Vefjagigt

Vefjagigt

Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni (e. syndrome) sem er best þekkt hjá fullorðnum og er fjórum sinnum algengari hjá konum en hjá körlum.

Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari, BSc, MTc og lýðheilsufræðingur MPH.

Talið er að vefjagigt hrjái 1 - 5% fólks á hverjum tíma.

Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, óeðlileg þreyta, svefntruflanir og skert færni til daglegra athafna. Orsakir vefjagigtar eru ekki þekktar en talið er líklegt að erfðir ráði einhverju um hverjir fái sjúkdóminn og margir þættir eru þekktir sem geta átt þátt í að koma vefjagigtarferlinu af stað.

Rannsóknarniðurstöður sem liggja fyrir benda til að draga megi úr einkennum vefjagigtar með ýmsum meðferðarúrræðum. Meðferð sem felur í sér fræðslu, þátttöku sjúklings, bættu svefnmynstri með eða án lyfjagjafar, reglulegri líkamsþjálfun og hugræna atferlismeðferð hefur gefið góðan árangur.

Vefjagigt viðurkennd
Sjúkdómsheitið vefjagigt kom fram um 1980, en áður hafði þessi sjúkdómur gengið undir hinum ýmsu sjúkdómsheitum og má þar nefna festumeinagigt (e. enthesopathia), (e. chronic rheumatism) og hugsýki (e. hysteria). Árið 1993 var vefjagigt síðan formlega skilgreind sem heilkenni af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (the World Health Organisation, WHO). Síðan þá hefur sjúkdómsheitið “vefjagigt” smám saman verið að styrkjast og svo er komið að flestir heilbrigðisstarfsmenn þekkja til sjúkdómsins. Algengi

Vefjagigt finnst hjá báðum kynjum, en er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið a.m.k. 3 - 4 konur á móti einum karli. Sjúkdómurinn er þekktur í öllum aldurshópum og er algengastur hjá konum á miðjum aldri, en börn, unglingar og aldraðir geta líka fengið vefjagigt. Talið hefur verið að vefjagigt hrjái 2 - 13 % fólks á hverjum tíma. Líklega er það of há tala því yfirlitsgrein frá 2006 reiknar með að algengi vefjagigtar sé á bilinu 0,66 - 4,4%.Orsakir

Enn er ekki vitað um neinn ákveðinn orsakaþátt sem getur skýrt allar myndir vefjagigtar, en margar mismunandi kenningar eru á lofti. Rannsóknir hafa sýnt að erfðir eigi þar þátt en aðrir þættir eins og andlegt álag, líkamlegir áverkar, langvinnir sjúkdómar, langvinnt álag, skertur svefn og veirusýkingar stuðli að því að koma sjúkdómsferlinu af stað. Líklegast eru orsakaþættirnir margir og einstaklingsbundið er hversu mikið þarf til að koma vefjagigtinni af stað.Einkenni

Einkenni vefjagigtar eru fjölmörg, en aukið verkjanæmi, svefntruflanir og þreyta eru þau algengustu. Einstaklingsbundið er hversu mörg og hvaða einkenni hver hefur. Hér fyrir neðan er listi yfir einkenni sem geta fylgt vefjagigt. Þessi einkenni geta verið fylgikvilli annarra sjúkdóma því er mikilvægt að leita til læknis til að fá úr því skorið hvort að um vefjagigt sé að ræða.

 • Verkir í vöðvum, vöðvafestum
 • Verkir í öllum líkamanum
 • Óeðlileg þreyta
 • Svefntruflanir, vakna þreytt/ur
 • Stirðleiki
 • Liðverkir
 • Iðraólga (órólegur ristill, ristilkrampar)
 • Viðkvæmni fyrir kulda
 • Pirringur í fótum
 • Dauðir fingur (Reunaud´s phenomenon)
 • Þvagblöðrueinkenni
 • Kraftleysi, úthaldsleysi
 • Höfuðverkur
 • Dofi/þyngsli í útlimum
 • Þroti í höndum og/eða í fótum
 • Depurð
 • Óeðlilegur kvíði
 • Skortur á einbeitingu
 • Minnisleysi
 • Orðarugl, erfiðleikar með að finna rétt orð
 • Augnþurrkur, munnþurrkur
 • Ósjálfráðar hreyfingar, skjálfti í höndum, vöðvakippir
 • Hraður hvíldarpúls, stundum töluvert yfir 100 sl/mín
 • Hjartsláttarköst
 • Kaldur sviti, svitakóf

Greining
Ekki er hægt að greina vefjagigt með hefðbundnum læknarannsóknum. Blóðprufur og fleiri rannsóknir reynast í flestum tilvikum eðlilegar hjá fólki með vefjagigt og síþreytu. En blóðrannsókn er nauðsynleg til að útiloka aðra sjúkdóma. Greining byggir fyrst og fremst á sögum og líkamsskoðun og til að fá greiningu verðurákveðinn fjöldi fyrrnefndra einkenna að hafa varað í að minnsta kosti 6 mánuði. Jafnframt þurfa 11 kvikupunktar af 18 að vera jákvæðir við þreifingu. Kvikupunktar eru ákveðnir punktar í vöðvum og vöðvafestum sem hafa verið kortlagðir og eru kvikuaumir við þreifingu hjá fólki með vefjagigt. Svefnrannsókn er stundum gerð til að greina hverskonar svefntruflun er um að ræða.

Margar rannsóknir staðfesta ýmsar truflanir á líkamsstarfsemi vefjagigtarsjúklinga m.a. starfsemi miðtaugakerfis, en þær eru ekki gerðar að öllu jöfnu. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós að of lítið magn er af taugaboðefnunum serotóníni og norepinefríni og of mikið af taugaboðefninu substance P í mænuvökva. Einnig hefur verið sýnt fram á að truflun í starfsemi miðtaugakerfisins í fleiri rannsóknum og má þar nefna skert blóðflæði í heila og með stafrænum segulómskoðunum (þetta tæki er ekki til hér á landi) hefur verið hægt að staðfesta aukið verkjanæmi hjá fólki með vefjagigt.

Meðferð við vefjagigt
Þrátt fyrir að þekkingu á vefjagigt hafi fleygt mikið fram þá er ekki til nein meðferð sem hefur áhrif á öll einkenni hennar. Á síðustu tveimur áratugum hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum hinna ýmsu meðferðaúrræða á vefjagigt. Niðurstöður þeirra benda til að meðferð sem felur í sér fræðslu, þátttöku sjúklinga, betri svefn og líkamsþjálfun gefi góðan árangur.Einnig benda margar rannsóknir til að sálfræðimeðferð, einkum hugræn atferlismeðferð bæti líðan og ástand þeirra.

Samantekt á niðurstöðum vísindarannsókna

Fræðsla
Sterkar vísindalegar sannanir liggja fyrir að markviss fræðsla um sjúkdóminn og leiðir til bættrar heilsu sé áhrifarík í meðferð við vefjagigt.
Áhrif: Dregur úr verkjum og þreytu, bætir svefn, sjálfsárangur, lífsgæði og úthald.

Lyf
Þríhringlaga geðdeyfðarlyf (TCA), Amitryptiline ® o.fl.
Áhrif: Hjálpar til við svefn og bætir almenna líðan.

Serotónín sértæk endurupptöku hamlandi lyf (SSRI lyf; selective serotonin re-uptake inhibitors), Flúoxetín Actavis ® o.fl.
Áhrif: Bætir almenna líðan.

Serotónín og norepinefrín endurupptöku hamlandi lyf (DRI; dual re-uptake inhibitors), Cymbalta ® o.fl.
Áhrif: Dregur úr verkjum, depurð, bætir andlega og líkamlega líðan.

Pregabalin ( Lyrica ®) hefur mest verið rannsakað í vefjagigt. Flogaveikilyf sem hefur áhrif á rafspennuboð þ.e. dregur úr rafspennu í taugavef.
Áhrif: Hjálpar til við svefn, dregur úr þreytu, verkjum og bætir almenna líðan.


Þjálfun
Þolþjálfun hefur gefið einna bestan árangur á einkenni vefjagigtar. Fyrsta rannsóknin sem sýndi fram á gagnsemi þjálfunar var gerð fyrir 20 árum, síðan hafa endurteknar rannsóknir sýnt fram á árangur.

Styrktarþjálfun. Fáar rannsóknir til en þær hafa sýnt einhvern árangur, frekari rannsókna er þörf. Rannsókn Bircan C og félaga (2007) sýndi fram á svipuð áhrif þolþjálfunar og styrktarþjálfunar á einkenni vefjagigtar. Ný rannsókn Figuera A og félaga (2008) bendir til að styrktarþjálfun dragi úr verkjaupplifun, auki vöðvastyrk, bæti parasympatíska virkni o.fl..

Hópþjálfun í vatni hefur sýnt fram á góðan árangur.

Önnur þjálfun - Qhi qoung, samsett þjálfun hafa einnig gefið ákveðinn árangur.

Áhrif þjálfunar: Bætt úthald, betri líðan. Áhrif þjálfunar þverra um leið og reglulegri þjálfun er hætt.

Hugræn atferlismeðferðNokkuð góðar vísindalegar sannanir liggja fyrir að hugræn atferlismeðferð (HAM) hafi bætandi áhrif á líðan vefjagigtarsjúklinga og að árangur vari í langan tíma eftir að meðferð líkur.

Til að sem bestur árangur náist þarf að afla sér þekkingar á sjúkdómnum, finna meðferðaraðila sem hafa þekkingu á vefjagigt og vera virkur í meðferðinni. Mikilvægt er að hver og einn finni sinn eigin lífstíl, sem bætir líðan og ástand. Einstaklingsbundið er hvaða meðferðar er þörf, en algengt er að nota lyfjameðferð, sjúkraþjálfun, líkamsþjálfun, sálfræðimeðferð, slökun og streitustjórnun. Hnykklækningar, osteopathy, iðjuþjálfun, nudd, nálastungur, verkjasprautur, breytt mataræði og ýmsar náttúrulækningar geta einnig verið hluti af meðferð.

Horfur
Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur þannig að ekki er hægt að bíða eftir því að veikindin líði hjá eins og um flensu sé að ræða. Sjúkdómsgangur er einstaklingsbundinn, sumir geta orðið nær einkennalausir á löngum tímabilum, meðan aðrir eru með viðvarandi einkenni sjúkdómsins. Almennt er þó hægt að fullyrða að flestir sem fá meðferð við einkennum sínum og læra að lifa með vefjagigtinni fái nokkurn bata af einkennum sínum.

Heimildir:  Efni greinarinnar er unnið að mestu af vefnum www.vefjagigt.is og er þar hægt að nálgast heimildaskrár.