmit verði frá sýktum einstaklingum í umhverfinu s.s. fjölskyldumeðlimum eða nánum vinum.

Þrif í umhverfi 
Ekki er þörf á sérstökum umhverfisþrifum til að ráða niðurlögum lúsasmits. Höfuðlýs í umhverfinu eru til lítils megnugar þegar þær eru ekki í hlýju höfuðhárs og með aðgang að mannsblóði og deyja á 15–20 klst., þ.e.a.s. innan sólarhrings.

Ef talin er þörf á, t.d. þar sem er sameiginleg greiða eða bursti, er rétt að þvo slík áhöld með heitu sápuvatni eða hella yfir þau heitu vatni og láta standa í nokkrar mínútur.

Lúsakamburinn
Mikilvægt er að nota góðan lúsakamb. Bilið milli teinanna má ekki vera meira en 0–3 mm. Best er að nota kamba með stífum teinum.

Kembing í leit að höfuðlús í blautu hári

  • Þvo hár með venjulegri aðferð, skola og setja venjulega hárnæringu sem höfð er áfram í hárinu og hárið haft blautt.
  • Greiða burtu allar flækjur - hárið er enn blautt.
  • Skipta hárinu upp í minni svæði, til að auðvelda skoðun alls hársins.
  • Skipta frá greiðu/bursta yfir í lúsakamb og hafa undir hvítt blað eða spegil, til að auðveldara sé að sjá hvort lús fellur úr hárinu.
  • Draga kambinn frá hársverði að hárendum og endurtaka þar til farið hefur verið vandlega í gegnum allt höfuðhárið.
  • Eftir hverja stroku skal skoða hvort lús hefur komið í kambinn og þurrka úr með bréfþurrku áður en næsta stroka er gerð.
  • Nit lúsarinnar, sem líkist flösu í fljótu bragði en er föst við hárið, er oft að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi. Nit ein og sér er ekki órækt merki um smit, sérstaklega ekki ef hún er langt frá hársverðinum því þá er lúsin í henni að öllum líkindum dauð.
  • Eftir kembingu alls hársins skal skola úr hárnæringuna.
  • Kemba aftur til að athuga hvort einhver lús hefur orðið eftir.
  • Ef lús finnst við kembingu þarf að þvo hárnæringuna úr og þurrka hárið, áður en meðferð með lúsadrepandi efni hefst.
  • Þrífa kambinn með heitu sápuvatni og þurrka. 

Lúsadrepandi efni sem seld eru í Lyfju

Greinin er fengin frá Landlæknir.is